Leikskólar
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Fyrirspyrjandi (Sigríður Lillý Baldursdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans þó ég hefði nú viljað hafa þau skýrari, sérstaklega hvað varðar tímasetningu þess að frv. verði lagt hér fram á þinginu. Og ég tek undir þau orð hans að það sé eitt allra brýnasta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar í dag að taka hér vel á málum. Það spurðist út sl. haust að í félmrn. væri unnið að frv. um félagslega þjónustu þar sem gert væri ráð fyrir að dagvistun barna heyrði undir félmrn. Að öðru leyti er mér sagt að það frv. boði framfarir á sviði félagsþjónustu. Að mér læðist sá grunur að deilur ráðherra um vistun dagvistarbarna komi í veg fyrir að tvö góð frumvörp verði lögð fyrir þingið. Það er auðvitað óviðunandi og við hljótum að gera þær kröfur til viðkomandi ráðherra að þessi mál verði leyst.
    Við sem erum svo heppin að hafa öruggt leikskólapláss fyrir börn okkar eða, eins og líklega flestir þingmenn, búin að koma börnum okkar á legg megum ekki gleyma því að enn býr a.m.k. helmingur forskólabarna og foreldra þeirra við slíkt óöryggi í þessum efnum að allar líkur eru á að það geti haft alvarlegar afleiðingar. Gleymum því ekki að það er hagur okkar allra að vel sé búið að börnum og að uppeldi sé almennt gott í samfélaginu. Það er ekki síður hagur barnlausra en þeirra sem börn eiga.