Listskreytingasjóður ríkisins
Þriðjudaginn 06. mars 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til l. um Listskreytingasjóð ríkisins og eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. menntmrh. er frv. þetta flutt til að uppfylla ákveðna lagaskyldu um endurskoðun núgildandi laga um Listskreytingasjóð ríkisins. Frv. byggir á gildandi lögum með nokkrum breytingum sem hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir og ég skal ekki gera nánar að umtalsefni hér.
    Ég hef hins vegar áhuga á í þessari 1. umr. að ræða þetta nokkuð almennt og þá að velta þeirri spurningu upp hvort sú leið sem valin var á sínum tíma með stofnun Listskreytingasjóðs ríkisins hafi verið rétt eða ekki. Ég vil í því sambandi minna á --- ég held að það hafi verið fyrsta mál sem ég flutti eftir að ég var kosinn á þing, veturinn 1979--1980 --- að ég flutti ásamt tveimur öðrum þm. Sjálfstfl., þeim hv. þm. Halldóri Blöndal og Ólafi G. Einarssyni, sérstakt frv. til laga um listskreytingar opinberra bygginga þar sem gert var ráð fyrir að skylt væri að verja til listskreytinga opinberra bygginga fjárhæð sem næmi 1--2% af byggingarkostnaði mannvirkis og að kostnaður sem af þessu leiddi teldist til stofnkostnaðar byggingar. Þetta frv. endurfluttum við síðan á tveimur næstu þingum þannig að það var flutt samtals þrisvar sinnum. Það komst aldrei lengra en í nefnd en niðurstaða þessara umræðna varð þó sú að þáv. hæstv. menntmrh., Ingvar Gíslason, flutti frv. um Listskreytingasjóð ríkisins sem varð að lögum. Ég studdi það frv. þegar það kom fram þótt ég hefði vissar efasemdir um að þessi sjóðsleið væri rétt og skynsamleg í stöðunni.
    Ég held að reynslan hafi sýnt okkur að ótti manna við þessa leið, að stofna sérstakan sjóð sem Alþingi veitti fé til árlega, hafi verið á rökum reistur. Það er að vísu alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði að þegar lesin er sú skrá sem fylgir þessu frv. um þau listaverk sem þessi sjóður hefur
kostað þá er enginn vafi á því að hann hefur stuðlað að gerð margra listaverka vítt og breitt um landið og vafalaust rétt að mörg þeirra listaverka væru ekki til í dag á þessum stöðum eða í þessum byggingum eða við þær ef sjóðurinn hefði ekki verið til staðar. En ég held engu að síður að ef sú leið hefði verið farin að viðurkenna strax í upphafi að 1--2% af stofnkostnaði hverrar byggingar ætti að vera til listskreytinga og byggjendurnir sjálfir ráðstöfuðu þeirri upphæð þá megi færa fyrir því rök að allmiklu meira fé hefði runnið til þessa málaflokks en ella.
    Við höfum í gildi margvíslegar reglugerðir og staðla um opinberar byggingar. Við höfum byggingarreglugerðir sem gera kröfur um frágang á ýmsum sviðum varðandi byggingar. Við höfum staðla um frágang á ýmiss konar atriðum varðandi byggingar, ég nefni gólfefni, málningu og þess háttar til að gera þessar byggingar vandaðar. Allt eykur þetta auðvitað kostnað við byggingarnar. Við fáum góða arkitekta í flestum tilvikum til þess að hanna opinberar byggingar. Þeir gera vissar kröfur um útlit

og annað sem eykur kostnað þessara bygginga umfram það sem einföldustu byggingar mundu kosta og allt miðar þetta auðvitað að því að gera byggingarnar vandaðri, endingarbetri en auka kostnað við þær um leið og enginn segir neitt við því að þetta sé hluti eðlilegs byggingarkostnaðar. En þegar kemur að jafnsjálfsögðum hlut og að listskreyta opinberar byggingar, þá vandast málið. Þá þarf einhverja miðstýringu í þessu öllu, þá þarf sérstakan sjóð, sérstaka stjórn og Alþingi að ákveða fjármuni í þennan sjóð sem hefur ekki tekist betur en raun ber vitni. Hæstv. menntmrh. rakti réttilega í sinni ræðu hér áðan að hæst hefur þetta hlutfall farið í 66% af því sem lögin gera ráð fyrir og allt niður í 23%.
    Ég velti þessu hér upp til þess að menn hugleiði það hvort við séum raunverulega á réttri braut með þennan listskreytingasjóð. Ég er ekki með þessu að andmæla þessu frv. og mun auðvitað styðja það ef meiri hluta Alþingis finnst rétt að halda áfram á þessari braut. En mér finnst að þetta þrönga hlið, sem Alþingi er búið að setja með þessum lögum, á þeirri leið sem er jafn sjálfsögð og eðlileg og það er að listskreyta byggingar hafi frekar verið hamlandi en hitt. Og ég er sannfærður um að ef sú leið hefði verið valin að gera það að skyldu að byggjendur hverrar byggingar, ríkisstofnanir í þessu tilviki, viðurkenndu listskreytingar sem ákveðinn hluta af byggingarkostnaði eins og allt annað sem byggingu tilheyrir þá hefðum við, með því að opna það á þann veg, náð í meira fjármagn til jafnsjálfsagðra hluta og að listskreyta opinberar byggingar.
    Þessar hugleiðingar vildi ég nú setja hér fram við 1. umr. um þetta mál. Ég ítreka að ég er ekki að lýsa neinni andstöðu við þetta frv. nema síður sé en tel að menn ættu að hugleiða það mjög rækilega. Kannski er ekki ráðrúm til þess á þessu þingi að breyta um stefnu en mér finnst að menn ættu að hugleiða það mjög rækilega hvort ekki eigi að rífa niður þetta þrönga hlið sem búið er að setja á þessum vegi og opna það meira með því að leggja þá skyldu, bara þegjandi og hljóðalaust og án nokkurra frekari málalenginga, á herðar allra sem byggja opinberar byggingar að þeir verji 1--2% af byggingarkostnaði til
listskreytinga.