Listskreytingasjóður ríkisins
Þriðjudaginn 06. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Listskreytingasjóð ríkisins. Frv. er flutt í framhaldi af vinnu nefndar sem skipuð var til að gera tillögur um endurskoðun á lögum um Listskreytingasjóð. Í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 34/1982, um Listskreytingasjóð ríkisins, segir svo:
    ,,Lög þessi skulu tekin til endurskoðunar að fimm árum liðnum með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af því fyrirkomulagi sem hér er gert ráð fyrir um listskreytingu opinberra bygginga.``
    Og með bréfi dags. 20. mars 1987 fól menntmrh. stjórn Listskreytingasjóðs að vinna að endurskoðun laganna í samráði við framangreint ákvæði. Frv. það sem hér liggur fyrir er niðurstaða þeirrar vinnu, en formaður nefndarinnar og stjórnar Listskreytingasjóðs er Árni Gunnarsson ráðuneytisstjóri.
    Listskreytingasjóður ríkisins hefur nú starfað í rúmlega sjö ár. Sjóðsstjórnin var skipuð 31. ágúst 1982 og hefur sem sagt starfað síðan við að úthluta fjármunum úr Listskreytingasjóði. Fjármunir til sjóðsins hafa allan tímann verið mikið takmarkaðri en lögin sjálf gera ráð fyrir og þessir fjármunir hafa verið takmarkaðir með öðrum lögum, þ.e. lánsfjárlögum sem iðulega hafa breytt ákvæðum laganna um Listskreytingasjóð ríkisins.
    Ég mun nú fara yfir það, herra forseti, hvernig þessum málum hefur verið háttað.
    Árið 1983 fékk sjóðurinn 40,3% af því sem hann átti að fá. Árið 1984 fékk hann 66%, 1985 fékk hann 48%, 1986 fékk hann 46,8%, 1987 fékk hann aðeins 29,6%, 1988 fékk sjóðurinn 25,7% og 1989 fékk sjóðurinn 23,5% eða lægsta hlutfallið í sögu sinni en á árinu 1990 er þetta hlutfall eitthvað dálítið hærra. Ég hef ekki handbærar nákvæmar upplýsingar um það hver talan er en á þessu ári er framlag í sjóðinn, ef ég man rétt, í fjárlögum ársins 1990 10 millj. kr. en var á síðasta ári aðeins 6 millj. kr. þannig að þar var um ekki aðeins krónutölu heldur einnig þó nokkra raunhækkun að ræða.
    Þær breytingar sem þetta frv. gerir ráð fyrir frá gildandi lögum eru einkum þrenns konar. Í fyrsta lagi er gerð nokkur rýmkun á verksviði sjóðsins. Í öðru lagi er sett inn í frv. skýr heimild til að binda framlag eða styrk úr sjóðnum skilyrði um mótframlag frá eiganda mannvirkis í ákveðnum tilvikum og í þriðja lagi eru sett ákvæði sem varða meðferð listskreytinga sem sjóðurinn veitir framlag til. Þessar meginbreytingar koma síðan fram í hinum einstöku greinum frv.
    Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að starfsemi sjóðsins miðist ekki einungis að fegrun opinberra bygginga heldur og að umhverfi opinberra bygginga og þykir þetta mikilvæg breytingartillaga.
    Í 5. gr. frv. felst sú breyting að sá tilnefningaraðili í sambandi við skipun sjóðsstjórnarinnar sem þar er nefndur verður framvegis Samband ísl. myndlistarmanna í stað Bandalags ísl. listamanna.
    Í 7. gr. eru einnig nokkrar breytingar. Í gildandi

lögum er gert ráð fyrir að menntmrh. setji að fengnum tillögum tiltekinna aðila reglur um opinbera samkeppni vegna meiri háttar listskreytingaverkefna. Þessar reglur hafa aldrei verið settar en á vegum Sambands ísl. myndlistarmanna hafa verið samdar reglur um listaverkasamkeppni með hliðsjón af sambærilegum reglum annars staðar á Norðurlöndum. Í 7. gr. er gert ráð fyrir að miðað verði við þessar reglur þegar efnt er til samkeppni um listskreytingaverkefni á grundvelli laganna. Þá er og ákvæði um hugsanlega þátttöku erlendra listamanna í slíkri samkeppni rýmkað á þá lund að það taki ekki einungis til Norðurlanda heldur og annarra landa þar sem íslenskir myndlistarmenn njóta sömu réttinda.
