Vandi loðdýræktarinnar
Mánudaginn 12. mars 1990


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Hv. þm. hafa komið hér í ræðustól og lýst því yfir að vilji Alþingis sé ljós í þessu máli og ég tek undir það líka. Ég held að við höfum samþykkt hér lög um aðgerðir í sambandi við rekstur loðdýrabúa en skilinn var eftir einn og kannski annar aðalþátturinn í sambandi við þetta mál, þ.e. fóðurstöðvarnar. Og ég tel að rétt sé að undirstrika að í meðferð Alþingis var búist við því að það yrði Byggðastofnun sem mundi leysa það mál. Það yrði leyst í gegnum Byggðastofnun, en því miður, málið hefur ekki hreyfst mikið á þeim vettvangi. Ég er ekki að segja að það hafi ekki verið skoðað. ( Gripið fram í: Það vantar peninga.) Vantar peninga, já, það vantar peninga, en málinu hefur ekki verið hreyft innan Byggðastofnunar á þann veg að það mætti búast við að þaðan kæmi einhver lausn. Málið hefur verið unnið sérstaklega vel á vegum Framleiðnisjóðs og þar hefur verið sótt eftir skýrslum, ekki með neinum skyldukröfum eða þess háttar, heldur hafa bændur sent skýrslur og upplýsingar um sína stöðu. Hjá Framnleiðnisjóði eru málin að komast á lokastig til afgreiðslu og á þann veg að ég held að flestir bændurnir uni við þá vinnu og þá afgreiðslu sem þar hefur átt sér stað, en á hinn veginn, í sambandi við fóðurstöðvarnar, eru hlutirnir því miður óleystir.
    Ég má víst ekki eyða mikið lengri tíma en ég tel að vilji Alþingis hafi verið sá að málefni fóðurstöðvanna yrðu leyst á vettvangi þessarar stofnunar. En hér hafa komið upp, hver á fætur öðrum, hv. þm. sem eru stjórnarmenn úr Byggðastofnun og sagt: Ja, málið er ekki á okkar vegum, eða nokkurn veginn það.