Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni fyrir að setja fram þessa fyrirspurn og hv. iðnrh. svarið. Ég flutti hér við afgreiðslu fjárlaga till. um 10 millj. kr. fjárveitingu til þessa verkefnis en sú till. hlaut ekki náð fyrir augum þingmanna þá. Eitt kemur mér á óvart í svari hæstv. ráðherra. Ég stend í þeirri trú að það liggi nokkuð fyrir um þykkt setlaganna þarna. Hún er eitthvað á annan kílómetra og ef ég hef tekið rétt eftir þá er það niðurstaða sem kom fram af athugunum Rússa á undanförnum árum.
    Ég er alveg sannfærður um að ef þetta gas hefði fundist annars staðar en þarna á Norðurlandi þá væri búið að athuga meira í því máli en gert hefur verið. Því miður er enginn tími til að ræða þetta en þetta er mál sem verður að taka á. Þarna virðast vera möguleikar og það er athyglivert að þetta gas er með öllum þeim efnum sem finnast á olíusvæðum.