Sjónvarpssendingar á fiskimiðin
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Samkvæmt svartillögu samgrn. við fyrirspurn hv. 16. þm. Reykv. kemur þetta fram:
,,1. Áætlun um dreifingu sjónvarpssendinga á fiskimiðin umhverfis landið hefur ekki verið gerð síðan 1974. Í skýrslu sem menntmrn. gaf út 29. nóv. 1974 er sýndur sá viðauki við þáverandi dreifikerfi og til hvaða svæða sjónvarpsmerkið næði. Síðan hefur dreifikerfið verið stækkað, en sá viðauki hefur þó óverulega beinst að fiskimiðunum nema þeim sem næst ströndum liggja. Því má segja að forsendur aðrar en kostnaður standist að mestu leyti. Kostnaður á verðlagi 1974 [sem ég veit að segir hv. þm. ekki mjög mikið] var áætlaður 650 millj. kr.
    2. Þar sem allt dreifikerfi sjónvarps og útvarps er í eigu Ríkisútvarpsins og það hefur verið byggt upp og rekið á þess kostnað liggur ákvörðunartaka um stækkun kerfanna ekki hjá Póst- og símamálastofnun né hjá samgrn.``
    Í framhaldi af þessari snubbóttu svartillögu óskaði ég eftir frekari upplýsingum um þetta mál í menntmrn. og þar kemur það fram í bréfi sem skrifað var til útvarpsstjóra 16. des. 1988 að kostnaður við sjónvarp til sjómanna, eins og það er orðað, er talinn vera á verðlagi þá 490 millj. kr. Í þessu bréfi til útvarpsstjóra segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Í áætlun um dreifingu sjónvarps til sjómanna er gert ráð fyrir aflmiklum sendum sem ná munu um 25--50 sjómílur út fyrir grunnlínu landhelginnar. Stofnkostnaður þessarar áætlunar er um 490 millj. kr. Upphafleg áætlun sem er frá 1974 og er óendurskoðuð var síðast send ráðuneytinu 28. apríl 1988. Af fjárhagsástæðum hefur áætlun um framkvæmdir við þetta viðamikla verkefni fram að þessu ekki verið tímasett en auk stofnkostnaðar mundi fylgja um tvöföldun á núverandi rekstrarkostnaði dreifikerfis sjónvarpsins sem er áætlaður um 34 millj. kr. á ári.``
    Við þetta er svo því að bæta, virðulegi forseti, að á þessum málum hefur sérstaklega verið tekið í menntmrn. í framhaldi af þál. sem samþykkt var á Alþingi 11. maí 1988 þar sem segir:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta nú þegar gera kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um að útsendingar Ríkisútvarpsins, þ.e. hljóðvarps og sjónvarps, náist hvar sem er á landinu og á helstu fiskimiðum við landið.
    Áætlunin miðist við það að hægt verði að framkvæma þetta verkefni fyrir árslok 1991.``
    Fyrrv. menntmrh. fól Ríkisútvarpinu að vinna að þessari áætlun með bréfi dags. 22. júlí 1988. Þegar ég kom þarna til verka og menn fóru að líta á útvarpslögin og sérstaklega þær óskir sem uppi eru um að dreifikerfið nái víðar um landið og þó einkum og sér í lagi og ekki síst til fiskimiðanna skrifaði ég Póst- og símamálastofnun og Ríkisútvarpinu bréf þann 3. febr. 1989 sem er á þessa leið:
    ,,Menntmrn. hefur ákveðið að skipa sérstakan starfshóp til þess að fjalla nánar um dreifingu og útsendingar Ríkisútvarpsins í tilefni af þingsályktun

samþykktri á Alþingi hinn 11. maí sl. sem er á þessa leið:`` og svo fylgir tillagan sem ég las áðan. Síðan segir í þessu bréfi:
    ,,Af hálfu Ríkisútvarpsins hefur slík kostnaðar- og framkvæmdaáætlun verið samin að beiðni ráðuneytisins [en það er sú áætlun sem ég var að vitna hér í áðan]. Menntmrn. telur heppilegt að áætlun um framangreint efni verði athuguð nánar í samráði við fulltrúa samgrn. og Póst- og símamálastofnunar. Er því þess hér með farið á leit við Póst- og símamálastofnun`` o.s.frv. að hún tilnefni af sinni hálfu fulltrúa til þess að taka þátt í starfi framangreinds starfshóps. Í honum verða fulltrúar frá menntmrn., Ríkisútvarpi, samgrn. og Póst- og símamálastofnun. Og það er skemmst frá því að segja að þessi hópur er um það bil að taka til starfa og það er ómögulegt að neita því að þessi fyrirspurn hv. 16. þm. Reykv. hafði áhrif á það að menn fóru að
sinna þessu verki af meiri krafti en ella hefði verið. Það eru þannig uppi áform um að sinna þessu máli með því að gera framkvæmdaáætlun til nokkurra ára um eflingu þessa kerfis. Forsenda hennar er svo aftur á móti sú að Alþingi sjái til þess við afgreiðslu fjárlaga á hverjum tíma að það verði til þess fjármunir hjá Ríkisútvarpinu að framkvæma þessi verk. Þau eru dýr því að eins og fram kom hjá mér áðan kostar það um hálfan milljarð kr. að koma á dreifikerfi fyrir sjónvarp þannig að það nái til allra fiskimiðanna í kringum landið.