Vandi loðdýræktarinnar
Mánudaginn 12. mars 1990


     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki miklu við þessa umræðu að bæta en ég stíg þó hér í stólinn til að minna menn á alvöru málsins. Það getur blasað við í fyrramálið að annaðhvort verði bændurnir að sleppa kvikindunum út eða slátra þeim. Þetta er ekki hlægilegt, þetta er staðreynd. Þess vegna verða menn að taka mark á því sem hér hefur verið sagt. Alþingi markaði skynsamlega stefnu, að vísu allt of seint, hvað skuldbreytingu hjá bændum varðar. Niðurstaðan er hins vegar sú sem hér er sögð. Fóðurstöðvarnar geta verið lokaðar í fyrramálið. Ég ætla ekkert að ásaka hæstv. fjmrh. eins og flokkssystir hans gerði hér áðan fyrir það. En menn verða að setjast niður og finna í bili bráðabirgðalausn sem dugar fóðurstöðvunum til þess að framleiða fóður og hafa starfsfrið þar til sú mikla vinna sem hefur verið rekin áfram af krafti af Framleiðnisjóði, að skuldbreyta fyrir bændurna, er komin í gegn.
    Málið er kannski umhverfismál á morgun. Dýrin verða orðin villt hér í náttúrunni, sloppin út. Ég minni hæstv. nýskipaðan umhverfismálaráðherra á það og fel honum að taka þetta mál að sér í ríkisstjórninni ef aðrir duga ekki til að finna lausn á vanda fóðurstöðvanna.