Lögskráning sjómanna
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Hér í hv. deild hafa komið upp umræður um lögskráningu sjómanna með vissu millibili. Ýmis mál hafa komið til umræðu sem hafa svona ýtt við þingmönnum um að þarna væri málefni sem þyrfti umfjöllunar við og ýmislegt væri í framkvæmd laga og reglna um lögskráningu sjómanna sem þyrfti að skoða og víða væri pottur brotinn í þessum málum og útgerðir sem ekki væru með skipshafnir sínar lögskráðar. Ég vona að það sé rétt sem hv. 4. þm. Reykn. sagði hér að þessir hlutir hefðu lagast mjög á síðustu árum. Ég vænti þess og tel trúlegt að svo sé þó að enn sé nokkuð víða misbrestur á í sambandi við eftirlit á lögskráningu skipshafna.
    Ég tel þess vegna að þetta frv. hér eigi að verða til að ýta svolítið við þessu málefni einn gang enn og er þörf á því. Við sem í samgn. vinnum og fáum þetta mál til umfjöllunar ættum kannski að gera svolítið meira en að líta á frv. og ágæti þess eða galla, heldur ættum við að líta á hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig á undanförnum missirum við lögskráningu sjómanna.
    En það sem felst í aðalmálsgrein þessa frv., þ.e. að lögskráningarstjóra skuli skylt að skrá á smábátana, það held ég að sé hið ágætasta mál. Staðreyndin er sú að þessir bátar eru ekki margir hverjir lengur smábátar. Einhvern veginn hafa hlutirnir á síðustu árum snúist á þann veg að það sem nú eru kallaðir smábátar fengu a.m.k. alltaf þá nafnbót hér áður að vera pungar eða svo, þetta væri svona heldur meira en trillur. Þess vegna tel ég að sé full ástæða til við umfjöllun málsins að litið verði vel á það hvort skyldan eigi ekki jafnvel að ná neðar í sambandi við lögskráninguna en er í lögum nú.