Vandi loðdýræktarinnar
Mánudaginn 12. mars 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka það að þeir sem eru í loðdýrarækt nú ætluðu sér að vera það á næsta ári. Annaðhvort farga menn dýrunum fyrir áramót eða þeir ætla að halda áfram og þá ætla þeir ekki að drepa þau þegar er komið fram í mars. Spurningin er því þessi til hæstv. ráðherra: Eigum við og þjóðin að skilja það svo að ekki verði tekið á þessum málum þannig að dýrin fái fóður? Það er búið að loka stöðvunum að mér er sagt. Sé það rétt hljóta hæstv. ráðherrar að skilja það að nú þýðir ekki að benda hver á annan eða segja: Þetta tekur sinn tíma. Það verður að gera ráðstafanir sem duga og það strax.