Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki taka mikinn tíma frá hv. þm. til viðbótar. Ég er ekki hingað kominn til þess að svara því sem fram hefur komið. Mér finnst ekki neitt hafa komið fram í umræðunum frá því að ég talaði sem ástæða er til að fjalla frekar um. Hins vegar væri vissulega ástæða til að ræða einhvern tíma um refsingar og gildi þeirra og hvaða hugmyndir búa að baki refsingum. Mig langar aðeins til þess að árétta örfá atriði.
    Í fyrsta lagi: Almenn réttindi sem menn hafa í þjóðfélaginu hafa menn á undanförnum áratugum oft misst með dómi. Þróunin er sú að menn eru að hverfa frá slíkum viðurlögum. Þá er ég að tala um réttindi sem menn fá annars staðar en frá yfirvöldum. Þá á ég við réttindi sem menn hafa eingöngu með því að vera Íslendingar og búa við íslenska stjórnarskrá en íslenska stjórnarskráin tryggir mönnum atvinnufrelsi og hún tryggir mönnum líka kosningarrétt. Sú var tíðin að menn sem misvirtu íslenskt stjórnarfar eða stjórnskipun með einhverjum hætti, einum eða öðrum, voru dæmdir frá kosningarrétti. Þetta er mjög harður dómur. Það er verið að taka ákveðin mannréttindi af mönnum og þess vegna hafa menn horfið frá slíku. Þetta verðum við að hafa í huga.
    Í öðru lagi gleymdi ég í ræðu minni að minnast á hlutlægu ábyrgðina sem hér er verið að gera tillögu um að verði viðhöfð. Þegar menn starfa hjá lögaðila eigi t.d. forsvarsmenn fyrirtækisins að bera hlutlæga ábyrgð og þeir verða að sanna sakleysi sitt. Ég bið menn um að hugleiða þetta. Slíkar lagagreinar í refsirétti eru ekki mjög algengar. Í raun og veru finnst mér að menn ættu að leiða hugann að því hvort þetta sé ekki fullviðurhlutamikið í þeirri grein frv. eða greinum þar sem á að beita hlutlægri ábyrgð.
    Loks sé ég að í 6. gr. segir að þeim sem dæmdur hafi verið í atvinnurekstrarbann skuli ekki heimilt að starfa við eða taka að sér föst reglubundin verkefni í atvinnurekstri þeirra sem hann er skyldur eða mægður og svo er heil upptalning. Ég bið menn um að hugsa það sjálfir, ég er ekki að biðja menn um að svara því hér, hvernig þetta geti farið ef um lítið byggðarlag er að ræða þar sem kannski ein og sama fjölskyldan býr, hvað þá ef þetta er nú bara einn bóndabær, hugsum okkur það. Ég veit að sumir hv. þm., jafnvel frsm. málsins, hafa kannski leitt hugann að því, þá mega menn ekkert vinna. Ég tel að hér sé farið inn á svið sem sé svo erfitt og óljóst og geti mismunað mönnum með slíkum hætti að menn verði jafnvel að flytja búferlum ef þeir hafa lent í erfiðleikum og lent í því að brjóta lög. Og ég spyr: Vilja menn virkilega að gerður sé munur á einstaklingum sem búa í litlum byggðarlögum og stórum? Auðvitað hlýtur það að verða ef beita á 6. gr. þessa frv.
    Ýmsar slíkar spurningar mætti draga hér inn í þessa umræðu. Ég held að okkur væri sæmst að segja að hér hafi verið lýst ákveðnu vandamáli sem við þekkjum úr þjóðfélaginu, því vandamáli að menn leika það að verða gjaldþrota aftur og aftur, svíkja út

fjármuni og komast upp með það. Svar mitt er eindregið á þá leið að grípa eigi til þeirra ráða sem til eru í íslenskum lögum. Það hlýtur að vera okkar, fjárveitingavaldsins, og kannski helst þeirra sem þó styðja núv. hæstv. ríkisstjórn að gera bragarbót í þessum efnum og sjá til þess að yfirvöld og dómstólar geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki í þjóðfélaginu. Það er auðvitað aðalatriði þessa máls.