Lyfjadreifing
Þriðjudaginn 06. mars 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um þetta frv. sem ég tel í sjálfu sér eðlilega breytingu. Hér er um að ræða tillögu til að laga lyfjadreifingu að breyttum aðstæðum í heilbrigðisþjónustunni. Ástæða þess að ég kem hér upp er fyrst og fremst sú að flutningur þessa frv. vekur upp hugsun og spurningar um hvort ekki sé kominn tími til þess að endurskoða lyfjadreifingu og skipulag hennar eins og hún er nú og þar með lögin sem um hana gilda. Þessu hefur fylgt vaxandi kostnaður innan heilbrigðiskerfisins fyrir ríkið sem reynt hefur verið að koma böndum á með ýmsum aðferðum en gengið misvel. Á síðustu vikum hafa einmitt verið send út tilmæli til lækna og reynt að koma á fyrirskipunum um notkun ódýrari lyfja en áður. Að mínu viti þarf í raun miklu róttækari endurskoðun á þessum málum öllum. Og ég vil aðeins víkja að því hér og minna á að það er mjög nauðsynlegt, eins og með marga aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar, að endurskoða reglulega bæði skipulag og megináherslur og jafnvel hugmyndafræði sem liggur að baki heilbrigðisþjónustunni og hinum ýmsu þáttum hennar. En ég vek athygli hv. þm. og hæstv. ráðherra einmitt á þessum þætti.