Fræðsla um kynferðisbrot
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil bara vekja athygli á því sem hefur kannski farið fram hjá hv. þm. í svari mínu áðan að nýtt námsefni hefur verið útbúið, kynfræðslunámsefni fyrir grunnskóla, og verið er að kenna það núna í mörgum grunnskólum. Ég tel mjög mikilvægt að það sé haft í huga. Jafnframt hef ég hagað orðum mínum með ónákvæmum hætti ef hægt væri að skilja þau þannig að ég hafi verið að tala um að beina áróðri eða fræðslu að þeim sem nú starfa í viðkomandi grein, hvort það eru lögreglumenn eða læknar, eða hver sem er. Ég var auðvitað að tala um skólana líka, námið í Háskóla Íslands, í Kennaraháskólanum, í Lögregluskólanum, sem þarf að taka til athugunar með hliðsjón af því alvarlega vandamáli sem hv. 6. þm. Reykv. hefur rækilega vakið athygli á hér.
    Ég get út af fyrir sig tekið undir hvert einasta orð sem hún sagði hér áðan og tel mjög nauðsynlegt að hv. Alþingi sé allt vakandi í þessu efni og menn sýni málinu áhuga og fylgi hlutunum eftir af krafti því ég er sannfærður um að skilningur á þessum vanda er fyrir hendi. Stóri vandinn er hins vegar sá að mjög víðtæk trúarvakningar- og áróðursherferð þarf að eiga sér stað. Það tekur kannski eins og eina öld í viðbót eða svo að breyta því hugarfari sem er grundvöllur þeirra vandamála sem við erum hér að tala um og hv. 6. þm. Reykv. rakti með svo ágætum hætti hér áðan.