Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki hafa mjög mörg orð um frv. sem hér liggur fyrir til umræðu. Þegar hafa allmargir hv. þm. tekið til máls og ljóst er að frv. á heldur lítinn stuðning í hv. deild, eðlilega, enda hafa komið fram mjög skýr og sterk rök gegn því.
    Það er alveg rétt og það þarf ekkert að deila um það að vandamálið er til staðar. Það þekkjum við öll. Það er ljóst að fólk verður gjaldþrota og það getur gerst með ýmsum hætti. Þar á meðal geta menn auðvitað, og einnig þeir sem stunda atvinnurekstur, með saknæmum hætti náð sér í fjármagn sem þeir ekki eiga, en það geta menn jafnvel þótt þeir stundi ekki atvinnurekstur. Málið er því ekki eins einfalt og hv. 2. flm. og framsögumaður málsins vill láta í veðri vaka. Það sem kannski skiptir mestu máli er að átta sig á því að það eru viðurlög við þeim brotum sem hér er verið að fjalla um. Þau viðurlög eru m.a. í almennum hegningarlögum, í lögum um opinber gjöld, í lögum um bókhald o.s.frv. o.s.frv. Spurningin hér er hins vegar sú hvort eigi að beita nýjum viðurlögum, nýrri tegund viðurlega, það sé ekki látið nægja að beita sektum og frelsissviptingu heldur eigi að koma til viðbótar ný viðurlög fyrir þessa sérstöku brotamenn sem stunda atvinnurekstur.
    Þá er fyrst að athuga það að ég veit ekki betur en að slíkur réttindamissir sem hefur verið notaður sem viðurlög sé að hverfa eða sé á undanhaldi í löggjöf flestra siðaðra þjóða. Tökum dæmi: Það var algengt fyrr á árum að menn misstu kosningarrétt ef þeir brutu af sér. Mér skilst að hætt sé að dæma kosningarrétt af mönnum. Kosningarréttur er almenn réttindi rétt eins og atvinnufrelsi manna, það að fá að stunda atvinnurekstur, er almenn réttindi. Hins vegar getur í mörgum tilvikum verið þörf á að sækja um leyfi eða þá að menn þurfi að hafa sérstaka menntun eða það séu tiltekin skilyrði til að stunda vissa tegund af atvinnurekstri. Það er síðan allt annað mál. Þessu mega menn ekki rugla saman.
    T.d. er eðlilegt, eins og kom fram hjá hv. 17. þm. Reykv., að gripið sé til þess að réttindi og leyfi sem hið opinbera lætur af hendi séu afturkölluð um sinn ef menn brjóta af sér. Tökum t.d. lækningaleyfi, lögmannsréttindi, réttindi til þess að stunda fasteignaviðskipti o.s.frv. o.s.frv. Það er allt önnur saga. Hér er hins vegar verið að brydda upp á algjöru nýmæli. Það er verið að brydda upp á því að þeir sem stunda atvinnurekstur hjá sjálfum sér eða öðrum lendi í atvinnurekstrarbanni. Þetta er ný tegund af viðurlögum, allt önnur tegund en við höfum átt að venjast hér í þessu landi. Í raun og veru er hér verið að finna viðurlög sem eru tengd starfseminni þar sem brotið átti sér stað. Hugsum okkur t.d. að maður brjóti af sér í sundlaug og þá mundi hv. þm. Páll Pétursson koma hér og segja: Nú er kominn tími til þess að þeim sem brjóta af sér í sundlaugum verði bannað að fara í bað í svo sem þrjú til fimm ár vegna þess að brotið tengist því að maðurinn var í sundi. --- Auðvitað er það svo að þeir sem brjóta af sér í

sundlaugum bæjarins verða að þola það að vera dæmdir samkvæmt og eftir almennum hegningarlögum og þurfa að hlíta þeim viðurlögum sem eru til í lögum. Það þarf ekki nein sérstök ný viðurlög fyrir slíka menn jafnvel þótt brotið hafi átt sér stað þegar þeir voru að baða sig eða voru í sundlaug í Reykjavík. Það sama á auðvitað við um atvinnurekstur.
