Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. til laga um tímabundið bann við atvinnurekstri einstaklinga vegna afbrota, sem hér liggur fyrir, er á margan hátt athyglisvert mál en hálf er ég hræddur um að lögfræðilega hliðin á þessu máli sé dálítið varasöm. Ég er sannfærður um að allir geta tekið undir það að það sé óhæfa að menn geti með svikum og prettum náð fé af fólki en þetta frv. mun ekki koma í veg fyrir það vegna þess einfaldlega að þeir menn munu nú sleppa hvort sem þetta verður sett í lög eða ekki. En hitt er miklu alvarlegra að það er töluverður vafi á því að ákvæði þessara laga standist ákvæði stjórnarskrár og standist almennar reglur um réttarfar og réttaröryggi. Ég hefði talið rétt að skoða þetta mál mjög náið og fá til þess snjalla lögfræðinga sem hefðu skoðað hvort þessar greinar standast yfir höfuð miðað við þær réttarfarsreglur sem við búum við hér á Íslandi, sem ég dreg í efa.
    Það hefur verið vinsælt að slá sig til riddara með þeim hætti að segja að það eigi að hegna þeim sem setja fyrirtæki á hausinn, stundum hefur manni fundist með vafasömum hætti, og þetta er náttúrlega frv. sem er lagt fram með þeim hætti að menn eru að reyna að slá sig til riddara. En það eru liðin ár og dagar síðan hætt var að kjöldraga menn því sú aðferð við að refsa mönnum gafst ekki vel og stundum var það svo að menn voru kjöldregnir án saka. Það gæti verið svo að slíkt réttarfar sem kemur fram í frv. er afturför í okkar réttarfarsreglum og gengið til baka til miðalda í hugsun.
    Það er hins vegar hárrétt að auðvitað verður að koma í veg fyrir það að menn geti sett fyrirtæki á hausinn og skotið undan fjármunum en það mun nú gerast hvort sem þetta frv. verður samþykkt eða ekki. Það eru aðrar reglur sem verða að gilda þar og m.a. eru þeir aðilar sem helst geta komið í veg fyrir að svona gerist eru bankarnir. Í viðskiptum manna á meðal erlendis er mun algengara að
menn fái bankaábyrgðir, að bankinn gefi yfirlýsingar um hvort viðkomandi aðili er trausts verður í viðskiptum. Þær upplýsingar sem t.d. Verslunarráð Íslands gefur um aðila hér á landi og erlendis eru taldar miklu traustari og menn leita eftir því að sjá um að þær upplýsingar um menn liggi fyrir. Ég hef orðið vitni að því að hér eru menn dálítið barnalegir í viðskiptum ef maður getur sagt það. Það er stofnað eitthvað nýtt fyrirtæki og aðilar telja bara sjálfsagt að það megi lána því verðmæti upp á hundruð þúsunda eða milljónir jafnvel og síðan reynast þetta menn sem ekki eru trausts verðir og fyrirtækið fer á höfuðið. Og ég held að það sé einmitt miklu mikilvægara að það sé meira og strangara eftirlit, m.a. að menn leiti til aðila eins og Verslunarráðs Íslands, til bankanna og traustra aðila um upplýsingar um menn þannig að menn komist ekki upp með það að gera sig gjaldþrota með sviksamlegum hætti. Hitt er annað mál að það getur auðvitað alltaf komið upp gjaldþrot sem verður vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Við höfum mörg

dæmi um það í íslensku þjóðlífi að ágæt fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota einfaldlega út af ytri aðstæðum. Það eru allt aðrir hlutir og ekki hægt að blanda því saman við þau gjaldþrot sem virðist hér verið að reyna að taka á. En ég held að hugmyndin sem slík, að reyna að koma höndum yfir þessi atriði, sé ekki óskynsamleg en skynsamlegra hefði verið að flytja hér þáltill. sem hefði síðan verið útfærð af mönnum sem hafa þekkingu til að bera í lögfræði. Því mér sýnist þetta frv. ekki standast þær ströngu kröfur sem verður að gera til frv. til laga um tímabundið bann við atvinnurekstri sem er mjög flókið og erfitt lögfræðilegt mál að fást við.