Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Það er kannski óþarfi að ræða mikið um þetta mál. Auðvitað fer það ekkert í gegn á þessu þingi og fær vonandi góða umfjöllun þegar að því kemur eða ef að því kemur að meiri hluti hér á hv. Alþingi vill standa að svona frv. Ég stend í þeirri trú að ekki vanti lagaákvæði til að taka á þessum málum, það er ekki það sem skortir. Réttarfarið er bara rotið. Sannleikurinn er sá.
    Síðasti ræðumaður var að tala um gjaldþrot. Hvernig fara þessir menn að sem hafa verið að leika sér að því að gera fleiri en eitt og fleiri en tvö fyrirtæki gjaldþrota? Þeir hafa fengið aðra menn til að stofna hlutafélag og opnað jafnvel daginn eftir að þeir hafa óskað eftir gjaldþroti annars staðar. Um það veit ég dæmi. Þó að ég hafi í raun og veru ekki stúderað refsilöggjöfina nógu vel, þá stend ég í þeirri trú að þar liggi ekki ástæðan fyrir því réttarfari, því aðhaldi sem þarf að vera í þessum málum. Auðvitað þarf að skoða öll þessi mál, skoða þá löggjöf sem er í landinu í þessum efnum og eðlilegra, ef menn komast að þeirri niðurstöðu að þar þurfi einhverju að bæta við, að breyta henni en vera að setja nýja löggjöf um sama efni.
    Ég vil bara segja að ég vonast til þess að ekki verði rekið á eftir þessu máli í gegnum þingið vegna þess að ég held að það séu mörg atriði í því sem þurfa að fá nákvæmari umfjöllun en tími er til á þessu þingi.