Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Mig minnir að ég hafi kvatt mér hljóðs í þessu máli einhvern tímann í desember. 19. des. var þá fram undan, ef ég man rétt. Það er e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn að fara að ræða þetta núna, þetta mikla mál almennt. Ég hafði þó ætlað mér það og kann betur við að láta verða af því að einhverju leyti. Langar og fróðlegar ræður hafa verið fluttar um þetta mál sem maður hefur lært ýmislegt af. Manni dylst ekki að hér er stórmál á ferðinni sem verður að skoða mjög gaumgæfilega áður en veigamiklar ákvarðanir eru teknar. En í þessu máli gildir að sjálfsögðu sú meginregla að fara að öllu með gát og flýta sér hægt en nýta tímann á hinn bóginn vel til að afla upplýsinga og safna gögnum svo að menn geti verið viðbúnir til að taka nauðsynlegar ákvarðanir þegar þar að kemur. Nú eru allar aðstæður að breytast í þessum málum, svo að segja frá degi til dags, svo ekki veitir af að fylgjast með vakandi auga með öllum þeim breytingum sem eru að verða í Evrópu og hafa að sjálfsögðu áhrif á málið. En öll samvinna ríkja á alþjóðavettvangi er af hinu góða.
    Við Íslendingar höfum aldrei farið dult með þá stefnu að við verðum að hafa víðtækt og fjölbreytt samstarf við mörg þjóðlönd, m.a. á sviði viðskipta, svo við getum komið útflutningsvörum okkar í verð og aflað gjaldeyris fyrir lífsnauðsynjum. Og sannleikurinn er sá að yfirlýsingar um utanríkismál og stefnu í utanríkismálum hafa orðið harla keimlíkar á seinni árum hvaða stjórnmálaflokkar sem sitja að völdum. Er það af hinu góða að reynt sé að móta ákveðna utanríkisstefnu sem fylgt er nokkurn veginn þó einhver blæbrigðamunur sé þar á. Að mínum dómi þarf að reyna að hefja meginstefnu í utanríkismálum upp yfir dægurþrasið sem við búum við hér heima fyrir, eins og stundum er tekið til orða.
    Þó að Íslendingar vilji og þurfi að skipta við fjölmargar þjóðir liggja þær ekki allar jafn vel við nánum samskiptum. Sérstök alúð hefur verið lögð við norrænt samstarf og samvinnu Evrópuríkja. Nú er á dagskrá að huga sérstaklega að þeim breytingum og nýjum viðhorfum sem eru á döfinni í Evrópu, þar á meðal Evrópumarkaðnum 1992. Sagt er sem svo að búa þurfi íslenskt atvinnulíf undir þær breytingar sem verði á viðskiptaháttum og efnahagsstjórn í Evrópubandalaginu á næstu árum. Sérstaklega verði unnið að því að laga íslenskt efnahagslíf að hinum nýju aðstæðum og tryggja viðskiptastöðu íslenskrar atvinnustarfsemi án aðildar að bandalaginu. Öll þessi mál eru viðamikil og fjölþætt og eiga sér langan aðdraganda eða allt frá því að Evrópa reis upp úr rústum síðustu heimsstyrjaldar. Sú Evrópa var ekki söm og áður. Bestu menn þjóðanna sáu að ekki dugði lengur að dreifa kröftunum í allar áttir, heldur varð að hyggja á nánara samstarf í einhverju formi. Þá vaknaði Evrópuhreyfingin, eða European Movement. Þessi leið var löng og seinfarin, en á Íslandi hefur verið fylgst með gangi mála, fyrst í stað úr fjarlægð en síðan með vaxandi þátttöku á mörgum sviðum. Ég

minnist þess t.d. að ég og Benedikt Gröndal, núv. sendiherra, vorum fulltrúar Alþingis á hátíðarfundi í tilefni af 20 ára afmæli Evrópuhreyfingarinnar í Haag í Hollandi í nóvember 1968. Svo kom Evrópuráðið til sögunnar. Þar kom strax upp sú spurning hvernig aðildarríkin ættu að koma á nánari samstöðu og hvaða búnað slíkt samstarf ætti að bera. Við þekkjum samstarf EFTA-ríkjanna, við höfum verið þátttakendur þar árum saman. Það hefur verið góður samstarfsvettvangur og vinsamlegur. Eigi að síður hefur stundum komið fram í þeirri samvinnu að enginn er annars bróðir í leik. Þar hugsar hver um sinn hag og úrræði í eigin þágu þegar hagsmunaárekstrar verða sem þykja skipta máli. Þetta eru eðlileg og mannleg viðbrögð sem gilda jafnt í samskiptum einstaklinga og þjóða.
