Launasjóður stórmeistara í skák
Þriðjudaginn 06. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Eins og kunnugt er hafa íslenskir stórmeistarar í skák á undanförnum áratugum eða allt frá 1957 notið launa hjá íslenska ríkinu. Núna eru fjórir stórmeistarar á launaskrá menntmrn. Hefur sá háttur verið hafður á að stórmeistarar hafa með ráðherraúrskurði verið settir á launaskrá hjá menntmrn. og í fjárlögum hefur verið veittur sérstakur styrkur árlega til að standa straum af kostnaði vegna þessa. Með þessum ákvörðunum undanfarandi áratuga hafa íslensk stjórnvöld viljað leggja sitt af mörkum til að auka veg íslenskrar skákmenntar og til að skapa stórmeisturum fjárhagslegan grundvöll svo þeir gætu helgað sig skáklistinni í sem ríkustum mæli. Þessar launagreiðslur hafa frá upphafi verið miðaðar við laun menntaskólakennara enda á því byggt að á móti kæmi nokkur skylda til að kenna skák í skólum landsins. Engar reglur hafa þó til þessa verið settar um réttindi og skyldur stórmeistara, vinnuframlag þeirra eða launagreiðslur. Á hinn bóginn er ljóst að ef að líkum lætur þá munu fleiri bætast í hóp stórmeistara á næstu árum og þess vegna er löngu tímabært að fastmótaðar reglur um framtíðarskipan þessara mála verði settar.
    Með frv. þessu, herra forseti, er lagt til að stofnaður verði með lögum Launasjóður stórmeistara í skák. Stofnfé sjóðsins samsvari árslaunum fjögurra
háskólakennara og að auki verði sjóðnum í fjárlögum hvers árs úthlutað svipaðri upphæð og nú er varið til greiðslu launa stórmeistara.
    Í fjárlögum þessa árs er varið 5,3 millj. kr. til þessa málaflokks. Það fyrirkomulag sem hér er lagt til að verði lögfest mun því ekki hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð svo nokkru nemi.
    Með stofnun Launasjóðs stórmeistara í skák er stefnt að hagræðingu hvað tilhögun launagreiðslu til þeirra varðar. Gert er ráð fyrir að úr sjóðnum verði úthlutað launum til stórmeistara kjósi þeir að helga sig skákiðkun en á móti komi kennslu- og fræðsluskylda við Skákskóla Íslands sem hefur einnig verið fjallað um í þeirri nefnd sem undirbjó þetta frv. Hefur hún lagt fyrir mig og ríkisstjórnina frv. til laga um Skákskóla Íslands sem er enn til meðferðar í stjórnarflokkunum.
    Með frv. eins og það liggur hér fyrir eru birt drög að hugsanlegri reglugerð um starfsemi Launasjóðs stórmeistara. Og í frv. er gerð grein fyrir þeim réttindum og þeim skyldum sem stórmeistarar mundu hafa ef frv. þetta yrði að lögum. Gert er ráð fyrir því í 5. gr. frv. að stórmeistarar þiggi laun samkvæmt lögum þessum, þeir teljist opinberir starfsmenn með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja, sbr. lög nr. 38/1954, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.
    Þá er gert ráð fyrir því í 4. gr. hverjar eigi að vera skyldur stórmeistara. Það er í fyrsta lagi að sinna skákkennslu við Skákskóla Íslands eða fræðslu á vegum skólans, sbr. lög um Skákskóla Íslands ef þau verða sett. Í öðru lagi að sinna rannsóknum á sviði skáklistar og í þriðja lagi að tefla fyrir Íslands hönd

á skákmótum heima og erlendis.
    Hér er með öðrum orðum annars vegar gert ráð fyrir því að sett verði lög um þátt í fjárlögum sem lengi hefur verið til en ekki hefur verið byggður á öðrum lögum en fjárlögum á hverjum tíma. Hins vegar er verið að setja reglur um það hvaða kröfur megi gera til þeirra stórmeistara sem njóta launa úr ríkissjóði á hverjum tíma.
    Ég tel mikilvægt að þetta frv. verði afgreitt. Ég vil einnig taka fram að ég tel að það sé mikilvægt jafnvel þó að frv. til laga um Skákskóla Íslands yrði ekki afgreitt, sem þýðir þá vissar breytingar á þessu frv. í þá veru að stórmeistararnir hefðu vinnuskyldu við Skákskóla eftir reglum sem settar yrðu, að sjálfsögðu í samráði við þá og væntanlega Skáksamband Íslands.
    Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.