Þróunarsjóður lagmetis
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Fyrirspurn hv. 16. þm. Reykv. er að mínu áliti þess eðlis að henni verður best svarað skriflega. Ég mun þess vegna ekki geta gert grein fyrir í nákvæmum atriðum svörum við þeim spurningum sem hann bar hér fram.
    Ég ætla hins vegar að fara nokkrum almennum orðum um starfsemi Þróunarsjóðs lagmetis og gefa hugmyndir um þá fjármuni sem þar hefur verið ráðstafað með styrkjum eða lánum en býðst til að svara hv. þm. með öðrum hætti utan þingfundar. Enda er í ýmsum greinum um það að tefla að ekki er heppilegt að gefa upplýsingar um lán eða fjárveitingar til einstakra manna eða fyrirtækja en ég vonast til þess að í mínu svari geti komið fram nokkur meginatriði í málinu sem veiti upplýsingar sem gildi hafa fyrir meðferð þess síðar.
    Þróunarsjóðurinn hóf sín störf árið 1973 og hann hefur það að markmiði að efla lagmetisiðnaðinn með óendurkræfum styrkjum og lánum á hagkvæmum kjörum til að stuðla að tæknilegri uppbyggingu á þróun vinnsluaðferða og vörutegunda og markaðsöflun erlendis. Ráðstöfun fjár úr Þróunarsjóðnum má skipta í fimm megingreinar.
    1. Kostnaður sem Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins greiddi í upphafi vegna uppbyggingarstarfs.
    2. Styrkir til framleiðenda vegna tæknilegrar uppbyggingar, vöruþróunar og vinnsluaðferða hjá þeim og samtökum þeirra.
    3. Lán vegna sömu verkefna.
    4. Styrkir vegna markaðsöflunar erlendis.
    5. Lán til markaðsöflunarstarfa.
    Eðlilega var fyrstu árin fyrst og fremst um kostnað vegna uppbyggingarstarfs að ræða. Sá kostnaður var á árunum 1973--1977 363.677 kr. á verðlagi þess tíma --- ég mun síðar gefa hv. þm. verðtryggðar tölur um þessi málefni.
    Styrkir vegna tæknilegrar uppbyggingar hafa verið greiddir flest árin sem sjóðurinn hefur starfað. Árið 1973 námu styrkirnir 6.800 kr., árið 1974 5 þús. kr., fer síðan hækkandi og er orðið 1914 þús. kr. árið 1986 og 1140 þús. árið 1988. Heildarstyrkir frá upphafi eru 6 millj. kr. rúmlega á verðlagi hvers árs.
    Lán vegna tæknilegrar uppbyggingar voru veitt í fyrsta skipti árið 1982 og það ár voru lánaðar 472 þús. kr., síðan 1 millj. kr. árið 1983, síðan 3,6 millj. kr. árið 1987 og loks 8 millj. kr. rúmlega árið 1988. Heildarlánveitingar úr sjóðnum nema á þessum árum 19,3 millj. kr.
    Styrkir vegna markaðsöflunar hafa verið veittir öll árin frá 1974. Þá 9.583 kr., síðan nokkuð stöðugt hækkandi og árið 1986 11 millj. kr. rúmlega, árið 1987 tæplega 12 millj. kr. og árið 1988 tæplega 23 millj. kr. Heildarstyrkir nema frá upphafi 63,4 millj. kr.
    Lán vegna markaðsöflunar hefur aðeins verið veitt árið 1988 og þá 11,3 millj. kr. til Sölusamtaka lagmetis. Heildarráðstöfun Þróunarsjóðsins til styrktar lagmetisiðnaðinum er á árunum 1973 til ársloka 1988

rúmlega 100 millj. kr. á verðlagi hvers árs. Það er ekki unnt að nafngreina hér sérhvern aðila sem fengið hefur styrk úr sjóðnum á umræddu tímabili, enda mundi það skipta tugum og rétt að gæta ákveðins trúnaðar varðandi slíkar upplýsingar eins og ég hef þegar nefnt.
    Langstærsti og tíðasti styrk- og lánþeginn eru Sölusamtök lagmetis. Ef ég tek árið 1988 sem dæmi þá námu styrkir til Sölustofnunar lagmetis um 20 millj. kr. af þeim 23 millj. kr. tæplega sem veittar voru. Þessum styrk var varið til markaðsaðgerða í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu. En styrkir til vöruþróunar námu á því ári um 1 millj. kr. Lánveitingar til tæknilegrar uppbyggingar og þróunar vinnsluaðferða námu þá um 8 millj.
    Ég vil láta þess getið að ég læt nú fara fram endurskoðun á starfi Þróunarsjóðs lagmetis og gagnsemi hans. E.t.v. væri réttast að hverfa frá þessari starfsemi og hætta gjaldtöku af útflutningi vegna hans. Reyndar var það svo að þegar sjóðakerfi sjávarútvegsins var endurskoðað og að mestu aflagt árið 1986 þá var af einhverjum ástæðum Þróunarsjóður lagmetis ekki þar með. Ég tel kominn tíma til að huga að því og e.t.v. skipta sjóðnum milli aðildarfyrirtækjanna, ekki síst vegna þeirra atburða sem hv. 16. þm. Reykv. nefndi hér áðan að orðið hefðu innan þess félagsskapar.