Frestun umræðu um fjáraukalög
Fimmtudaginn 08. mars 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hæstv. fjmrh. að það er undrunarefni þing eftir þing hversu hv. þm. sýna þessum málum lítinn áhuga, þ.e. þeirri nýsköpun í meðferð fjármála að leggja fram fjáraukalög. Ekki síst nú þegar þau eru lögð fram á sama árinu og fjárlögin eru, þá skuli það endurtaka sig fund eftir fund að hér sitja aðeins örfáir þingmenn til að hlusta á eða taka þátt í umræðum um svo mikilvæg mál. Ég segi fyrir mig að ég afboðaði tvo fundi sem ég var búinn að ráðgera með okkur þingmönnum Vesturl. til að vera viðstaddur þessar umræður hér þar sem ég taldi e.t.v. ástæðu til að taka þátt í þeim.
    En ég tek undir það sem hér hefur komið fram að það er alveg útilokað annað en að afgreiða þessi mál til fjvn. í síðasta lagi á mánudag. Við í fjvn. erum búnir að skipuleggja okkar vinnulag í ýmsum málum og þetta eru þau frv. sem við viljum endilega reyna að ljúka sem fyrst. Við höfum í öðru tilfellinu, í fyrra málinu fyrir 1988, þegar lokið að miklum hluta umfjöllun um það mál. Þannig hyggjumst við reyna að flýta afgreiðslu þeirra. Og það á ekki síður við um það frv. sem hér liggur fyrir í sambandi við kjarasamningana og fleira á þskj. 677, fjáraukalög fyrir árið 1990. Ég legg áherslu á það að verði þessu máli frestað nú vegna þess að einungis örfáir hv. þm. mega vera að því að sitja hér inni á Alþingi, þá verði það ekki látið henda að þetta verði ekki fyrsta mál á næsta fundi Sþ. nk. mánudag og það afgreitt þá. Ég legg áherslu á að það verði gert því að það raskar störfum fjvn. til að skila þessu nógu fljótt inn í þingið miklu meira en menn gera sér grein fyrir ef á þessu verður meiri dráttur en þegar er orðinn.