Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Miðvikudaginn 07. mars 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. 1. flm. þessa máls, hv. 5. þm. Vestf., hefur mælt fyrir því frv. sem hér er á dagskrá í ítarlegu máli. Ég vil aðeins lýsa því að ég tel ekki ástæðu til að endurtaka þær röksemdir sem hann hefur hér flutt né þær skýringar sem hann hefur gefið á þessu frv. en lýsa því að ég er samþykkur því sem fram kom í hans ræðu, enda erum við sameiginlega flm. þessa máls.
    Ég vil áður en ég vík að ræðu hæstv. fjmrh. eigi að síður leggja áherslu á nokkur atriði þessa frv. Í fyrsta lagi tel ég að það sé eftirtekarvert að fjvn. sameiginlega tekur ákvörðun um það að semja og flytja frv. um nýja skipan á heimildum framkvæmdarvaldsins til meðferðar á fjármálum ríkisins. Það er athyglisvert að nefndarmenn í fjvn., sem allir standa að flutningi þessa frv., skiptast ekki í fylkingar eftir einstökum flokkum og ekki eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu heldur eru þeir allir þeirrar skoðunar að þarna þurfi að verða breyting á.
    Frv. sem hér liggur fyrir er eins og fram hefur komið vandlega undirbúið. Starfað hefur undirnefnd úr frárveitinganefnd og það hefur verið leitað upplýsinga um meðferð þessara mála á hinum Norðurlöndunum og þær upplýsingar eru birtar sem fskj. með þessu frv. Það hefur enn fremur verið leitað til lagamanna um lokayfirferð frv. og þó að þar megi e.t.v. eitthvað finna sem betur megi fara, þá verður ekki um það sagt að hér sé ekki um vandaðan undirbúning að ræða, undirbúning sem er á ábyrgð flm. sem eru úr öllum flokkum sem fulltrúa eiga í fjvn. Þetta er að mínum dómi ákjósanlegt og hyggilegt vinnulag þegar fyrir Alþingi er lagt frv. til laga sem á að breyta skipan í einum eða öðrum þætti stjórnsýslunnar. En ekki að einstök ríkisstjórn eða einstakur meiri hluti á Alþingi, sem þar situr um stundarsakir, komi fram meirihlutavaldi sínu gegn vilja minni hlutans við það að breyta slíkum reglum sem ýmsar ríkisstjórnir eiga síðan að búa við.
    Frv. felur sem sé ekki í sér að með því sé verið að gera atlögu að einni ríkisstjórn, ekki að núv. hæstv. ríkisstjórn eða núv. hæstv. fjmrh., heldur er hér verið að gera tilraun til þess að fá lögfesta nýja skipun um betri meðferð þessara mála. Og það er alveg nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að það er hinn heppilegi undirbúningur þegar við erum að breyta lögum um ýmsa þætti stjórnsýslunnar. Við höfum séð hér á Alþingi undanfarna mánuði aðra meðferð mála þegar verið er að breyta lögum um Stjórnarráð Íslands. Þar er á annan veg að verki staðið sem ekki skal rætt hér, annan veg sem ekki er til eftirbreytni.
    Ég lít svo á að með þessu frv. sé nokkurt tímamótamál á ferðinni. Þetta frv. er vitaskuld flutt til þess að verja valdsvið löggjafarvaldsins, verja valdsvið Alþingis fyrir ásælni framkvæmdarvaldsins. Þetta valdsvið Alþingis er þó eigi að síður bundið í stjórnarskránni, þ.e. í 41. gr. stjórnarskrárinnar. Svo

langt hefur þessi ásælni framkvæmdarvaldsins gengið yfir á verksvið löggjafarvaldsins í meðferð fjármuna ríkisins að fjvn. hefur talið sig knúna til þess að leggja fram þetta frv. og það án tillits til þess hvar einstakir fjárveitinganefndarmenn eru í flokki eða hvort þeir styðja núv. hæstv. ríkisstjórn eða eru í andstöðu við hana. Þetta er það grundvallarsjónarmið sem rétt er að hafa í huga við alla umfjöllun um þetta mál.
