Launasjóður stórmeistara í skák
Þriðjudaginn 06. mars 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir frv. til laga um Launasjóð stórmeistara í skák. Þetta frv. er um margt athyglisvert og markar tímamót að því leyti til að í því felst viðurkenning á að opinberir sjóðir, Alþingi, ætli að launa ákveðnum hópi manna fyrir árangur á tilteknu sviði. Ég geri ráð fyrir því, og vil spyrja hæstv. menntmrh. í framhaldi af þessu, hvort ekki megi vænta þess að lagt verði fram frv. til laga um launasjóð íþróttamanna. Í þeim löndum sem ég þekki til er ekki óalgengt að afreksmenn í íþróttum séu settir á launaskrá. Það væri því fróðlegt að fá að vita hvort svo muni ekki verða í framhaldi af þessu frv. því mér sýnist að miðað við þá stefnu sem hér er lögð til muni ýmsir forustumenn einstaklingsíþrótta óska eftir því að samið verði frv. til laga um launasjóð afreksmanna í íþróttum.
    Það er til að mynda svo á Norðurlöndunum að afreksmenn í íþróttum, sérstaklega í einstaklingsíþróttum, eru launaðir af ríkinu með ákveðnum hætti með það í huga að þeir nái sem bestum árangri, t.d. á Ólympíuleikum. Sú fjárhæð sem núverandi ríkisstjórn hefur varið til íþróttahreyfingarinnar og sérsambanda hennar er afskaplega lág. Má segja að þær upphæðir sem voru skornar allverulega niður og hafa verið núna á undanförnum þremur árum nægi fyrir afskaplega litlu fyrir þá stóru hreyfingu sem er þar á bak við. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. menntmrh.: Mun menntmrh. beita sér fyrir því að framlög til íþróttamála verði aukin og mun hann beita sér fyrir því að samið verði frv. til laga um launasjóð afreksmanna í íþróttum?
    Þá hlýtur það að vekja athygli að hér fylgir ekki nákvæm kostnaðaráætlun og maður hlýtur að spyrja sig að því: Hver eru áætluð laun þessara stórmeistara, eru það lektorslaun, eru það prófessorslaun? Hæstv. menntmrh. sagði í ræðu sinni að hér væri ekki um umtalsverðan kostnaðarauka að ræða. Þær greiðslur sem
hafa fram að þessu verið til stórmeistaranna eru rétt um 1300 þús. kr. á mann á ári. Miðað við fjóra menn sem þetta verkefni gerir ráð fyrir má spyrja hver launin og launatengd gjöld muni vera áætluð þegar þetta nær fram að ganga. Og í öðru lagi hvort þeir muni njóta sömu réttinda og opinberir starfsmenn. Þetta er auðvitað nauðsynlegt að komi hér fram.
    Ég vil að svo komnu ekki gera þessa ræðu öllu lengri en tel nauðsynlegt að frv. verði samið hið snarasta eins og ég sagði hér áðan um launasjóð fyrir afreksmenn í íþróttum því að margar íþróttagreinar hafa átt um sárt að binda vegna þess hve lítið fjármagn fer til íþróttamála, sérstaklega í einstaklingsgreinum þar sem ekki er hægt að selja svo mikið inn á eða mikið fjármagn er ætlað til.