Landgræðsla
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég færi atvmn. sameinaðs þings undir forustu hv. þm. Árna Gunnarssonar þakkir fyrir afgreiðslu á þessari þáltill. sem átta alþm. flytja hér á Alþingi og þar sem allir stjórnmálaflokkar sem eiga kjörna þingmenn eru málsaðilar að með þessum hætti.
    Tillagan hefur nú verið skýrð, bæði við fyrri umr. og eins af hv. frsm. fyrir nál. atvmn., Árna Gunnarssyni, og þar af leiðandi er ekki mikil ástæða til að lengja þessa umræðu. Ég tek undir það sem hann sagði hér og lagði áherslu á, að á þeim merka degi sem fyrsta landgræðsluáætlunin var samþykkt, og meira að segja á Þingvöllum, þá gætti óhóflegrar bjartsýni um árangur af því starfi sem þar var ákveðið. Og það er rétt hjá hv. þm. að það var ekki staðið við þau fyrirheit í fjármálum sem þar var gert ráð fyrir. Mér finnst hins vegar ástæða til þess að vekja athygli á því að þær tvær landgræðsluáætlanir sem síðar hafa verið gerðar, og sú síðari endar á næsta ári, hafa í meginatriðum fengið það fjármagn sem áætlanirnar segja fyrir um. Það er hins vegar hárrétt hjá hv. þm. að þar er kannski ekki sérstaklega ríflega skammtað og raunar ekki.
    Ég vek athygli á því að þáltill. kveður í raun á um að nú verði gerð fjórða landgræðsluáætlunin sem miðist við tímamörk við næstu aldamót. Það gefur meira svigrúm og það er hægt að taka stærri ákvarðanir og það ætti að vera metnaðarmál fyrir Alþingi Íslendinga og þær ríkisstjórnir sem kunna að vera við völd og hafa áhrif næsta áratuginn að geta stutt þau mál með þeim hætti að til verulegs árangurs leiði. Ég undirstrika það sérstaklega að hér er kveðið á um að afmarka landeyðingarsvæðin og það er mikilvægt að um leið ætti að vera óþarfi að hafa uppi deilur um það hvort gróður í þessu landi er á undanhaldi eða í sókn. Hann er reyndar hvort tveggja. Hann er í mikilli sókn á sumum svæðum en annars staðar er hann á undanhaldi.
    Ég vek athygli á og undirstrika sérstaklega að við búum núna við bæði meiri þekkingu og betri tækni en áður hefur verið. Það eru núna aðstæður til þess að dreifa hátt í 5000 tonnum af áburði, þrefalda áburðardreifinguna miðað við það sem verið hefur, og fræræktarstöðin í Gunnarsholti gerir það að verkum að sáningarstarfið sem slíkt verður miklu markvissara en áður hefur verið.
    Ég fagna líka alveg sérstaklega því sem fram kom í umsögn Áburðarverksmiðju ríkisins, en eins og menn vita hafa áburðarkaup til hins hefðbundna búskapar hér í landinu dregist mjög saman á síðustu árum. Fyrir nokkrum árum var áburðarframleiðslan um 70 þús. tonn. Núna er hún hins vegar um 50 þús. tonn. Og það gefur auga leið að með betri nýtingu Áburðarverksmiðjunnar er hægt að lækka verð á tilteknu áburðarmagni sem mætti líta á sem sérstaka umframframleiðslu. Það væri auðvitað þeim mun þægilegra sem sú framleiðsla yrði meiri. Það eru óneitanlega viss tímamót sem felast í þessum fyrirheitum því að eins og menn vita er það nú að

stórum hluta orka okkar vatnsfalla sem gerir það að verkum að hér er framleiddur tilbúinn áburður og að þarna er með vissum hætti orðið eðlilegt og jákvætt samspil á milli náttúruaflanna og landgræðslunnar með því að nýta þessa orku til þess að ná hér fram góðum árangri.
    Ég endurtek svo, virðulegi forseti, þakklæti mitt til atvmn. og til formanns hennar fyrir skýra og góða afgreiðslu þessa máls.