Fjáraukalög 1990
Mánudaginn 12. mars 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegur forseti. Hér liggur fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990. Auðvitað er nauðsynlegt að sjá sem fyrst hvaða afleiðingar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í kjarasamningamálum og fleiru hafa fyrir ríkissjóð þó að vissulega hefði þetta mátt sjást fyrr á Alþingi en ekki endilega fyrr verið kynntar í fjölmiðlum þær tillögur sem ríkisstjórnin gerir í þessum málum því þessar tillögur eru búnar að vera til umræðu á opinberum vettvangi nú um hríð áður en þær koma til umfjöllunar í Alþingi. Þetta eru mjög svo óvenjulegar aðferðir, að ekki sé meira sagt.
    Í fyrirsögn þessa frv. er það sagt vera vegna kjarasamninga. En auðvitað er þar um fleira að ræða eins og hv. 2. þm. Norðurl. v. benti á áðan. Og þar er vissulega um fleira að ræða eins og stjórnarandstaðan benti á við afgreiðslu fjárlaga. Verulegur innbyggður halli var í fjárlögunum sem fer nú örugglega að birtast okkur. Það má minna á að seint á fyrra ári lágu fyrir loforð frá ríkisstjórn um að búvöruverð skyldi ekki hækka til neytenda á því ári sem nú stendur. Ég benti á við afgreiðslu fjárlaga að ef ríkisstjórnin ætlaði sér að standa við þetta loforð vantaði 400--500 millj. kr. í niðurgreiðslur til að mæta því. Það er því alls ekki réttmætt að telja þessa upphæð til kostnaðar við kjarasamningana, þetta var vísvitandi vanáætlun.
    Þetta er þó aðeins eitt af þeim atriðum sem vert er að benda á. Það má líka nefna að þrátt fyrir þann niðurskurð sem ráðherra hefur talað um að hann standi í nú og hafi staðið í áður hefur öll fjármálastjórn ríkisins á tveim síðustu árum farið úr böndum. Allt virðist stefna í að þetta ár verði ekki með öðrum hætti í þeim efnum þar sem sá innbyggði halli sem í fjárlögunum er hlýtur að koma í ljós fyrr eða seinna. Verður fróðlegt að vita hvaða nafn þeim ráðstöfunum verður gefið sem til hljóta að koma vegna þess.
    Það er erfitt að sjá forgangsröð í þessum niðurskurði eða hvort einungis gildir einbert handahóf við hann. Og maður hlýtur að spyrja hvort þessi niðurskurður fari fram á einhverjum skynsamlegum nótum. Þegar maður flettir frv. er í rauninni ekki hægt að sjá að svo sé. Ef ég fletti frv. eins og það kemur fyrir þá blasir fyrst við niðurskurður á stofnkostnaði til framhaldsskóla. Hann er kannski ekki stórvægilegur í hverju tilviki en stofnanir sem eru í fjársvelti munar um hverja krónu. Og það verður áreiðanlega erfitt fyrir þá sem eiga að stjórna málum þessara stofnana að þrengja frekar að en þegar er.
