Vandi loðdýræktarinnar
Mánudaginn 12. mars 1990


     Stefán Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svara ruglinu í hv. þm. Pálma Jónssyni. Ég er ekki kominn í þennan ræðustól til þess. Ég kem hins vegar til þess að leiðrétta formann landbn. Ed., hv. þm. Skúla Alexandersson, og mótmæla kröftuglega sem stjórnarmaður í Byggðastofnun því sem hann sagði. Hann vék ómaklega að þeirri stofnun. Það eru nefnilega, hv. þm. Skúli Alexandersson og aðrir hv. þm., til allar upplýsingar um fóðurstöðvarnar inni í Byggðastofnun. Það þarf engar viðbótarskýrslur eða upplýsingar. Það eru allar upplýsingar til. Það sem vantar er fjármagn í stofnunina til þess að það sé hægt að verða við þessum óskum sem Alþingi setti fram. Það er kjarni málsins, Skúli Alexandersson, ekki einhver pólitískur loddaraleikur.