    Nú er best að segja það eins og það liggur fyrir að engin ríkisstjórn í áratugi er saklaus af því að hafa gengið yfir á þetta valdsvið Alþingis sem bundið er í stjórnarskrá. Engin ríkisstjórn í áratugi er saklaus af því að hafa veitt það sem kallað er aukafjárveitingar í mismunandi miklum mæli. Og sumir telja að þegar slíkt hefur gengið í áraraðir, jafnvel áratugi, þrátt fyrir að það sé andstætt ákvæði stjórnarskrárinnar, þá hafi myndast svokallaður venjuréttur sem helgi það að slík vinnubrögð geti haldið áfram. En það er nú svo að slíkt fyrirkomulag hefði e.t.v. getað haldið áfram ef ekki væri gengið of langt og ef Alþingi væri í rauninni ekki misboðið í þessum efnum. Og ég hef sagt hér áður að þegar svo er komið að útgjöld ríkissjóðs fara ár eftir ár, fyrst árið 1988 og síðan 1989 um 8--9 milljarða á ári fram úr því sem fjárlög heimila, þá hlýtur Alþingi að vera nóg boðið og með þessu var fjvn. nóg boðið. Þetta er því með þeim hætti að fjvn. hefur ekki séð sér fært að sitja undir þessari meðferð mála lengur án þess að gera tilraun til þess að fá breytingar á.
    Nú þarf ég í rauninni ekki að rekja það hvernig þetta hefur orðið, en í ræðu sinni áðan sagði hæstv. fjmrh. að hann hefði takmarkað mjög aukafjárveitingar og á þessu ári væri ákveðið af hans hálfu að engin aukafjárveiting yrði veitt. Til þess að rifja það aðeins upp, þó að það hafi verið gert fyrr, var það svo að skömmu fyrir stjórnarskiptin í lok september 1988 lagði þáv. fjmrh. fyrir ríkisstjórnina greinargerð um líklega afkomu ríkissjóðs á því ári. En þá höfðu fjárlög verið afgreidd með jöfnuði. Sú greinargerð þáv. fjmrh. sagði til um það að áætlað var að útgjöld ríkissjóðs mundu fara fram úr fjárlögum þannig að halli yrði 693 millj. kr. Ný ríkisstjórn tók við og nýr fjmrh., núv. hæstv. fjmrh., lýsti því í hverri ræðu sem hann flutti um þessi mál að þessar
áætlanir mundu fara úr böndum og halli verða stórum meiri. Það var síðan áætlað, öðru hvoru megin við áramótin 1988/89, að þessi halli yrði ekki 693 millj. kr. heldur 7200 millj. kr. Þannig breyttust þessar áætlanir á örfáum mánuðum frá því í september og til ársloka úr 693 millj. halla yfir í 7200 millj. halla. Og greinargerð um afkomu ríkissjóðs á síðasta ári, sem einnig fjallar um afkomu ríkissjóðs á árinu 1988, sýnir að hallinn það ár er ekki 7200 millj. kr. heldur 8100 millj. kr. og ekki hefur þetta gerst án þess að veittar væru aukafjárveitingar. Sömu sögu er í raun að segja um síðasta fjárlagaár en þá fóru útgjöld ríkissjóðs fram úr fjárlagaheimildum um 9,5 milljarða kr.