    Á síðustu árum hefur sú hugsun hvað eftir annað hvarflað að mönnum að dagar EFTA-sambandsins yrðu senn taldir. Eitt eða fleiri af þeim ríkjum mundu sækja um inngöngu í Efnahagsbandalagið, svo sem Austurríki. Svo sem kunnugt er hefur aukið líf færst í Fríverslunarbandalagið á ný, a.m.k. um sinn. Evrópubandalagið hafði frumkvæði að því að bjóða EFTA-ríkjunum til viðræðna um nánari tengsl og samstarf snemma á þessu ári.
    Um Evrópubandalagið er það að segja að yfirbragð þess og viðmót hefur oft verið talið heldur kalt og stundum fráhrindandi. Sagt er t.d. að það bandalag hafi aldrei samið við nokkra þjóð um að láta eitthvað af hendi án þess að fá eitthvað í staðinn. Það eru auðvitað meðmæli að vissu marki. Bent hefur og verið á þá meginstefnu bandalagsins að krefjast aðgangs að auðlindum þjóða í skiptum fyrir aðgang að sameiginlegum markaði bandalagsríkjanna. Að þessu leyti eru foringjar Efnahagsbandalagsins harðir í horn að taka þó þeir séu kurteisir í viðmóti.
    Að því er Ísland varðar er óhagganleg samstaða um það að aðgangur að fiskimiðum okkar þeim til handa komi ekki til greina. Á hinn bóginn þurfum við eitt og annað við þá að tala svo sem glöggt hefur komið fram í ræðum manna.
    Um það mál sem hér um ræðir var fjallað m.a. í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sunnudaginn 3. des., að mig minnir. Þar sagði svo m.a., með
leyfi forseta:
    ,,Miðað við þá víðtæku samstöðu sem telja verður á milli stjórnmálaflokka og fólksins í landinu um meginatriði í þessu máli gegnir nokkurri furðu hvers konar fjaðrafok hefur orðið á Alþingi um þetta mál og þá aðallega ýmsa hliðarþætti þess. Sennilega segir það meiri sögu um ástandið í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir en málið sjálft.``
    Hvað sem um þetta má segja er eitt víst að hér er fjallað um örlagaríkt stórmál. Búast má við löngum og ströngum samingaviðræðum og ýmsum erfiðleikum áður en málið leysist svo okkur líki. Við því er raunar lítið að segja. Við höfum valið okkur þann kostinn að fylgja sjálfstæðri utanríkisstefnu, að verjast órétti en sækja rétt okkar sjálf og gæta hans. Þetta kostar baráttu og þrek. Við höfum margvíslega sérstöðu, m.a.

fámennið.
    Það kom fram hér í umræðum á þessum vetri að gott væri að hafa í huga að það EFTA-ríki sem stendur Íslandi næst að stærð er tuttugu sinnum fjölmennara. Við höfum ákveðið að taka virkan þátt í samstarfi Evrópuþjóða. Það er eðlilegt og sjálfsagt en í þeirri samvinnu sem alls staðar annars staðar dugir ekki annað en að hafa augun opin og fara varlega um leið og sótt er fram. --- Varaðu þig á vinum þínum, stendur einhvers staðar.
