Almenn hegningarlög
Þriðjudaginn 06. mars 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 468. Það er frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940, sbr. lög nr. 41/1973. Frv. þetta hefur þegar verið afgreitt frá hv. Ed. og kemur nú til meðferðar þessarar hv. deildar.
    Frv. er flutt vegna aðildar Íslands að bókun til að koma í veg fyrir ofbeldisverk í flughöfnum fyrir almenna alþjóðlega flugumferð til viðbótar við samning um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna sem gerður var í Montreal 23. sept. 1971. Hryðjuverk með alþjóðlegu ívafi halda áfram að vera alvarlegt vandamál um heim allan. Með þeim er lífi saklausra manna oft stefnt í voða og á slíkum stundum stendur hinn siðmenntaði heimur á öndinni og bíður eftir fréttum af afdrifum þeirra sem eru fórnarlömb slíkra ódæða. Ekkert land getur fyrir fram varið sig algerlega gegn slíkum ofbeldisbrotum, sama hvaða öryggisaðgerðum er beitt. Í takt við það að alþjóðleg hryðjuverk hafa aukist hefur skilningur aukist á því að til að berjast gegn slíkum brotum þarf aukið alþjóðlegt samstarf. Ástæðan er sú að þessi brot stefna oft í hættu grundvelli fyrir alþjóðasamgöngum og alþjóðasamstarfi.
    Samfara óskum um aukið alþjóðlegt samstarf á þessu sviði hafa þó komið upp vandamál þegar á að fara að skilgreina nákvæmlega í hverju samstarfið eigi að vera fólgið. Ástæður þess eru m.a. að oft eiga hryðjuverk sér forsendur í félagslegum, fjárhagslegum eða pólitískum aðstæðum þeirra er til slíkra verka grípa. Þrátt fyrir ýmis vandamál er hægt að benda á góðan árangur af alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Má þar til nefna þrjá alþjóðasamninga sem gerðir hafa verið til að auka öryggi í alþjóðaflugsamgöngum. Það er
Tókíó-samningurinn frá 1963 varðandi lögbrot og aðra verknaði í loftförum, Haag-samningurinn frá 1970 um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara og Montreal-samningurinn frá 1971 um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna.
    Í þessu samhengi er einnig rétt að benda á samninginn frá 1973 um vernd diplómata, Evrópusamninginn frá 1977 um varnir gegn hryðjuverkum og alþjóðasamninginn sem gerður var á vegum Sameinuðu þjóðanna árið 1979 um varnir gegn töku gísla. Auk þessara samninga hafa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðið samþykkt ýmsar ályktanir varðandi alþjóðleg hryðjuverk. Ísland hefur fullgilt alla framangreinda samninga. Allir framangreindir samningar eiga það sameiginlegt að í þeim eru ákvæði um hvernig aðildarþjóðir þeirra hyggjast vinna saman í baráttunni gegn hryðjuverkum, en þau stefna alþjóðasamgöngum og alþjóðasamstarfi í hættu.
    Hinn 23. sept. 1971 var, eins og áður er fram komið, gerður alþjóðasamningur í Montreal um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna. Samkvæmt þeim samningi ber aðildarríkjum hans að uppfylla ákveðnar skyldur. Þau

skuldbinda sig m.a. til að hafa þung refsiviðurlög í hegningarlögum við ofbeldi í loftfari á flugi, skemmdarverkum á loftförum og fleiru. Sá samningur sem fullgiltur hefur verið af rúmlega 100 ríkjum var fullgiltur af Íslands hálfu 29. júní 1973. Áður en þessi samningur og Haag-samningurinn frá 1970 voru fullgiltir var almennum hegningarlögum breytt, sbr. lög nr. 41/1973, svo að Ísland gæti staðið við þær skuldbindingar sem af fullgildingu þeirra leiddi. Bæði Haag- og Montreal-samningurinn fjalla um verknaði sem framdir eru um borð í loftförum eða verknaði sem beint er gegn loftförum í notkun. Reynslan hefur hins vegar sýnt að flughafnir, ætlaðar fyrir almenna alþjóðlega flugumferð, eru stundum vettvangur fyrir aðrar tegundir ofbeldisverka sem beint er gegn alþjóðlegri flugumferð. Þetta á t.d. við um sprengjuárásir eins og þær sem á þessum áratug voru gerðar á alþjóðaflughöfnunum í Vín og Róm.
    Í febrúar 1988 stóð Alþjóðaflugmálastofnunin fyrir alþjóðlegri ráðstefnu í Montreal í þeim tilgangi að semja bókun við Montreal-samninginn frá 1971 er næði til ofbeldisverka í flughöfnum sem notaðar eru fyrir alþjóðlega flugumferð. Á ráðstefnunni var gengið frá bókun við samninginn frá 1971 og var hún þá þegar undirrituð af Íslands hálfu.
    Utanríkis- og samgönguráðuneytin beindu þeirri fyrirspurn til dómsmrn. hvort það teldi nauðsynlegt að breyta gildandi lögum til að unnt væri að standa við skuldbindingar sem af fullgildingu bókunarinnar frá 1988 leiðir. Í dómsmrn. var talið nauðsynlegt að bæta við og breyta þeim ákvæðum almennra hegningarlaga er lögfest voru 1973 með lögum nr. 41/1973, svo að tryggt væri að unnt væri að standa við umræddar skuldbindingar. Utanrrh. mun á næstunni flytja á Alþingi till. til þál. um að framangreind bókun verði fullgilt af Íslands hálfu. Frv. þetta er flutt í þeim tilgangi að unnt verði að standa við þær skuldbindingar sem af fullgildingu bókunarinnar leiðir.
    Í 1. gr. frv. er lagt til að 4. tölul. 6. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1973, verði breytt á þann veg að refsilögsaga íslenska ríkisins nái til þeirra brota er bókunin frá 1988 tekur til. Auk þess
eru gerðar smávægilegar breytingar á núgildandi orðalagi greinarinnar til samræmis við aðra töluliði greinarinnar.
    Í 120. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 41/1973, eru nú ákvæði um að það geti varðað sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að þremur árum að veita vísvitandi rangar upplýsingar eða láta uppi vísvitandi rangar tilkynningar sem til þess eru fallnar að vekja ótta um líf, heilbrigði eða velferð manna eða um atriði sem varða loftferðaöryggi. Þá er í greininni ákvæði um að sömu refsingu varði að breiða út slíkan orðróm. Í 2. gr. frv. er lagt til að þær breytingar verði gerðar á þessari grein að það sama gildi um öryggi í flughöfn.
    Þau ákvæði sem lagt er til að felld séu brott úr 165. gr. hegningarlaganna í 3. gr. frv. eru í reynd einungis færð til, sbr. lokamgr. 4. gr. frv.

    Í 1. mgr. 4. gr. frv. er lagt til að tveim nýjum málsgreinum verði bætt við 165. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. gr. laga nr. 41/1973, um að sá sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi veitist að mönnum sem staddir eru í flughöfn ætlaðri alþjóðlegri flugumferð skuli sæta a.m.k. tveggja ára fangelsi, enda valdi verknaður eða sé til þess fallinn að valda almannahættu. Varðandi skýringar við þessa grein að öðru leyti vísast til athugasemda við hana í frv.
    Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir almennum forsendum þessa frv. sem hér er til umræðu um breytingu á almennum hegningarlögum og einstökum ákvæðum þess. Eins og áður er fram komið er frv. flutt til að unnt verði að standa við skuldbindingar sem leiða af væntanlegri fullgildingu bókunar frá 23. febr. 1988 við Montreal-samninginn 23. sept. 1971 um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.