Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti hlýtur að upplýsa að til stóð að hv. 6. þm. Norðurl. e. fengi hér hálftíma til að ræða við hæstv. forsrh. um vandamál loðdýraræktarinnar. Við það verður staðið en svo stendur nú á að hæstv. forsrh. getur ekki verið hér fyrr en kl. 5 og mun þá umræðan fara fram, þ.e. ef forseta tekst að fá leyfi þingflokksformanna á fundi sem nú er að hefjast um breytingu á þingflokksfundatíma.
    Hv. 1. þm. Suðurl. hefur óskað eftir að fá að gera örstutta athugasemd. Hann hefur talað tvisvar en með tilliti til hversu mjög mál hans hefur verið slitið sundur vill forseti leita sátta og leyfa hv. þm. að gera hér athugasemd. Forseti vill ítreka orð hæstv. ráðherra að fyrir dyrum er að ræða þáltill. hv. 8. þm. Reykv. o.fl. um þessi mál og skýrsla utanrrh. er væntanleg og óskar forseti nú eftir að þessi umræða um skýrsluna nái að taka enda nú á þessum fundi.