Launasjóður stórmeistara í skák
Þriðjudaginn 06. mars 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Aðeins örstutt. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör í þessu sambandi. Mér heyrðist samt á máli hans að það væri um smámisskilning að ræða vegna þess að þrátt fyrir verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þá falla sérsambönd ÍSÍ, Íþróttasambandið og Ólympíunefnd ekki undir þessa verkaskiptingu og heyra undir ríkið áfram skv. íþróttalögum. Þessir aðilar hafa margir hverjir átt mjög erfitt með fjármuni í áraraðir og er svo enn þannig að það væri mikið framfaraspor í sjálfu sér ef um það væri að ræða að stofna sérstakan launasjóð fyrir afreksmenn í íþróttum. En ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt þá munum við eiga bjarta daga í vændum í sambandi við íþróttirnar og ég geri ráð fyrir því að á næstu fjárlögum muni hæstv. ráðherra sjá til þess að framlög til ÍSÍ og Ólympíunefndar Íslands verði hækkuð allverulega. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir fram fyrir að hann muni væntanlega sjá til þess að þessir aðilar fái meira og betra fjármagn en áður.