    Þegar ég kem að landbrn. verð ég að segja að þar er víða smátt talið. En það blasir þó við að þar er einn þáttur sem er skorið af hvar sem hægt er að koma við og í rauninni þó ekki sé hægt að koma því við. Það er rannsóknaþátturinn. Hæstv. landbrh. hefur ítrekað og í sífellu lagt áherslu á að rannsóknir í sambandi við landbúnaðinn séu mikilvægari öðrum þáttum þar. Einkum með tilliti til þeirra breyttu búhátta sem nú eru að verða séu rannsóknirnar það

sem mest liggi á að sinna. En það er alls staðar skorið af rannsóknum. Rannsóknastöðin á Mógilsá, af henni er tekið. Það er að vísu ekki há upphæð, en eins og ég benti á áðan þá munar hverja stofnun um sem hefur ekki nóg fé fyrir. Á síðasta þingfundi hér í sal var verið að samþykkja landgræðsluáætlun og þá blasir hér við að skorið er niður til Landgræðslunnar. Og mætti nú fara að líta á þessa þáltill. sem við vorum að samþykkja um daginn og sjá þær umsagnir sem þar eru. Þar er ekki gert ráð fyrir fjárskorti. Ef áfram er haldið sést að gengið er á gerða samninga og lögbundin framlög eins og hvað varðar jarðræktar- og búfjárframlögin sem eru skorin niður um 10 millj. Og þegar maður lítur til þess hversu farið er með rannsóknaþáttinn hlýtur maður að spyrja: Er metið hverjar afleiðingar þetta kann að hafa og þá jafnvel til langs tíma? Eru þetta allt flaustursaðgerðir eða er metið hvernig þetta kemur við viðkomandi stofnanir og viðkomandi atvinnuvegi þegar til lengri tíma er litið?
    Sjútvrn. fær niðurskurð upp á 4 millj. kr. sem varðar gæðaátak, starfsmenntun, markaðsöflun og tilraunir í sjávarútvegi. Væri ekki hægt að finna einhvern annan niðurskurðarstofn en einmitt þennan þar sem öllum ber saman um, sem nálægt þessum málum koma, að þarna vanti fé?
    Þegar maður kemur að samgrn. er Vegagerð ríkisins efst á blaði. Við samþykktum vegáætlun í fyrra þar sem var neglt niður hvað ætti að framkvæma á næstu árum og miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Þá var skorið niður við Vegagerðina af hennar lögboðnu tekjustofnum og lá fyrir yfirlýsing frá samgrh. um að það yrði ekki frekar gert. Það yrði ekki um meiri niðurskurð að ræða á tekjustofnum Vegagerðar ríkisins. En fjárlögin voru afgreidd með 750 millj. kr. niðurskurði á tekjustofnunum og enn er skorið af Vegagerð ríkisins. Og það þarf eiginlega ekki að ræða hve ósanngjarnt þetta er, bifreiðaeigendur borga gjöld sem eiga að fara beint til vegagerðarinnar og mega svo horfa á eftir þeim beint í eyðslu hjá ríkinu, til annarra hluta en þessu fé er ætlað. En það er fleira sem er um að ræða hjá samgrn. Þar er líka skorið niður af hafnarmannvirkjum. Allir vita að hafnir landsins eru fjársveltar í stórum stíl. Þetta hefur annað í för með sér. Vitað er að atvinnubrestur er á
landsbyggðinni. Samdráttur í framkvæmdum í vegamálum og hafnamálum hljóta óhjákvæmilega að koma niður á atvinnu á landsbyggðinni. Og á sama tíma og atvinna á landsbyggðinni er skert er framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs skorið niður um 200 millj. kr. Svona aðgerðir eru eiginlega alveg óþolandi því að það er fyrirsjáanlegt að fólk verður að sækja í meiri mæli í Atvinnuleysistryggingasjóð á þessu ári en hefur þekkst um árabil. Og það er ekki verjandi að skerða tekjur hans þegar vitað er að hann stóð völtum fótum fyrir.
    Ég ætla ekki að lengja mál mitt hér því fjvn. á eftir að fjalla um þetta frv. Þá hef ég fullan hug á að tekið verði á ýmsu sem að vísu er ekki talað mikið

um hér. En það er hægt að koma fram með aðrar tillögur og aðrar áherslur í útgjöldum ríkisins og tekjuöflun. Satt að segja sýnist ekki veita af því að leggja ríkisstjórninni lið við það. Það er full þörf á því að tekið sé á útgjöldum ríkissjóðs en það má gera á annan hátt. Það ætti að byrja á yfirstjórn ráðuneytanna og gæta þess að setja verkefni í forgang og minnka við yfirstjórnina en eiga fremur fé til framkvæmda í þeim þáttum sem varða atvinnu landsmanna.