    Ég er viss um að hæstv. fjmrh. segir það satt og rétt að hann hafi ekki veitt aukafjárveitingu á þessu

ári og ég mundi styðja hann í því ef það tækist að halda á þann veg á málum út þetta fjárlagaár sem nú er nýlega hafið. En það frv. sem hér liggur fyrir miðar að því að móta reglur sem styrkja hæstv. fjmrh. í því að ná fram þeirri ætlun sinni. Ég skal ekki fara um það mörgum orðum og engum svigurmælum í garð hæstv. ráðherra, en ég held að þessi meðferð mála síðustu tvö árin, þó svo hún hafi viðgengist áður í minna mæli, hljóti að leiða til þess að Alþingi sæki sér það vald sem því ber samkvæmt stjórnarskránni. Og um það fjallar þetta frv: að festa í lög reglur um það hvernig það skuli framkvæmt.
    Ég held að þessi ásælni framkvæmdarvaldsins hafi sumpart, eins og fram kom í ræðu hv. 5. þm. Vestf., leitt til þess að fjárlög hafi verið afgreidd vitandi vits óraunsætt. Þessi ásælni, sem ég gæti kallað sjálftökurétt framkvæmdarvaldsins, hefur leitt til þess að framkvæmdarvaldið hefur beitt sér fyrir því við fjárlagaafgreiðslu að útgjöld á vegum ríkisins sem vitað er að munu til falla á fjárlagaárinu hafa ekki verið færð á gjaldahlið fjárlaga heldur hefur þeim verið leynt, þau hafa verið geymd, þau hafa verið dulin. Og þetta kom glögglega fram í máli hv. 1. flm. þessa frv. Ég hef lýst því við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1989 og fyrir árið 1990 hvernig þessu er háttað. Ég segi það eins og það liggur fyrir að þegar ég lýsti því við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1989, hvernig þar væru dulin ýmis útgjöld sem mundu til falla á árinu, þá varð ég ekki eins stórkarlalegur í útreikningum mínum eins og raunin varð. Útkoman varð miklu hrikalegri og verri en ég gerði mér þá grein fyrir eða vildi áætla því ég vildi gjarnan fara varlega í mínar áætlanir. Enn fremur nú við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1990 lýsti ég þessu allítarlega að um leið og fjárlögin fyrir árið í ár væru afgreidd með 3,7 milljarða halla þá væri það ekki nema hluti hallans því ég taldi upp í fjölmörgum fjárlagaliðum það sem vantaði inn í fjárlögin sem samtals væri eigi fjarri þremur milljörðum. Það væru útgjöld sem til mundu falla að verulegu eða mestu leyti á fjárlagaárinu og geymd væru uppi í skúffum hæstv. fjmrh. og hann kynni síðan að láta til falla á fjárlagaári með einhverjum hætti þegar honum byði svo við að horfa. Og e.t.v. á þann hátt að ekki bæri eins mikið á því og þegar verið væri að afgreiða fjárlög. Þetta er sú hneigð framkvæmdarvaldsins sem fylgir því að hafa möguleika til sjálftökuvalds í meðferð fjármuna ríkisins. Og þetta kom einnig glöggt fram í máli hv. 1. flm. frv.
    Ég held að það sé öllum ljóst að þegar svo gengur fram sem verið hefur nú um hríð þá þurfi að spyrna við fótum. Hæstv. fjmrh. hefur talað í þá átt og það má bera á hann lof fyrir það að hafa talað í þessa átt en því miður er árangur hans í störfum í öfuga átt til þessa. Það væri sannarlega gott ef sú nýbreytni hefði orðið um síðustu áramót að árangurinn yrði í samræmi við það sem hann hefur haldið fram í sínum málflutningi. Það væru sannarlega gleðileg stakkaskipti.
    Áður en ég fer út í einstaka efnisþætti í þessu frv.

