Þróunarsjóður lagmetis
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til þess að lengja þessi orðaskipti um fyrirspurn hv. 16. þm. Reykv. Ég vil eyða áhyggjum hv. 5. þm. Vesturl. af því að hér hafi einhver leyndarmál verið í bland við svarið. Það var ekki. Spurningarnar eru einfaldlega þess eðlis að það er ókleift að svara þeim munnlega samkvæmt þeim þingsköpum sem við störfum eftir.
    Mitt stutta svar þar sem ég tæpti á nokkrum heildarstærðum fór fram úr tímanum eins og þingmenn urðu vitni að. Ég vil þess vegna fyrir mitt leyti ljúka þessum orðaskiptum með því að bjóðast til að leggja fram skriflegt svar við þessari fyrirspurn með þeim hætti sem unnt er vegna trúnaðar sem ríkja þarf um viðskipti einstakra manna og fyrirtækja, en hægt verður að gera spurningunum betri skil skriflega og ekki síst þar sem ljóst er að langoftast og langstærst eru viðskipti Þróunarsjóðsins við samtök framleiðenda, upphaflega Sölustofnun lagmetis, síðar Sölusamtök lagmetis, en reyndar er þarna margt annað sem hægt er að upplýsa betur skriflega.