Fjáraukalög 1988
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Hér fyrir nokkuð löngu síðan í fyrirspurnatíma á Alþingi gaf ég ítarleg, skýr og afdráttarlaus svör við þeim spurningum sem hv. þm. bar hér fram enn á ný. Ég get ekki gert að því þó að honum mislíki svarið og þótt svarið passi ekki inn í þá formúlu sem hann er búinn að fara með hér allt þetta þing og síðasta þing. Svarið er engu að síður rétt. Þau lög sem samþykkt voru af Alþingi, þinginu 1988--89, ( Gripið fram í: Geta tveir aðilar átt einn hlut?) kveða skýrt á um að ekki kemur til þátttöku ríkissjóðs í þessu dæmi fyrr en þrjú ár eru liðin frá því að lögin voru sett. Það er alveg skýr lagatexti. Frá honum er ekki hægt að hvika. Það hefur Alþingi samþykkt og eftir því er farið og verður gert, hve oft sem hv. þm. kýs að fara með sína rullu hér í ræðustól Alþingis. ( KrP: Ég geri það.) Ég get sagt þetta jafnoft og hann fer með rulluna ef hann kýs svo. En texti minn mun ekkert breytast. Lagaákvæðin voru skýr. Þau kváðu á um að þátttaka ríkissjóðs, ef til kemur, gerðist ekki fyrr en að þremur árum liðnum. Í samræmi við allar reikningsvenjur ríkisins fyrr og síðar kemur það ekki til gjaldfærslu fyrr en ef og þegar að því kemur, samkvæmt þeim lögum sem þessi greiðsluskuldbinding fer eftir.