Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 670 er álit minni hl. fjh.- og viðskn. prentað. Þar segir að nefndin hafi fjallað um frv. og leggur minni hl. hennar til að frv. verði samþykkt óbreytt. Til viðræðna við nefndina um frv. komu Snorri Olsen og Sveinbjörn Óskarsson úr fjmrn., Friðrik Sigurðsson frá Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, Kristinn Zimsen frá Búnaðarbanka Íslands, Jón Snorri Snorrason frá Landsbanka Íslands og Snorri Tómasson frá Framkvæmdasjóði Íslands.
    Þetta mál afgreiddum við frá fjh.- og viðskn. 23. febr. 1990. Undir álit minni hl. rita auk mín hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson og Ragnar Arnalds.
    Það er svo með þetta frv. sem hér er til umræðu að fæðing þess var æðiörðug og stóð yfir fyrri hluta vetrar með töluverðum hríðum. Það var tafsamt að finna frv. búning sem stjórnarflokkarnir yrðu ásáttir um en að endingu tókst það og frv. var lagt fram sem stjfrv. Ég lít svo á að þar hafi verið um að ræða samning á milli stjórnarflokkanna um að afgreiða málin með þeim hætti sem þar var lagt til.
    Ég er ekki að draga í efa að þessar brtt. sem hér eru settar fram af hv. meiri hl. væru til hagsbóta fyrir fiskeldið sem slíkt. En þær leggja enn fremur verulegar kvaðir á ríkissjóð. Ég hefði léð máls á því persónulega að gera einhverjar breytingar á þessu frv., ekki allar þessar sem hér er lagt til, en ég var tilbúinn að skoða sumar af þeim breytingahugmyndum sem hér voru settar fram ef um það hefði getað orðið samkomulag stjórnarflokkanna. Það samkomulag náðist ekki. Ég vil halda þann samning sem gerður var enda er ekki samkomulag um að breyta honum. Þetta mál hefur, því miður, vegna brtt. eða hugmynda um breytingar tafist allt of lengi. Samkvæmt mínum skilningi er mjög mikilvægt að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu og í ljósi þess legg ég til að það verði samþykkt óbreytt.