    Í 10. gr. eru nokkrar breytingar. Þannig er 2. mgr. ný. Þar er stjórn Listskreytingasjóðs heimilað að gera það að skilyrði framlags úr sjóðnum til listskreytingar í byggingu sem sveitarfélög standa að ásamt ríkinu að á móti komi framlög frá hlutaðeigandi sveitarfélögum. Það verður að telja eðlilegt að sveitarfélag sem reisir og á byggingu á móti ríkinu taki að öðru jöfnu þátt í kostnaði vegna listskreytingar eins og annarra þátta byggingarframkvæmdanna. Í stað þess að gera ráð fyrir lögskipuðum framlögum sveitarfélaga til sjóðsins er búið í haginn fyrir kostnaðarþátttöku þeirra með þessu ákvæði. Í þessu sambandi má minna á að Samband ísl. sveitarfélaga tilnefnir skv. lögum einn fulltrúa í stjórn Listskreytingasjóðs og er það með sínum hætti vísbending um að eðlilegt þyki að sveitarfélögin láti verkefni sjóðsins til sín taka. Heimildin til að áskilja mótframlag á skv. frv. einnig að gilda gagnvart ríkisstofnunum sem hafa sjálfstæðan fjárhag. Það er nýmæli og gilda um það að mestu hliðstæð rök og lýst var hér á undan varðandi byggingar með aðild sveitarfélaganna.
    Í 3. mgr. 10. gr. er svo það nýmæli að sjóðsstjórn er heimilt að veita styrk vegna kostnaðar við undirbúning umsóknar um framlag til listskreytingar, svo sem samkeppni eða gerð viðamikilla líkana. Slíkur styrkur mundi þá ekki teljast með við útreikning hámarksframlaga skv. 1. mgr. 10. gr.
    Hér er með öðrum orðum um nokkrar breytingar að ræða á lögunum um
Listskreytingasjóð ríkisins með hliðsjón af fenginni reynslu. Út af fyrir sig gætu menn rætt það hér ef þeir vildu hvort setja ætti ákvæði um það að lækka eitthvað þetta hlutfall til Listskreytingasjóðs miðað við það framlag sem Alþingi hefur treyst sér til að veita Listskreytingasjóði á undanförnum árum. Ég vil ekki gera neina tillögu um slíkt. Ég tel eðlilegt að halda sig við þetta 1% eins og það hefur verið. Ef það verður hins vegar niðurstaðan við meðferð lánsfjárlaga að breyta því þá kemur sá vilji Alþingis í ljós. Ég legg á það áherslu að þetta prósent verði ekki skert í sjálfum lögunum um listskreytingar.
    Í fskj. með frv. er afar fróðleg upptalning á því hvað þessi sjóður hefur í raun og veru gert mikið gagn miðað við þá fjarska takmörkuðu fjármuni sem hann hefur haft. Það má segja að hann hafi styrkt verkefni, listskreytingar, málverk, veggteppi,

myndvefnað og skúlptúra í öllum byggðarlögum landsins og í fjöldamörgum opinberum stofnunum. Árið 1983 voru þetta 7 verkefni, 1984 voru það 6 verkefni, 1985 voru þau 14, 1986 voru þau 12, 1987 voru þau 10, 1988 21 verkefni og 1989 12 verkefni. Samtals er hér um að ræða 84 verkefni sem Listskreytingasjóður hefur veitt fjármuni til og eins og menn sjá af þessu yfirliti, þá er ekki vafi á því að þarna hefur oft munað verulega um þetta framlag ríkisins, Listskreytingasjóðs, og það hefur áreiðanlega iðulega ráðið úrslitum um það að listskreytingar voru ákveðnar í eða á viðkomandi byggingu. Þess vegna er það mjög brýnt að starfsemi þessa sjóðs fái að halda áfram. Um sjóðinn og meginstefnu hans hefur út af fyrir sig verið ágætur friður á undanförnum árum þannig að ég vænti þess að hv. Alþingi taki þessu frv. vel og ég legg til, herra forseti, að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.