Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Miðvikudaginn 07. mars 1990


     Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það er auðvitað deginum ljósara að hæstv. forseti hefur fulla heimild til þess að víkja frá prentaðri dagskrá og raða málum öðruvísi en þar er gert. Ég vil hins vegar að fram komi að ég skildi það þannig þegar ég féllst á það að þingflokksfundir hæfust ekki fyrr en kl. 5 að ég reiknaði með því að haldið yrði þeirri röð sem á dagskránni var prentuð og frv. um ábyrgðadeild fiskeldislána tekið til 2. umr. og undir það var ég búinn, að það yrði rætt, og síðan yrði farið í sjötta dagskrármálið. Ég var reyndar undrandi á því í gær að þetta frv. skyldi ekki vera tekið til 2. umr. og ekki á dagskrá. Ég átti alveg von á því að það yrði gert því að það er nokkuð síðan nál. komu fram í málinu og þetta mál hefði verið hægt að ræða fyrr. ( FrS: Það var fjarvera hæstv. ráðherra.) Já, það kann að vera að það hafi verið það sem var ástæðan til þess að það var ekki rætt í gær. En allt um það þá átti ég von á því að þetta mál yrði tekið til umræðu hér í dag. Ég viðurkenni hins vegar að það er í valdi forseta deildarinnar að ákveða að breyta út af þeirri röð sem prentuð er á dagskránni.