    Að vísu höfum við öðlast dýrmæta reynslu í samskiptum og samningagerð á alþjóðavettvangi á liðnum áratugum. Þar eigum við mörgum hæfum mönnum á að skipa sem hafa sýnt og sannað að þeir hafa í fullu tré við sendinefndir stórþjóðanna, a.m.k. þegar ekki er látið kenna liðsmunar.
    Það er ekki úr vegi að nefna enn einu sinni og minna á landhelgismálið sem vannst stig af stigi með næsta ævintýralegum hætti, mál sem var sótt af okkar hálfu bæði af kappi og forsjá. Og hafréttarsáttmálann sem Sameinuðu þjóðirnar sjálfar geta bent á með stolti. En hvers vegna gætir tregðu af hálfu þjóðanna við að fullgilda þann ágæta sáttmála heima fyrir enda þótt hann hafi hlotið samþykki fyrir sjö árum? Enn hafa aðeins um 40 ríki fullgilt hann, þar á meðal Ísland eitt Norðurlanda.
    Mér er tjáð að nágrannar okkar, frændur og vinir á Norðurlöndum, hiki við þetta m.a. vegna þess að þeir séu hræddir um að einhver ákvæði þessa margslungna sáttmála kunni að skerða einhverja grein fullveldis þeirra og frelsis, a.m.k. vilji þeir hafa nægan tíma til að ganga úr skugga um að engin hætta sé á ferðum að þessu leyti. Og satt er það að full ástæða er til þess að kanna rækilega alla efnisþætti og hvert einstakt ákvæði hinna stóru og margbrotnu fjölþjóðasamninga og sáttmála áður en skrifað er undir, því að sjálfsögðu viljum við efna alla þá samninga sem undirritaðir eru af hálfu Íslands.
    Við þekkjum dæmi þess og þeim dæmum fer fjölgandi að menn vilja ekki una íslenskum dómum, jafnvel hæstaréttardómum, heldur leita allra bragða til þess að fá niðurstöðum þeirra hnekkt á erlendri grundu. Að sjálfsögðu viljum við öll bæta íslenskt réttarfar og búa svo í haginn að íslenskir dómstólar hafi öll skilyrði til þess að kveða upp réttláta dóma og úrskurði svo með öllu móti sé komið í veg fyrir að nokkur maður sé órétti beittur. Þvert á móti sé þess gætt á allan hátt að sérhver maður nái rétti sínum. Ég tel stórvarhugavert og óæskilegt að menn temji sér að skjóta málum sínum úr landi, út fyrir íslenska landhelgi. Við eigum að halda áttum og þeirri stefnu að reka mál okkar hér heima, fyrir íslenskum dómstólum og láta okkur nægja íslenskt dómsorð sem endi allrar þrætu og lausn okkar mála.
    Hæstv. utanrrh. sagði hér áðan að sá samningur sem nú er unnið að og er í undirbúningi verði meira en þverhandarþykkur og hann eigi að öðlast lagagildi á Íslandi. Það er því ekki lítið verk að skoða þetta mál frá ýmsum hliðum og kryfja það til mergjar.
    Í Morgunblaðinu á föstudaginn var er rætt um

fræðslurit um Evrópubandalagið þar sem viðtal er við Gunnar G. Schram prófessor, sem hefur yfirskriftina ,,Verðum að taka örlagaríkar ákvarðanir á næstu missirum.``
    Þar er m.a. rætt um Evrópuþingið og Evrópudómstólinn sem setur aðildarríkjunum tólf sérstök lög. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Það sérstaka við þessi lög er að ef til árekstra kemur á milli landslaga aðildarríkjanna og EB-laganna þá eru það síðarnefndu lögin sem gilda.``
    Þessi almennu varnaðarorð vildi ég láta koma fram undir lok þeirrar umræðu sem hér hefur verið háð um hina örlagaríku EB--EFTA samninga sem eru á döfinni og svo miklu máli skipta fyrir land okkar og þjóð.