Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Fsp. hv. 6. þm. Vesturl. á þskj. 552 varðandi réttindastöðu kennara sem ráða sig tímabundið hjá Námsgagnastofnun er á þessa leið:
,,1. Hvers vegna er starf þeirra kennara, sem vinna tímabundið höfundarvinnu fyrir Námsgagnastofnun, ekki metið jafngilt kennslureynslu og hvers vegna halda þeir ekki samningsbundnum réttindum sínum hjá ríkinu, t.d. lífeyrisréttindum meðan þeir vinna að námsefnisgerð?
    2. Hyggst menntmrh. breyta þessu? Ef svo er, hvenær er þeirra breytinga að vænta?``
    Fram til þessa hefur sá háttur verið hafður á að námsefnishöfundar hafa verið ráðnir að hverju verkefni fyrir sig með sérstökum samningi sem hefur verið gerður við hvern námsefnishöfund. Umfang verkanna hefur verið metið eftir svokölluðu arkarmati og greiðsla fyrir hverja örk ákveðin sem hlutfall af mánaðarlaunum í tilgreindum launaflokki. Fyrir þessu er löng hefð. Greiðslur til höfunda samkvæmt þessum samningum eru bókfærðar og gefnar upp til skatts samkvæmt reglum sem gilda um svokallaðar verktakagreiðslur. Hér er með öðrum orðum ekki um venjulegar launagreiðslur að ræða með launatengdum gjöldum heldur eru þessar greiðslur gefnar upp til skatts sem svokallaðar verktakagreiðslur.
    Námsgagnastofnun hefur ekki ráðið kennara í fast starf til höfundarvinnu. Þar af leiðandi hefur ekki á það reynt hvort þeir héldu réttindum síðan meðan á því stæði. Fram til þessa hafa kennarar og aðrir tekið að sér námsefnisgerð og aðra höfundarvinnu sem aukaverkefni, oft með föstu starfi. Ráðningarform námsefnishöfunda eru sífellt til endurskoðunar, m.a. innan Námsgagnastofnunar og í stjórn Námsgagnastofnunar. M.a. hefur verið rætt um hvort ráða eigi námsefnishöfunda í fullt, tímabundið starf og með hvaða hætti því verði við
komið. Ef til slíks kæmi yrðu að eiga sér stað viðræður um það mál milli Námsgagnastofnunar, menntmrn. og hagsmunasamtaka kennara. Eins og heyra má af þessu svari getur það út af fyrir sig verið til skoðunar að fyrirkomulagi á greiðslum fyrir þessa vinnu verði breytt. En til þess að það gerist er eðlilegt að það sé rætt með hliðsjón af kjarasamningum kennara um aðra vinnu sem þeir inna af hendi. Og af hálfu þeirra hafa ekki komið fram sérstakar óskir nýverið um að fram fari viðræður um þessi atriði.
    Eins og kunnugt er, virðulegi forseti, hafa málefni Námsgagnastofnunar verið til meðferðar, m.a. hér á hv. Alþingi. Það sem liggur fyrir í þeim efnum er þrennt. Í fyrsta lagi að framlög til Námsgagnastofnunar hafa farið hækkandi að raunvirði og hækkað að raunvirði á þessu ári, 1990, frá árinu 1989 á sama tíma og niðurskurður eða sparnaður í flestöllum stofnunum skóla- og menntakerfisins á sér stað. Með þessum hætti vildi menntmrn. fyrir sitt leyti leggja á það áherslu að námsefnisgerðin er forgangsverkefni í menntamálum hér á landi.
    Í öðru lagi hefur það gerst að Alþingi hefur

ákveðið að heimila ríkisstjórninni að kanna sérstaklega hvernig bætt verði úr húsakosti Námsgagnastofnunar frá því sem verið hefur en stofnunin er núna með aðsetur á tveimur stöðum við afar óhentugan húsakost. Og í þriðja lagi hefur Alþingi til meðferðar frv. til nýrra laga um Námsgagnastofnun sem ég geri mér vonir um að verði að lögum á þessu þingi. Þessi mál hafa því verið hér til meðferðar og eru og þau mál sem hv. 6. þm. Vesturl. bendir á eru auðvitað líka verkefni sem á að huga að og hljóta að komast á dagskrá á næstu mánuðum og missirum og árum þar sem það er augljóst mál að tengja verður þessi mál hinum almennu reglum sem gilda um kjaramál kennara. En um það verður að gera samning og út af fyrir sig stendur ekki á menntmrn. að fara í viðræður um þau mál.