    Það eru viðurlög í íslenskum lögum í dag. Það sem hins vegar kann að hafa gerst er það að þeim er ekki beitt sem skyldi vegna þess að dómstólar og yfirvöld ráða ekki við málin. Hægagangur er of mikill. En þetta frv. leysir ekkert úr því. Það væri miklu fremur að hv. þm. sem flytja þetta mál og hafa talað fyrir því, hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson og hv. þm. Páll Pétursson, sameinuðust um það að reyna að ná fjármunum til þess að flýta fyrir afgreiðslu dóma hér á landi og til þess að réttvísin geti gengið fyrir sig með sæmilegum hraða. Það er það sem skiptir miklu meira máli en það sem hér er verið að brydda upp á, ný viðurlög. Við höfum næg viðurlög.
    Hv. þm. sagði að í frv. væri aðeins verið að tala um allra grófustu brot. Ég sé ekki betur en að í 2. gr. standi að maður skuli teljast hafa brugðist skyldum sínum gróflega ef hann hefur gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum. Brot gegn almennum hegningarlögum geta verið mjög mismunandi, sum jafnvel þannig að okkur finnst þau vera smávægileg. Þess vegna er ekki eingöngu verið að tala um allra grófustu brot til þess að menn hafi brugðist skyldum sínum gróflega skv. 2. gr. þessara laga.
    Í öðru lagi er talað um ,,meiri háttar brot gegn lögum um opinber gjöld``. Auðvitað er brot á lögum um opinber gjöld ýmiss konar að greiða ekki gjöld á réttum tíma. Samt vitum við það að þingmenn meira að segja ganga erinda fyrirtækja til þess að slá út frest og koma í veg fyrir að fyrirtækjum sé lokað ef þau skulda söluskatt, eða virðisaukaskatt nú, og þykir það ekki nema sjálfsagt mál. Fyrir ári urðu umræður hér í hv. deild um þetta atriði og þá kom fram sú röksemd frá ýmsum þingmönnum úti á landsbyggðinni að nú mætti ekki láta til skarar skríða samkvæmt lögunum vegna þess að það væri svo alvarlegt ef fyrirtækin færu á hausinn. Hvað höfðu fyrirtækin brotið af sér? Jú, þau
höfðu ekki sinnt lagaskyldu sinni og þau höfðu unnið gegn lögum um greiðslu opinberra gjalda, ekki greitt á gjalddaga sem var refsiverður verknaður. Hvað átti að gera við þessa menn? Taka af þeim atvinnureksturinn? Hvað um fyrirtæki í kjördæmi hv. þingmanns sem fær lán hjá ríkinu, borgar ekki til baka, og síðan gengur forráðamaðurinn niður í fjmrn. og lætur breyta þessum lánum í hlutafé, við skulum segja að það séu svona 300--400 millj. kr., af því að hann borgar ekki til baka? Ef þetta væri maður í venjulegum rekstri hefði fyrirtækið auðvitað verið látið fara á hausinn, en þessi er heiðraður með því að láninu er breytt í hlutafé. Hvar á að draga þessi mörk?
