Lögskráning sjómanna
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ekki hvarflar að mér að andmæla því að öllum öryggisreglum sé fylgt gagnvart sjómönnum. Hér er frv. sem gerir ráð fyrir því að lögskráningarstjóra sé skylt að verða við beiðni um lögskráningu á báta undir 12 rúmlestum. Það kann vel að vera að þetta muni leiða til meira öryggis. Ég er þó í vafa þar um. Og vildi gjarnan koma því hér að að ég er þeirrar skoðunar og það eru fleiri, m.a. forsvarsmenn sjómanna, að lögskráningu almennt sem er í lögum núna sé ekki framfylgt eins og lög gera ráð fyrir. Í mínum huga er það til lítils að setja lög sem ekki er nokkurn veginn fyrir séð að menn geti framfylgt eða vilji framfylgja. Það eru ótal dæmi þess að lögskráning samkvæmt gildandi lögum er meira og minna í molum. Muni ég rétt var sett í það nefnd á sínum tíma að fara í gegnum þau mál, skoða hvernig þau væru framkvæmd. Ég man ekkert hvað út úr því kom sérstaklega en ég man ekki betur en að þeir sem það skoðuðu væru sammála um að miklir meinbugir væru á framkvæmd lögskráningar á þeim skipum sem þar tilheyrði.
    Ég er þeirrar skoðunar að enn vanti talsvert upp á að núgildandi löggjöf sé fylgt og að ekki sé farið eftir með lögskráningu eins og vera ber. Sem auðvitað getur þýtt, gagnvart tilteknum einstaklingum sem þar eiga hlut að máli, ýmis vandkvæði sem því fylgja.
    Ég sagði í upphafi að ef menn telja að löggjöf af því tagi sem hér er lagt til að verði sett muni auka öryggi þeirra sem þar eiga hlut að máli þá hef ég ekki á móti slíku. En ég beini því eindregið til þeirra sem kunna að fjalla um þetta mál að menn skoði hvernig gildandi löggjöf um lögskráningu hefur reitt af. Ég efast ekki um að þar eru meinbugir á og það væri mjög til hins betra að menn reyndu að ýta þar á þannig að lögum væri fylgt, a.m.k. í þeim tilvikum sem gert er ráð fyrir í gildandi lögum. Og þá jafnframt ef menn telja til hins betra að færa þetta alveg nánast niður úr, í hvaða báta- eða trillu- eða skektustærð sem er.