Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Miðvikudaginn 07. mars 1990


     Friðrik Sophusson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Það upplýsist hér og nú að það hefur ekki verið gert samkomulag um að víkja frá dagskránni. Það hefur eingöngu verið gert samkomulag um að flytja til þingflokksfundi til þess að ýmsir þingmenn og væntanlega þá hæstv. ráðherra geti tjáð sig um fyrirliggjandi frv., sem er sjötta mál á dagskrá, og er sjálfsagt að verða við því. Ef hins vegar virðulegur forseti hefur talið að samið hafi verið um það að víkja frá dagskránni og taka ekki mál sem er stjfrv. til 2. umr., en það er mjög óvenjulegt að það hafi ekki forgang í dagskrá, þá finnst mér það a.m.k. lágmarksskylda hæstv. forseta og þeirra sem standa að slíku samkomulagi að hafa samband við framsögumenn í því máli því að allir vita að það liggur mjög mikið á að það mál fái afgreiðslu. Ég vil því að það komi skýrt fram hér og reyndar sagði hv. síðasti ræðumaður frá því að samkomulagið næði aðeins til þess að víkja til þingflokksfundatíma til að menn gætu tjáð sig í síðara málinu, þ.e. sjötta dagskrármálinu, en ekkert samkomulag er um það að víkja skuli til hliðar fimmta málinu sem er hér á dagskrá og bíður eftir því að fá afgreiðslu við 2. umr.