vildi ég koma að örfáum atriðum. Í þeirri ítarlegu ræðu sem hæstv. fjmrh. flutti hér --- sem í sjálfu sér var hófsamleg og ítarleg ræða og það er nú ekki alltaf að hæstv. ráðherra flytur ræðu með þeim hætti --- lagði hann fram það sem hann kallar tillögur í 14 liðum sem mér sýnist að miklu leyti sé óviðkomandi þeirri nauðsyn að afgreiða þetta frv. Að sumu leyti sló þetta mig þannig að með þessum 14 punktum væri hæstv. fjmrh. að gera tilraun til að drepa á dreif dagskrármálinu sem hér liggur fyrir. En þegar betur er að gáð, þó að þetta kynni að hafa hvarflað að hæstv. ráðherra, þá segir í einum af þessum 14 punktum, þ.e. þeim níunda, nákvæmlega það sem þetta frv., sem hér liggur fyrir, byggist á. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Allar greiðslur úr ríkissjóði verði annaðhvort samkvæmt heimildum í fjárlögum eða fjáraukalögum og aukafjárveitingar lagðar niður.`` Með þessari tillögu, með þessum punkti í 14 punktum hæstv. ráðherra, þá lýsir hann efnislega fullum stuðningi við það frv. sem hér liggur fyrir og hefði getað stytt ræðu sína mjög mikið með því að átta sig á þessu aðalatriði málsins. Aðrir þættir í þessum 14 punktum hæstv. ráðherra eru sumir hverjir athyglisverðir og hafa verið til umræðu langa hríð. Aðra líst mér ekki á og tel að ekki mundu vera til bóta en ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla um þessa 13 punkta í tillögum hæstv. ráðherra vegna þess að þeir eru margir
hverjir óviðkomandi því hvort þetta frv. er afgreitt eða ekki. Þeir geta eigi að síður haft þýðingu í meðferð ríkisfjármála og er sjálfsagt að taka þá alla til athugunar í tengslum við þau mál þó að það verði e.t.v. ekki gert í tengslum við afgreiðslu þessa frv.
    Varðandi 14. punktinn í þessum tillögum hæstv. fjmrh. þar sem segir: ,,Myndaður verði vettvangur fyrir samráð og skoðanaskipti milli fulltrúa framkvæmdarvalds og löggjafarvalds með því að endurvekja ríkisfjármálanefnd`` o.s.frv. finnst mér sjálfsagt mál og eðlilegt og áreiðanlega fullkomlega á valdi hæstv. fjmrh. að gera það. Ég trúi því að fulltrúar meiri hl. í fjvn., sem eðli málsins samkvæmt eiga aðild að slíkri nefnd, séu fúsir til þessa verks. En það er einmitt þessi hæstv. fjmrh. sem fellt hefur niður þetta starf og mér þykir vænt um að hæstv. fjmrh. hefur áttað sig á því að þetta starf ber að taka upp aftur vegna þess að það er til góðs og það er nauðsynjaverk að tengja saman áætlanir, ákvarðanir og umræður um einstakar tillögur sem eru á ferðinni í fjmrn. og í undirstofnunum þess er varða ríkisfjármál við fulltrúa stjórnarliðsins, fyrst og fremst stjórnarliðsins í fjvn. Það er auðvitað miður fyrir samhengi þessara mála og samstarf á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins um ríkisfjármál að hæstv. fjmrh. skuli hafa fellt þetta niður. Mér þykir það til bóta að hann skuli hafa áttað sig á því að það sé réttara að taka þetta upp að nýju.
