Námsgagnastofnun
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um frv. til laga um Námsgagnastofnun. Nefndin fékk til viðræðu við sig Ásgeir Guðmundsson, forstjóra Námsgagnastofnunar, og ræddi við hann um efni frv. Einnig bárust nefndinni umsagnir Bandalags kennarafélaga, Námsgagnastofnunar og Samtaka foreldra og kennara í Reykjavík. Nefndarmenn eru sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þessar breytingar eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er lagt til að fyrri mgr. 1. gr. og 1. málsl. 8. gr. verði sameinuð.
    Í öðru lagi: 2. málsl. 8. gr. falli brott þar sem málskotsleið sú sem kveðið er á um er þegar fyrir hendi, sbr. almennar reglur stjórnsýsluréttar, en þarna var um það að ræða að hægt væri að skjóta til ráðherra álitamálum í sambandi við Námsgagnastofnun.
    Í þriðja lagi er lagt til að 2. mgr. 1. gr. verði breytt þannig að Námsgagnastofnun verði heimilt að annast verkefni einnig fyrir tónlistarskóla.
    Í fjórða lagi verði 2. gr. breytt þannig að stjórn stofnunarinnar skipi áfram sjö menn og verði hún skipuð með sambærilegum hætti og núgildandi lög kveða á um. Í frv. var lagt til að stjórnarmönnum yrði fjölgað í níu en nefndin taldi það ástæðulaust og leggur sem sagt til að stjórnin verði áfram skipuð sjö mönnum og það gert með sambærilegum hætti og núgildandi lög kveða á um.
    Þá var einnig í brtt. lagt til að komi ný málsgrein er orðist svo: ,,Ef stofnuð verða landssamtök foreldrafélaga skal þeim heimilt að tilnefna einn áheyrnarfulltrúa í námsgagnastjórn með málfrelsi og tillögurétti.`` Í frv. hafði verið gert ráð fyrir því að fulltrúi foreldra kæmi inn í stjórnina en nefndin taldi að þar sem heildarsamtök foreldrafélaga væru ekki til staðar væri rétt að hafa hlutina á þann veg sem hér er lagt til.
    Halldór Blöndal var fjarverandi afgreiðslu málsins. Salome Þorkelsdóttir og Guðrún Agnarsdóttir áskildu sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kynnu að koma við málið.
    Undir nál. skrifa allir nefndarmenn að undanteknum Halldóri Blöndal og mæla með því að frv. verði samþykkt á þann veg sem ég hef hér skýrt frá.