Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hygg að flestir sem hér sitja inni hafi glímt við það að meta hverju væri hægt að stjórna með lögum og hverju ekki. T.d. væri það ákaflega einfalt ef hægt væri að stoppa lögbrot með lögum, að setja bara í lög að bannað væri að brjóta lög og kanna hvort menn væru ekki búnir að leysa þetta mál.
    En margar hugmyndir vakna og margt sem mönnum dettur í hug þó það sé illframkvæmanlegt. Eins er það svo með mannanna börn að þó að meiri hlutinn vilji setja einhverjum öðrum hóp leikreglur gengur oft erfiðlega að fá menn til að fara eftir þeim. Meginreglan hefur verið sú að svipta menn frelsi eða dæma menn til fjársekta. Að vísu voru hýðingar áður fyrr notaðar einnig og ýmsar aðrar aðferðir munu notaðar af Múhameðstrúarmönnum, m.a. að handhöggva þjófa og vafalaust hefur þetta allt þær afleiðingar að menn eiga erfiðara með eftir en áður að brjóta af sér. Ég held aftur á móti að menn þurfi að meta það í rólegheitunum þegar þeir skoða frv. til laga eins og þetta hvernig það hefði leikið íslenskt athafnalíf hefði það verið samþykkt fyrir 50 eða 70 árum. Hefði það t.d. stoppað það að Thor Jensen hefði haft sín umsvif í þessu landi? Hefði þeim sem lentu í erfiðleikum forðum vegna heimskreppunnar um 1930 og urðu gjaldþrota verið rutt endanlega út úr röðum atvinnurekenda vegna þess að þeir hefðu fengið á sig stimpil atvinnurekstrarbanns og þar með verið dæmdir óhæfir? Ég man eftir mönnum vestur á fjörðum sem upplifðu það að vera gerðir upp og fengu svo veisluboð frá Landsbanka Íslands 50 árum seinna og þáðu það ekki. Þeir fyrirgáfu það kannski aldrei og það er líka matsatriði hvenær rétt er að slíku staðið.
    Þegar menn fara hér í upptalningu í þessari grein, 6. gr., sem er nú ansi vel úthugsuð gagnvart öllum hugsanlegum tengslum, þá spyr maður náttúrlega sjálfan sig hverjir séu eftir sem viðkomandi aðilar gætu notast
við. Jú, það eru einfeldningar, menn sem eru það hreinræktaðir asnar, ef svo mætti komast að orði, að hægt væri að láta þá skrifa sig fyrir forstöðu í fyrirtæki þó þeir væru það ekki. Og mér er spurn, væri íslenskt samfélag eitthvað betra þó þeir sem nú hafa verið að brjóta lögin í eigin nafni mundu ráða einhverja slíka til þess að vinna verkið fyrir sig og við mundum svo dæma þá í tugthús á eftir?
    Þó það sé vissulega rétt, eins og hér hefur komið fram í máli 2. flm., að margt hefur farið úrskeiðis í þeim efnum að tryggja eðlilegt eftirlit með atvinnustarfsemi og koma þannig í veg fyrir það að prettum sé jafnmikið beitt og við vitum dæmi um, þá hallast ég mjög að því að þetta frv. sé ekki til þess að betrumbæta það ástand. Þvert á móti sýnist mér að það gæti beinlínis orðið til skaða þannig séð að það gæti orðið til þess, eins og ég gat um hér áðan, að ýmsir einstaklingar yrðu fengnir til að vera að nafninu til skráðir í forsvari fyrir fyrirtækjum þó þeir væru

það ekki. Og þó að við setjum það hér í lög að snúa því við að menn eigi að fara að sanna sakleysi sitt, þá er ég ekki búinn að sjá það að íslenskir dómarar mundu almennt fara að dæma eftir slíkum lögum. Við erum nú einu sinni með stjórnarskrá í þessu landi sem setur löggjafanum almennar leikreglur og mér sýnist að vissulega sé teflt á tæpasta vað hvað það snertir með þeim hugmyndum sem hér eru.
    Ég veit að hv. 2. flm. hefur ekki verið þekktur að því að brjóta lög. Mig minnir þó að hann hafi einu sinni orðið svo frægur að vera framarlega í riddaraliðshópi sem reið til fjalla og rak hross á undan sér og braut þar með lög um upprekstur, ef ég man rétt. Og ég veit ekki hvort veröldin væri nokkuð betri þó sett hefði verið búrekstrarbann í fimm ár á viðkomandi einstakling fyrir tiltækið. En hitt veit ég að hann hefði haft klækjavit til að sjá við öllum þeim lagagreinum sem hér eru ef slíku banni hefði átt að beita. Þó að hugsunin sé vafalaust góð á bak við þetta frv. þá tel ég að menn þurfi mjög að athuga sinn gang áður en þeim dettur í hug að samþykkja það.