Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Þriðjudaginn 06. mars 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Það er aðeins örstutt út af því sem hv. 4. þm. Vesturl. benti á. Það er rétt að um þetta urðu nokkuð hörð orðaskipti í Nd. en ég bendi á að um málið varð þó fullkomið samkomulag í nefnd. Ég vil að sjálfsögðu taka undir það með hv. þm. að ég tel nauðsynlegt að hv. heilbr.- og trn. skoði þetta mál ítarlega, eins og reyndar öll önnur þingmál, og átti sig á því hvað hér er í raun á ferðinni, en það held ég að þeir sem harðast töluðu gegn málinu í Nd. hafi ef til vill ekki sett sig nægjanlega vel inn í, þ.e. þeir hafi blandað inn í umræðuna óskyldum hlutum. Ég vil taka sem dæmi það sem hv. þm. nefndi sérstaklega, að Hollustuverndinni er ætlað að hafa eftirlit með mengandi starfsemi eins og stóriðju, og verður að telja eðlilegt að Hollustuverndin fylgi því eftirliti eftir, að það geri hins vegar ekki heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna eins og núna þyrfti að ske að óbreyttum lögum. Verður nánast að telja að hér hafi verið um að ræða mistök við lagasetninguna þegar núgildandi lög nr. 81/1988 voru samþykkt.
    En á hinn bóginn er það heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna sem fer með eftirlitið heima í héraði í nánast öllum tilvikum og þar sem ekki er kveðið á um það alveg skýrt í lögum þá er það samkomulagsatriði milli Hollustuverndarinnar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna ef á að fela Hollustuverndinni eftirlitið í einhverjum ákveðnum tilvikum. Hið almenna eftirlit með bóndanum eða smákaupmanninum, svo að orð hv. þm. séu notuð, er á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna og þvingunarúrræðin eða eftirlitsúrræðin eru þá líka í höndum viðkomandi aðila. Þau er ekki undir neinum kringumstæðum færð til Hollustuverndarinnar heldur aðeins í sambandi við það eftirlit sem Hollustuverndinni er falið og hún hefur með að gera. Ég treysti því þess vegna að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að hér sé um eðlilegt
og þarft mál að ræða og ekki sé verið að flytja til vald á óeðlilegan hátt eða, eins og það var orðað í Nd., að taka vald og jafnvel störf heiman úr héraði og flytja þau á höfuðborgarsvæðið til Hollustuverndar ríkisins, undir stjórnvald þar. Um það er ekki að ræða nema þá í þeim tilfellum þar sem um slíkt hefur náðst samkomulag við viðkomandi sveitarstjórnir.