Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Með leyfi forseta ætla ég að ræða hér aðeins um sundlaugar og sundstaði. Það hefur því miður gerst að fólk hefur orðið brotlegt á sundstöðum og þá hefur því verið meinaður aðgangur að þeim. Fólk hefur leitað á lítil börn á sundstöðum og fyrir bragðið hefur starfsfólkið og yfirvöldin gripið til þess að meina því aðgang. Það er í alla staði eðlilegt að svo sé að málum staðið. A.m.k. geri ég ráð fyrir því að hv. 1. þm., og tilvonandi 2. þm. Reykv., sé á sama máli að eðlilegt sé að meina fólki að umgangast börn á sundstöðum ef það hefur gerst brotlegt við börnin á þeim stöðum. Þetta er nákvæmlega andinn á bak við það sem við erum að tala um hér í dag. Þetta er kjarni málsins. Þau lög sem eru í gildi í dag eru okkur einskis virði ef brotlegt fólk fær áfram tækifæri með öllum réttindum og leyfum frá hinu opinbera til að halda áfram sínum atvinnurekstri og getur tekið upp fyrri iðju þó það hafi tekið út aðra refsingu eins og að greiða sektir eða setið í varðhaldi eða fangelsi. Þá nær refsingin alls ekki tilgangi sínum og lögin ekki heldur. Hérna er verið að reyna að koma í veg fyrir síbrot af þessu tagi. Frv. er sjálfsagt meingallað eins og flest önnur mannanna verk en við skulum vona að Alþingi beri gæfu til að láta þetta frv. marka leiðina að því að koma einhverjum skikk á þessi mál. Hvort sem það verður í formi þessa frv. eða á annan hátt þá er tilganginum náð.
    Hv. 11. þm. Reykn. nefndi áðan að upplýsingar frá Verslunarráði og bönkum mundu duga miklu betur en ákvæði í því lagafrv. sem hér er til umræðu. Það er nú svo með þessar upplýsingar að þær segja ekki allan sannleikann. Það er í rauninni mjög sjaldgæft að banki eða Verslunarráð geti gefið siðferðisvottorð
af þessu tagi. Það er yfirleitt of seint á ferðinni og kemur því ekki að nokkru gagni. Þessi sviksamlegu gjaldþrot, sem óneitanlega hafa sett mjög svip sinn á athafnalífið upp á síðkastið, eru ný tegund af brotum í rauninni. Þó þau hafi alltaf verið fyrir hendi í þjóðfélaginu í einhverjum mæli þá hefur þeim fjölgað upp á síðkastið og þau hafa haft meiri og skelfilegri afleiðingar en áður. Þess vegna þarf nýja tegund af viðurlögum. Það þarf að taka á rótum vandans og hann er að mínu mati að útiloka þá frá atvinnurekstri sem hafa gerst sekir um stórfelld afbrot á því sviði.
    Virðulegi forseti. Ég held að við lengjum ekki þessa umræðu. A.m.k. lengi ég hana ekki meir hér, en ég harma það hvað hv. 1. þm. Reykv. er viðskotaillur í dag. Hann er vanur að vera prúður og mér dettur einna helst í hug að hann hafi farið öfugu megin fram úr baðkarinu í morgun.