Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég skal ekki fara mörgum orðum um ræður hæstv. ráðherra þó að þær gæfu e.t.v. tilefni til þess og ég þakka fyrir að fá að gera þessa athugasemd. Satt best að segja urðu ræður hæstv. ráðherra mér allnokkur vonbrigði. Auðvitað er það hárrétt sem hæstv. utanrrh. sagði hér að spurningin er ekki sú hvort fara á aðra hvora leiðina, sameiginlegu leið EFTA-ríkjanna í viðræðum við EB eða í tvíhliða viðræður. Það hefur alltaf verið ljóst af okkar hálfu, sjálfstæðismanna, að það ætti að fara báðar þessar leiðir. Það sem hefur hins vegar gerst í þessu máli er það að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki fallist á að fara samhliða í tvíhliða viðræður. Það stendur á hæstv. ríkisstjórn að vilja fara báðar þessar leiðir samtímis og kemur það nú vel á vondan að sú ábyrgð hlýtur að hvíla á hæstv. utanrrh. í þessu efni að hafa ekki fengið því framgengt innan hæstv. ríkisstjórnar að fara báðar þessar leiðir samtímis eins og hann telur rétt og eðlilegt.
    Hæstv. ráðherrar koma hér upp í þessum umræðum, nákvæmlega eins og í fyrri hluta umræðnanna, og eyða löngu máli í það að leggja talsmönnum Evrópubandalagsins til rök. Hvaða rök geta nú talsmenn Evrópubandalagsins haft í frammi gegn okkur þegar við bönkum upp á? Það er það eina sem þeir hafa fram að færa í umræðum um tvíhliða viðræður og ég segi: Þetta er nú ekki stórmannlegt. Er nú ekki meiri ástæða til þess að tíunda hér öll þau rök sem við höfum fram að færa til þess að knýja á um tvíhliða viðræður og sýna fram á það að íslenskar sjávarafurðir verða að fá viðurkenningu sem iðnaðarvörur annarra þjóða hafa? Er það ekki sá málflutningur sem við þurfum að hafa uppi í stað þess að vera að reyna að búa til rök fyrir talsmenn Evrópubandalagsins? Það liggur fyrir núna, eftir þá frásögn sem hér hefur verið greint frá í viðræðunum við varaformann framkvæmdanefndar Evrópubandalagsins, að hann segir: Það er eðlilegt að gera undantekningu að því er varðar Ísland, og það er eðlilegt að gera það í tvíhliða viðræðum milli Íslands og Evrópubandalagsins. Og það liggur líka fyrir í Oslóaryfirlýsingunni að EFTA-þjóðirnar telja eðlilegt að hver einstök þjóð fari fram í tvíhliða viðræðum varðandi sérstök mál. Eftir hverju er þá verið að bíða þegar aðstæður liggja fyrir með þessum hætti?
    Hæstv. utanrrh. hefur sagt að samningunum verði ekki lokið fyrr en á síðari hluta ársins 1992. Eigum við að bíða þangað til eða fram á árið 1993 eftir að fá niðurstöður sem við vitum ekki einu sinni um? Er ekki eðlilegra að fara strax af stað til þess að tryggja þessa íslensku hagsmuni? Við getum ekki beðið svona lengi.
    Og loks, frú forseti: Þau svör sem hér komu varðandi fyrirvarana leystu ekki úr neinum vanda. Það liggur fyrir enn óhaggað og þeirri óvissu var ekki eytt hér að Alþb. hefur gert, eins og þeir orða það, fulla fyrirvara varðandi allan fjárfestingarþáttinn og gjaldeyrismálin í fyrirhuguðum viðræðum. Hæstv.

utanrrh. hefur lýst hér þremur fyrirvörum um afmörkuð svið og þar er ég honum alveg hjartanlega sammála. Fyrirvarar Alþb. sem eru hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar eru miklu víðtækari og þeirri óvissu hefur ekki verið eytt í þessum umræðum. Og þeirri óvissu hefur heldur ekki verið eytt að hæstv. ríkisstjórn getur ekki tekið á málum eins og bankamálunum sem þó eru óhjákvæmilegur hluti þessarar aðlögunar. Því miður hefur þessi framhaldsumræða ekki skilað neinu nýju af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.