    Ég held að það sé miklu nær að menn reyni að

framfylgja núgildandi lögum en séu ekki að brydda upp á nýnæmi í þessum efnum nema menn vilji þá halda áfram og tengja refsiviðurlög við verknaðinn eða hvar brotin hafa orðið. Þá reynir nú á hugmyndaflug hv. þingmanna. Með öðrum orðum, ef brot eiga sér stað í atvinnurekstri, þá á að banna mönnum að stunda atvinnurekstur um nokkurt skeið. Ef brotið á sér stað, ja, í sundlaug, þá á að banna mönnum að fara í bað um nokkurt skeið o.s.frv. o.s.frv. Menn þurfa ansi mikið hugmyndaflug. ( ÁHE: Baðar hv. þm. sig í sundlaugum?) Hv. þm. fer í sundlaug og baðar sig í böðum þar. Það veit ég hins vegar að hv. frammíkallandi kannast ekkert við því hann fer aldrei í bað og hefur ekki farið í bað árum saman eins og sjá má á honum. ( ÁHE: Hefur hv. þm. fylgst með því í gegnum árin?) Þessu til viðbótar vil ég segja hv. þm., sem heiðrar mig með frammíkalli, að ég veit ekki betur en að hann hafi flutt nýlega þáltill. --- ég veit ekki hvort hann man eftir því, það er ein af þessum hundrað sem hann hefur flutt. Og um hvað skyldi sú till. hafa fjallað? Hún fjallaði um að gera könnun á því hvernig hjálpa mætti mönnum sem hefðu orðið gjaldþrota. Að vísu kemur fram í grg. að sumir hafi orðið gjaldþrota vegna þess að þeir hafi sjálfir ekki hagað sér vel, þeir hafi sjálfir brotið lög, en samt sem áður kemur fram skilningur hv. þm. á því að þetta fólk geti átt bágt. Þannig veit hægri höndin á hv. þm. Ásgeiri Hannesi ekkert hvað sú vinstri er að gera hér í þingsölum. ( ÁHE: Fyrir hv. þm. er gjaldþrot aðeins spurning um lögmannataxta.) Það er ekki spurning um lögmannataxta. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. úr flokki dómsmrh. að æpa hér fram í með tóma vitleysu og halda því fram að ég sé einhver fulltrúi lögmannaíhaldsins í landinu. Eina krafan sem ég geri til hv. þm. --- ég geri ekki kröfu um að hann fari í bað eins og aðrir menn, það verður heimilisfólkið heima hjá honum að sjá um --- er að hann viti um hvað hann er að tala þegar hann er hér í þingsölum og það gera ugglaust fleiri.
    Ég ætlaði ekki, virðulegur forseti, að taka hér upp sérstakt samtal við hv. þm., en hann gaf kost á því með frammíköllum sínum. Það sem skiptir máli er að átta sig á því að hér er á ferðinni frv. um það að koma með nýja tegund af viðurlögum. Það eru viðurlög við öllum þeim brotum sem hér er verið að tala um í núgildandi rétti. Það sem skiptir máli er það að dómstólar og réttvísin geti fylgt þessum málum eftir nægilega hratt og komið í veg fyrir að þessi brot verði síendurtekin. Þeir sem halda því fram að þessi nýju viðurlög komi að meira gagni eru að fara inn á varasamar brautir vegna þess að í rétti flestra siðaðra þjóða eru menn að hverfa frá því að taka almenn réttindi af fólki, t.d. kosningarrétt og rétt sem menn hafa án þess að þurfa að sækja sérstaklega um leyfi til þess að stunda einhverja ákveðna starfsemi. Þess vegna bið ég hv. þm. að taka því ekki illa þótt þetta mál sé rætt með þessum hætti og ég þakka hv. frsm. fyrir það að hann skuli meira að segja taka það í mál að hv. nefnd rannsaki málið til hlítar og kanni. Það veit ég að hv. nefnd gerir og auðvitað endar það með

því að þetta mál fær ekki afgreiðslu á yfirstandandi þingi, heldur er þetta mál sem er lagt hér fram til þess að við áttum okkur á hvað þurfi að gera til þess að þessari brotastarfsemi linni sem menn hafa verið að tala um hér í dag. Ég er ekki trúaður á þessi nýju viðurlög en ég hef skilning á vandamálinu og tel að hv. stjórnarþingmenn, tveir sem hér hafa talað, annar úr flokki hæstv. dómsmrh. og hinn úr flokki hæstv. forsrh., ættu nú að sameinast um það að gera átak í þessum efnum þannig að hægt verði að taka á þessum brotum með þeim viðurlögum sem nú eru til í gildandi rétti hér á landi.