Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég get hvort heldur sem er komið hér í ræðustól til að gera örstutta athugasemd eða bera af mér sakir því að sakir voru á mig bornar af hæstv. ráðherra hér áðan og mun ég víkja að því. Ég hef ekki hugsað mér að tala lengi, ég hef þegar gert grein fyrir mínu máli nokkuð rækilega og skýrt að ég tel. Það eru örfá atriði sem mig langar til að nefna. ( Forseti: Ég verð að áminna hv. þm. að þau atriði mega ekki vera mörg. Örstutt athugasemd ætti ekki að taka mikið meira en eina mínútu eða svo.) Það tekur nokkrar mínútur, forseti, og ég held að það sé siður að gefa mönnum kost á að gera það sem kallað er örstutta athugasemd og það sé ekki bundið við eina mínútu. Ég bið a.m.k. hæstv. forseta að sjá í gegnum fingur sér með það því venjan er sú að skýrslubeiðendur og málshefjendur hafi rétt til þess að gera athugasemd þriðja sinnið. ( Forseti: Ég treysti hv. þm. til að stytta mál sitt svo sem mest hann getur.) Ef ég verð ekki fyrir miklum truflunum þá hygg ég að það taki mjög stuttan tíma.
    Í fyrsta lagi, virðulegur forseti, tel ég rétt að benda á að sú tímasetta áætlun um heimildir fyrir erlendar lánastofnanir til að starfa hér á landi virðist hafa verið sett fram í febrúar í fyrra. Hæstv. viðskrh. segir að hún sé til umræðu á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Hæstv. forsrh. segir að hún hafi ekki verið til umræðu þar frá því í febrúar í fyrra. Þetta er niðurstaðan í umræðunni.
    Í öðru lagi er það athygli vert varðandi fyrirvara við efnahagsáætlun Norðurlanda að hæstv. forsrh. segir að ríkisstjórnin sé sammála um þennan fyrirvara. Það er út af fyrir sig athygli verð yfirlýsing þegar skoðaðar eru yfirlýsingar hæstv. ráðherra Alþfl. fyrr í þessum málum. Maður hlýtur auðvitað að velta fyrir sér, virðulegur forseti, hvernig svona ríkisstjórn hefur traust til þess að fara með málefni sem varða undirbúning EB-málanna.
    Það vekur líka athygli, virðulegur forseti, að hæstv. fjmrh. tók ekki til máls, hann kaus ekki að ræða þennan fyrirvara né heldur að fjalla um málefni SÍS sem hann hefur gert áður úr þessum ræðustóli.
    Þá þakka ég hæstv. viðskrh. fyrir að útiloka ekki stuðning við tillögur sjálfstæðismanna. Og kem ég þá að því að bera af mér sakir, virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra sagði --- og grípur þar til gamals bragðs --- að sjónarmið mín og ræðuflutningur byggðist á misskilningi, bulli og slúðri og staðlausum stöfum. Það er ákaflega sjaldgæft að gætinn, grandvar og vel gefinn maður eins og hæstv. ráðherra er taki svona til orða. Ég vil bera af mér sakir með því að lýsa því hér yfir að hvaðeina sem ég hef sagt í þessu máli stenst fyllilega. Ég get nákvæmlega sagt hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig. Nú er staðan sú að verðið sem greitt er fyrir bankann eða þann hluta bankans sem Landsbankinn hefur keypt núna er nánast það sama og var í upphafi, þ.e. 1., sept. þegar búið er að taka tillit til þess að færa niður fasteignir, taka tillit til lífeyrisskuldbindinga, tapaðra útlána og til viðbótar

hafa komið vextir af kaupverðinu. Og ég vil undirstrika það að þetta eru vextir af kaupverðinu enda er það yfirlýst og viðurkennt af öllum aðilum sem nálægt málinu hafa komið.
    Ég get því sagt, virðulegur forseti, að þetta mál allt er, og það stendur eins og stafur á bók, skólabókardæmi um undirmál, yfirklór og klúður.