Fjáraukalög 1990
Mánudaginn 12. mars 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að segja örfá orð í sambandi við þetta mál. Ég er ekki á sama máli og síðasti ræðumaður, hv. 11. þm. Reykn., að óþarfi sé að leggja frv. til fjáraukalaga fram. Það er náttúrlega skylda að gera það og er framför að því leyti til. Ég vil einnig segja það að það sem gerir það að verkum að frv. er lagt fram eru kjarasamningar sem gerðir voru, skynsamlegir kjarasamningar og öll umræða í kringum það til þess að reyna að ná þeim áfanga sem allir eru sammála um, að gera tilraun til þess að koma verðbólgu á viðráðanlegt stig og þar með að leitast við að halda stöðugu verðlagi og reyna að koma á stöðugleika. Hv. þm. ættu því ekki að tala um það í þessum dúr að þetta sé óþarfi að þessu leyti til.
    Það varð samkomulag um það meðal þingmanna ríkisstjórnarinnar að standa að þessari lækkun ríkisútgjalda eins og stefnt er að, 900--1000 millj. kr., og gera sitt til að gera það að veruleika. Hins vegar verður að taka undir það sem hér hefur komið fram að það er í alla staði óheppilegt að fyrsta vitneskja um útfærslu á þessum áformum ríkisstjórnarinnar skyldi koma fram í fjölmiðlum og skapa þannig glundroða í sambandi við meðferð málsins eins og allir hv. þm. þekkja að hefur orðið á undanförnum vikum síðan í febrúar er þetta mál var fyrst til umræðu hjá stjórnarþingmönnum og hjá þjóðinni eftir að það var komið í fjölmiðla.
    Það hefur tekið talsverðan tíma að ná samkomulagi um ýmsa þætti þessa niðurskurðar og ég ætla ekki að ræða það sérstaklega hér, en vissulega var ástæða til að reyna að hafa áhrif á það á hvern hátt það yrði gert og ég verð að lýsa því yfir að ég tel að samkomulag hafi tekist um að lagfæra ýmsa þætti þessara hugmynda. Ég nefni þar að halda samkomulag sem gert var við sveitarfélögin í landinu, um uppgjör við sveitarfélögin, og eins að lækka ekki framlög til Íþróttasjóðs sem voru nýsamþykkt í fjárlögum og fleira mætti nefna
til. Einnig er hér komin inn um 20 millj. kr. lækkun á framkvæmdaframlögum til Þjóðleikhússins sem er eðlilegt að mínu mati.
    Ég ætla ekki að ræða frv. efnislega af þeirri einföldu ástæðu að það kemur til umræðu í fjvn. og þar er hægt að koma að ýmsum athugasemdum eða fá ýmsar upplýsingar. Ég vil þó segja það að ég harma það að á síðustu stundu hefur verið lækkað, umfram það sem var orðið samkomulag um, framlag til Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni, um 2 millj. kr., sem var orðið samkomulag um að hrófla ekki við miðað við samþykkt fjárlög.
    Ég vil aðeins nefna hér það sem ég mun óska eftir upplýsingum um í fjvn. Hjá iðnrn. er gert ráð fyrir lækkun upp á 20 millj. Í þeim gögnum sem fjallað var um í þingflokkunum var gert ráð fyrir að þessi lækkun kæmi á þrjá liði í iðnrn., þ.e. Iðju og iðnað, framlög, og Orkusjóð að því er varðar sveitarafvæðingu og styrkingu dreifikerfa og

Ráðstöfunarfé ráðuneytisins. Niðurstaðan hér í frv. er hins vegar sú að þetta er einvörðungu tekið af dreifikerfi í sveitum sem er mjög viðkvæmt mál þar sem hér er um aðgerðir að ræða sem hafa verið í fjársvelti árum saman skulum við segja miðað við þörfina. Ég vek athygli á því að þessi lækkunartillaga iðnrn. orkar tvímælis miðað við það sem áður var búið að setja fram. Ég hygg að það verði a.m.k. að leita eftir svörum um það hvers vegna þessi háttur er tekinn upp miðað við það sem var búið að skýra í þingflokkunum, að allur niðurskurðurinn er settur á dreifikerfi í sveitum.
    Þá vantar upplýsingar miðað við það sem beðið var um. T.d.: Hvernig ætlar hæstv. landbrh. að láta deila niður lækkun á framlögum samkvæmt jarðræktar- og búfjárræktarlögumum 10 millj. kr., það fengust ekki upplýsingar um það. Og einnig lækkun til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins um 10 millj. kr. Engin sundurliðun hefur heldur fengist í sambandi við hafnamannvirki upp á 25 millj. kr. Ég vil aðeins leiðrétta það sem komið hefur fram í ræðum hjá nokkrum hv. þm. í sambandi við niðurskurð til vegamála. Í fjárlagafrv. voru þau skorin niður um 675 millj. og svo bætast við 75 millj. kr. samkvæmt þessum tillögum þannig að niðurskurðurinn verði í heild 750 millj. en ekki 750 plús 75 og er nóg samt.
    Ég ætla ekki að ræða þetta nánar, en ég vildi aðeins láta það koma fram að ég mun óska eftir upplýsingum um nokkra liði í sambandi við frv. eins og það liggur hér fyrir, en að öðru leyti endurtek ég það að það var skylda stjórnarþingmanna að standa að því að þetta frv. yrði lagt fram og niðurskurður yrði í ríkiskerfinu upp á allt að einum milljarði til þess að standa við þá mikilvægu kjarasamninga sem gerðir voru.