Vandi loðdýræktarinnar
Mánudaginn 12. mars 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Saga loðdýraræktar hér á Íslandi nú síðustu árin er mikil sorgarsaga. Þessi sorgarsaga er ekkert betri fyrir það þó að hér á Alþingi hafi verið gerðar ýmsar samþykktir. Hér á Alþingi hafa verið afgreidd lög sem átt hafa að styðja að framgangi og framtíð þessarar greinar. Þessi saga er heldur ekkert betri og síst betri fyrir það að hæstv. landbrh., sem málið heyrir auðvitað undir, hefur hvað eftir annað lýst því yfir í fjölmiðlum að mál þessarar greinar væru leyst. Nú koma hér upp, hver á fætur öðrum, stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og lýsa því sumir hverjir, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson gerir, að hann sé ekki að varpa ábyrgð á hæstv. fjmrh. og hæstv. landbrh. Hann hlýtur þá að eiga við hæstv. forsrh. (Gripið fram í.) og nefndi síðan hæstv. umhvrh. Og ef hann, þessi ágæti þingmaður, setur nú loksins allt sitt traust á hæstv. umhvrh. til þess að leysa þetta mál er málið komið í skrýtinn farveg.
    Þessi umræða af hálfu hv. stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar minnir á að hér sé þvottadagur. Þessir hv. þm. eru að þvo hendur sínar af því að hafa ekki tekist á við það verkefni að leysa mál loðdýraræktarinnar heldur láta þau fara í það horf sem þau eru nú, í hreint óefni, þeir eru að þvo hendur sínar hér í þingsölum, í ræðustól á Alþingi, og kasta málinu sín á milli og ýmist til þessa ráðherra eða hins í hvert sinn. Það er nú þetta sem fyrir liggur í málinu.