    Ég held að það séu í þessu punktar sem koma nálægt því sem er í frv. Í 10. punkti t.d. er fjallað um það að með hverju þingmáli, stjfrv. og þmfrv. sem leitt geti til aukinna útgjalda, skuli fylgja áætlun um

það hvernig útgjöldunum skuli mætt. Í frv. okkar fjárveitinganefndarmanna er að þessu vikið í 6. gr. með skýrum hætti, sem ég tel mjög nauðsynlegt, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ákvæði laga og reglugerða, er hafa útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlögum hvers árs, svo og ákvarðanir eða fyrirmæli stjórnvalda sama eðlis, öðlast ekki gildi fyrr en Alþingi hefur samþykkt fjárveitingu til þessara útgjalda í fjáraukalögum eða fjárlögum settum eftir birtingu laga, reglugerða eða stjórnvaldsfyrirmæla sem hér um ræðir.``
    Þetta lýtur að þessum þætti í punktum hæstv. fjmrh. og er nauðsynlegt vegna þess að það hefur iðulega komið fyrir að framkvæmdarvaldið seilist til þess með reglugerðum að festa með reglugerðum ákvæði sem hafa útgjöld í för með sér og Alþingi, eins og hæstv. fjmrh. sjálfur tók fram, hefur hneigð til þess að afgreiða mál sem hafa útgjöld í för með sér þó að þau séu ekki á fjárlögum. Þessu verður að linna og ég get alveg tekið undir það með hæstv. fjmrh. að sá tvískinnungsháttur sem tíðkast hefur iðulega á hv. Alþingi, að hér vilja menn samþykkja ýmis góð mál sem hafa útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð en standa síðan undrandi og gapandi hissa þegar kemur í ljós við afgreiðslu fjárlaga að það er erfitt að finna peninga til að standa undir þessum útgjöldum, þeim tvískinnungshætti verður að linna. Það er alveg sama hvaða ríkisstjórn er við völd. Slíkum tvískinnungshætti verður að linna af hálfu Alþingis, enda á þetta frv., eins og ég hef mjög skýrt tekið fram, að leiða til þess að mótaðar verði reglur sem hafa heillavænlegri meðferð mála í för með sér og eru ekki bundnar við einhverja eina ríkisstjórn.
    Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til að fjalla um þessa 14 punkta umfram það sem ég hef þegar gert. Einn þeirra, sá hinn níundi, er grundvallaratriði í því sem viðkemur þessu frv. Aðrir mega bíða betri tíma þó að þar sé um athyglisverðar hugleiðingar að ræða sem sumar hverjar hafa margsinnis verið ræddar og þarf að taka til nánari athugunar hvað mönnum sýnist réttast í þeim efnum. Í ræðu sinni sagði hæstv. fjmrh. m.a. að fjmrh. ætti ekki að ljá máls á nýjum útgjöldum vegna þrýstings af hálfu samráðherra sinna eða einstakra þingmanna. Þetta er góð regla og hér er væntanlega átt við málefni og útgjöld sem ekki eru á fjárlögum. Og fyrir þetta væri tekið með því frv. sem hér liggur fyrir. En því miður sýnir reynslan, eins og ég hef hér sagt, bæði frá ráðherratíð hæstv. fjmrh. seinni hluta ársins 1988 og á fjárlagaárinu 1989, að útgjöld ríkisins fóru 8--9 milljarða fram úr því sem fjárlög gerðu ráð fyrir.
    Hæstv. ráðherra fjallaði nokkuð um það að ekki væri nægilega skýrt kveðið á um það í þessu frv. hvaða þættir í útgjöldum fjárlaganna bæru greiðsluskyldu og hvaða fjárlagaliði mætti líta á sem greiðsluheimild. Það má vel vera að um þetta megi kveða fastar og skýrar að orði. Það liggur fyrir samkvæmt mínum skilningi a.m.k. að launaútgjöld og rekstrarútgjöld ýmiss konar eru samkvæmt

greiðsluheimildum. En þær greiðsluheimildir hafa sín takmörk þannig að það er ekki heimilt að fara fram úr því sem fjárlög kveða á um samkvæmt þessu frv. nema nýrra heimilda sé aflað í fjáraukalögum. Á hinn bóginn lít ég svo á varðandi tilfærslur til ýmissa sjóða eða verkefna, fjárfestingarframlög og styrki til einstakra aðila að þar sé um að ræða greiðsluskyldu nema hinir einstöku aðilar sem eiga að fá fjárveitinguna séu ekki í stakk búnir til þess að taka við henni. Við skulum segja að um framkvæmdaframlag væri að ræða og undirbúningur framkvæmdarinnar væri ekki á þeim vegi að eðlilegt væri að
greiða fé til fjárfestingarinnar, þá gæti það takmarkað að féð verði greitt. En að öðru leyti á þessi tiltekni aðili þá fjárveitingu sem Alþingi hefur ákveðið ef undirbúningur hans til fjárfestingarinnar er á þeim vegi að réttlætanlegt sé að hún sé greidd. Þetta er tvímælalaust minn skilningur og ef undirbúningur er ekki kominn það langt að framkvæmdir geti hafist, sem féð er veitt til, þá beri að geyma þá fjárveitingu á milli ára.
