Páll Pétursson:
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. hefur það ekki sér til afsökunar að hann hafi ekki fengið útskýringar á umræðuefninu sem er hér á dagskrá því ég var ekki einasta búinn að flytja framsögu sem mér þótti sæmilega skilmerkileg, heldur var ég búinn að ítreka meiningu mína með því að lesa tvær af frumvarpsgreinunum upphátt fyrir hann hér í ræðustólnum. Ég á bágt með að trúa því að hjarta hans slái með stórsvindlurum en ég verð að segja það að því miður hafa runnið dálítið á mig tvær grímur þar um. Ég viðurkenni það að hv. 1. þm. Reykv. er skýr og skarpur maður svoleiðis að hann hefur það ekki sér til afbötunar að hann viti ekki um hvað hann er að tala.
    Það er rétt að viðurlög í gildandi lögum eru sektir og frelsissvipting. Því miður hefur þetta ekki dugað og ég held að þar sé ekki neinum seinagangi í dómskerfinu um að kenna. Það hefur myndast sú réttarvenja og það viðhorf til hegningarlaga að menn skáka í því skjólinu að verða ekki dæmdir eftir þeim, enda eru þeir það ekki. Dómar ganga ekki og þar af leiðir að þessi lög eru bara orðin bókstafurinn. Ég tel hins vegar að réttindamissir geti átt rétt á sér þegar um mjög alvarlegt misferli er að ræða og þess vegna stend ég að þessu frv.
    Þetta er ný tegund af viðurlögum, að vísu hefur hún verið ný og þó gömul, en ég vonast eftir að hún geti reynst árangursríkari en sú sem er í gildandi lögum vegna þess að hún dugir ekki og það er búið að sanna sig. Og gildandi lög veita ekki eðlilegt aðhald.
    Hv. þm. var hér með orðhengilshátt og útúrsnúninga og málflutningur hans byggðist nú náttúrlega, eins og iðulega, á útúrsnúningum. Þegar hann hefur lítið að segja og er í vandræðum byrjar hann að snúa út úr. Og hann notaði sundlaugar til þess að snúa út úr eins og það væri nú sérstakur staður sem líklegur væri til þess að menn brytu af sér. Mér hefði nú síst af öllu dottið
sundlaugar í hug. Ég veit ekki hvaða afbrot væri sérstaklega hentugt að tíðka í sundlaugum, meiri háttar gróflegt afbrot. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þm. ætti að vita af því að svo gæti farið að það væri skynsamlegt að neita síbrotamanni sem t.d. gengi einstaklega sóðalega um sundlaug um aðgang að þessum opinbera stað. Mér fyndist það vel geta komið til greina. Ég veit um að óeirðamönnum er stundum neitað um aðgang að skemmtistöðum. Ég veit að hv. 1. þm. Reykv. er ekki í þeim hópi, en það hefur komið fyrir að mönnum, sem eru með óspektir á almannafæri og uppistand á samkomum, er neitað um aðgang að þeim vegna þess að að þeim er ekki mannfagnaður. Brotastarfsemi linnir ekki að óbreyttum lögum. Þess vegna þurfum við að gera þetta frv. að lögum eða þá að breyta því eða finna þau ráð sem duga. Ég er ekki að halda því fram --- nú er hv. 1. þm. Reykv. löglærður maður og ég vil nú ekki gera lítið úr að hann sé júristi. Það er fjarri mér að gera

lítið úr því að hann sé fær júristi. En ég fullyrði að það er ofmælt ef farið er að kalla hann einhvern fulltrúa lögmanna hér í deildinni. Ég held að það sé fjarri lagi. Alveg sama þótt hann sé löglærður, alveg hreint eins og mér dettur ekki í hug að kalla hann fulltrúa Hafskipsmanna þó að hann eigi hlut í Hafskip eða hafi átt.