Skýrsla um viðræður EFTA og EB
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég hygg að það hafi verið í nóvembermánuði sem umræður hófust hér á Alþingi um skýrslu utanrrh. um viðræður Fríverslunarsamtakanna við Evrópubandalagið. Umræðu þessari er enn ólokið hér á hinu háa Alþingi. Það sýnist vera til marks um það hvernig hæstv. ríkisstjórn heldur á málum að allnokkuð er komið fram á nýtt ár og enn stendur þessi umræða og hæstv. ríkisstjórn hefur ekki enn komið því við að ljúka henni. Ýmislegt hefur gerst í þessum efnum og tíðindi af þessum vígstöðvum síðustu daga og vikur færa stoðir undir þann málflutning sem við sjálfstæðismenn höfðum í upphafi þessarar umræðu. Ég tel því afar brýnt að þessari umræðu verði fram haldið og að Alþingi ljúki henni. Það er með fádæmum að umræða um slíkt mál skuli dragast jafnlengi. Það eru að koma fram fjölmörg atriði sem knýja á um að umræðunni verði fram haldið og lokið. Ég vil þess vegna inna hæstv. forseta og hæstv. forsrh. eftir því hvort það sé eitthvað í vegi fyrir því af hálfu stjórnarliðsins að umræðunni verði fram haldið eða hvort hæstv. ríkisstjórn kinoki sér af einhverjum ástæðum við því að fram halda umræðunni og ég óska eftir svörum við því.