    Hæstv. ráðherra sagði að skynsamlegt gæti verið að skuldbinda ríkissjóð til tveggja ára, til að mynda með verksamningum, og það getur verið rétt. En ég fæ ekki séð að þetta frv. komi í veg fyrir það því að hér segir að óheimilar séu fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð, stofnanir ríkisins og fyrirtæki, umfram heimildir fjárlaga fyrir hvert reikningsár. Þótt gerður sé verksamningur sem nær yfir tvö ár þá grípur hann að hluta til yfir á annað fjárlagaár sem væntanlega mundi þá vera skuldbinding að fé yrði veitt til á því ári og ég sé ekki að það komi neitt í veg fyrir þau ákvæði sem hér eru í frv.
    Hv. 1. flm. frv. skýrði hér nokkuð 2. gr. þess sem fjallar um kjarasamninga og það er rétt að það eru nokkuð skiptar skoðanir um það hvort sú grein verði til einhverra trafala við gerð kjarasamninga. Við höfum ekki litið svo á, okkar lögfræðilegir ráðgjafar og ráðgjafar með víðtæka reynslu hafa talið að svo sé ekki. Þetta getur þurft að skoða nánar en ég lít svo til að þó að fjmrh. gerði kjarasamning skömmu fyrir kosningar þá breytti það ekki því að skylt væri, samkvæmt þessari grein, að leggja hann fyrir Alþingi. Ef nauðsynlegt þætti að slaka aðeins á þessum ákvæðum er hægt að hugsa sér að á þeim tíma sem Alþingi situr ekki og ekki væri hentugt að kalla það saman og gerður væri kjarasamningur sem færi t.d. eitt eða tvö prósent fram úr launaforsendum fjárlaganna, þá gæti það gilt að fjvn. lýsti því yfir að hún mundi leggja til við Alþingi að þessi aukaútgjöld yrðu samþykkt. Það er hægt að hugsa sér einhverja slíka millileið ef menn hafa beyg af því að þarna kunni að verða árekstrar, sem ég hef nú talið að væri að ástæðulausu. En þetta er auðvitað atriði sem er mögulegt að skoða.
    Hæstv. ráðherra sagði að það hvarflaði að sér að með frv. væri löggjafarvaldið að teygja sig inn á svið framkvæmdarvaldsins. Ég hef hins vegar lýst því yfir að með þessu frv. sé löggjafarvaldið að sækja sinn

rétt sem framkvæmdarvaldið hefur tekið í sinn hlut með eins konar sjálftökuvaldi. Ég held að framkvæmdarvaldið verði að gera sér grein fyrir því, þar á meðal hæstv. núv. fjmrh. og hann verður væntanlega ekki einn um það að búa við þessar reglur ef frv. verður lögfest, að það er Alþingis að setja þær reglur sem framkvæmdarvaldinu ber að starfa eftir en ekki öfugt. Það er ekki framkvæmdarvaldsins að segja Alþingi fyrir verkum. Alþingi er sá aðili sem ræður og ef Alþingi setur lög þá ber framkvæmdarvaldinu að fara eftir þeim.
    Ég hef rifjað það upp hér stundum í umræðum um ríkisfjármál að núverandi hæstv. ríkisstjórn hættir til að líta svo á að hún geti farið sínu fram án tillits til þess sem lög heimila í vissum atriðum. Skýrast og algengast er þetta í sambandi við greiðslu fjár úr ríkissjóði en jafnvel svo að í leiðinni séu brotin önnur lagaákvæði. Ég vakti þetta mál upp í byrjun þessa þings í haust og ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svör hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh., en svör þeirra voru í rauninni á þá lund að ef þeim þætti haganlegt og þeir teldu rétt að fara á svig við lög, þá væri það að þeirra dómi allt í lagi. Ég á við t.d. að einn hæstv. ráðherra hefur þrjá pólitíska aðstoðarmenn en má samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands hafa einn. Af því hann taldi það nauðsynlegt fyrir sig og sitt ráðuneyti að hafa þrjá pólitíska aðstoðarmenn þá er það bara sjálfsagt. Og af því að einn ráðherra sem ekki gegnir því starfi í þessari ríkisstjórn hafi sett upp sérstaka deild innan fjmrn. án heimildar og núv. hæstv. fjmrh. sagði að það væri nauðsynlegt að hafa þessa deild, þá skiptir það litlu máli þó hún hafi á sínum tíma verið sett án þess að heimildir væru fyrir.
    Þetta sjónarmið verður að víkja. Það verður að fara að í þessum málum eins og lög segja í landinu og Alþingi hefur ákveðið. Og með því að hæstv. fjmrh. hefur í sínum fjórtán punktum, í þeim hinum níunda lýst grundvallarsamþykki sínu við þetta frv. þá er þetta frv. þeim mun líklegra til þess að renna hér ljúflega í gegn og verða hæstv. ráðherra núv. og þeim sem á eftir koma til hjálpar til þess að fara að í afgreiðslu mála í fjármálum ríkisins þannig að þau fari ekki í bága við fyrsta lagi við stjórnarskrána og í einstökum atriðum við allt önnur lög. Og þessu vona ég að hæstv. fjmrh. taki fagnandi.
    Það er hins vegar skiljanlegt að hæstv. ráðherrum á ýmsum tímum hafi þótt það þægilegt að geta með aukafjárveitingum liðkað til fyrir þeim verkefnum sem þeir vilja verja fé til, bæði til sinna eigin aðalskrifstofa og ýmissa annarra verkefna, en þetta hefur því miður gengið það langt að hjá því verður ekki komist að breyta til.
    Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess að verða við þeim tilmælum að flytja hér ekki of langt mál og ég tek undir það með hæstv. fjmrh. að við eigum að ræða þessi mál vandlega og við eigum að byggja okkar niðurstöðu á því að við
séum að móta lagareglu sem komi betri skipan á þessi mál, skipan sem leiðir til þess að við séum ekki sífellt að deila um misnotkun á fé ríkissjóðs. Og ef þessari

lagareglu sem er sett fram í frv. verður fylgt þá þarf ekkert um það að deila lengur, þá eru hér skýrar reglur festar á blað um það hvernig framkvæmdarvaldið skuli haga sínum málum að því er varðar fjárreiður ríkisins og greiðslur og skuldbindingar á fé ríkissjóðs. Ýmis önnur atriði sem hæstv. fjmrh. hefur nefnt og eru umhugsunarefni ætla ég ekki að fjalla hér frekar um, þau bíða betri tíma. Þessi mál eru vissuleg víðfeðm og það er margt sem þarf að athuga en þetta frv. nær ekki yfir öll þau atriði og ekki ástæða til. Þau atriði eru sum hver þannig að hæstv. fjmrh. getur haft í hendi sér framkvæmd mála en önnur eru þess efnis að þau þurfa nákvæma athugun hér á hinu háa Alþingi.
    Ég vil svo leyfa mér að vænta þess að það frv. sem hér er flutt og ég kalla tímamótafrumvarp megi verða að lögum á því þingi sem nú situr.