Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er til umræðu um breytta skipan eldislána hefur tekið nokkuð sérkennilega stefnu. Ekki er nema eitt ár liðið síðan samþykktar voru hér á Alþingi breytingar á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins og tilgangur þeirra breytinga var að reyna að styrkja stöðu fiskeldis á Íslandi og veita því svipuð skilyrði og öðrum framleiðslugreinum með afurða- og rekstrarlánum.
    Fjárskortur hrjáði mjög fiskeldið og takmarkaði möguleika þessarar atvinnugreinar. Því frv. var ýtt í skyndi gegnum þingið og svipað og oft gerist voru vankantar ekki sniðnir af og mörgum spurningum ósvarað. Nú ári seinna er komið annað frv. og nú skal bætt um betur með nýrri tilhögun.
    Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að rifja aðeins upp forsögu málsins. Fiskeldið er því miður glöggt dæmi um hvernig þotið er af stað fyrirhyggjulaust og hlaupið yfir nauðsynleg byrjunarskref. Aðdragandinn allt of lítill, allt of margir hlaupa til og vilja eiga þátt í nýjasta gullgrafaraævintýrinu. Þó í fiskeldi felist möguleikar bæði til aukinnar atvinnu og útflutnings gerist það ekki átakalaust eins og nú er lýðum ljóst.
    Við ætlum seint að læra af reynslunni Íslendingar, sjáumst ekki fyrir í gullgrafaraæðinu, göngumst upp í því að vera áhlaupafólk með veiðimannaeðli. Loðdýraræktin er annað dæmi um gönuhlaup og asa. Lausnarorðið fundið og allir með. Sá er þó munur á þessum tveimur ævintýrum, þó margt sé líkt með skyldum, að hið opinbera ber í raun miklu þyngri ábyrgð hvað varðar loðdýrarækt því þar voru menn óspart eggjaðir til dáða. Fiskeldismenn voru fremur úr hópi íslenskra athafnamanna sem, eins og fyrri daginn, létu hátt um sjálfstæði og einkaframtak og ætluðu ekki á ríkisspenann. En eins og oft áður þegar fyrirhyggjuna og framsýnina vantar og eldmóðurinn ríkir einn og án skynsemi fóru menn offari. Fjárfestu of mikið, undirbúning og grundvallarrannsóknir
vantaði, það var fjárfest of víða og gerð voru flest þau byrjunarmistök sem hugsast geta. Mörgu hefði verið hægt að forða ef menn hefðu flýtt sér hægar.
    Nú má ef til vill segja sem svo, og það með réttu, að þetta sé búið og gert og nú ríði á því að bjarga því sem bjargað verður. En það verður þó að minna á við öll tækifæri að stóru lausnirnar, sem eiga að bjarga öllum og öllu strax, duga ekki og hafa aldrei dugað. Í þeirri von að einhverjir læri verður að minna á mistök um leið og tekist er á við afleiðingar.
    Nú má ekki skilja það svo að við kvennalistakonur séum á móti fiskeldi eða þeim möguleikum sem það býr yfir, bæði til fjölbreyttari og meiri atvinnu og til gjaldeyrisöflunar, eins og ég minntist á fyrr, heldur eru vinnubrögðin ámælisverð og mjög andstæð okkar vinnubrögðum, sem oft eru kennd við hugleysi, það að stökkva ekki og hrökkva fremur. En stórhugurinn svokallaði, það að stökkva alltaf umhugsunarlaust, hefur oftar en ekki reynst þjóðarbúinu dýrkeyptur. Og við kvennalistakonur munum seint gefast upp við að

minna aðra á að flýta sér hægt og undirbúa vel.
    En snúum okkur aftur að björgunarstarfinu. Það gildir nefnilega sama um björgunarstarfsemi og undirbúninginn að þessari atvinnugrein, hún verður líka að vera vel ígrunduð ef hún á að bera tilætlaðan árangur. Nú þegar verið er að reyna að betrumbæta ársgamla björgunaraðgerð verður að hyggja vel að. Við skulum fyrst hafa í huga að hér er um stjfrv. að ræða og því er þetta ekki eitthvert fjáraustursgönuhlaup ábyrgðarlausra þingmanna sem vilja bara eyða án þess að afla, svo vitnað sé til yfirlýsinga hæstv. fjmrh. undanfarið. Vissulega hefur þó komið upp nokkuð sérkennileg staða í málinu. Sú að fjh.- og viðskn. klofnaði í afstöðu til frv. í meðförum nefndarinnar og nýr meiri hl. myndaðist með þátttöku stjórnarandstöðu og eins stjórnarþingmanns. Því veldur sú skoðun að þær ráðstafanir sem boðaðar voru í stjfrv. nægðu ekki að okkar mati.
    Það er alveg ljóst að gjaldþrot og skakkaföll í fiskeldi kosta þjóðarbúið mikið og því vert að kosta nokkru til að renna styrkum stoðum undir atvinnugreinina, ekki stoðum sem eru of veikbyggðar til að bera þann þunga sem þeim eru ætlaðar. Ef sú stefna er yfir höfuð tekin að styrkja þessa grein, og þá stefnu hefur ríkisstjórnin þegar tekið, verður það að gerast með þeim hætti að hún verði samkeppnisfær bæði við atvinnugreinar innan lands og á mörkuðum erlendis. Eins og málum er komið í atvinnumálum landsmanna, og allir mæna á nýja allsherjarlausn, stóriðju og ný álver, og loka augunum fyrir vanköntunum svo sem mengun, byggðaröskun, einhæfri atvinnu fyrst og fremst fyrir karlmenn þrátt fyrir stórkostlegt atvinnuleysi kvenna, mikilli erlendri skuldasöfnun, að öllum líkindum hækkuðu orkuverði til landsmanna, svo fátt eitt sé talið, hljótum við kvennalistakonur að styðja aðra viðleitni til atvinnuuppbyggingar. Atvinna fjölda fólks er í húfi og sums staðar eiga heilu byggðarlögin allt sitt undir fiskeldi og möguleikarnir eru vissulega fyrir hendi ef vel er á málum haldið.
    Því stöndum við að brtt. við stjfrv. þetta um ábyrgðadeild fiskeldislána í þeirri trú að hér sé um að ræða annaðhvort eða. Veigamestu breytingarnar eru
efalaust að hámark lána skuli verða 50% af verðmæti eldisstofns í stað 37,5%. Nú er fallið brott skilyrði fyrir sömu fyrirgreiðslu annarra lánastofnana líklega vegna þess að fiskeldi hefur ekki verið með uppáhaldsviðskiptavinum lánastofnana og því felst í frv. sú hætta að í raun minnki lánafyrirgreiðslan með tilkomu þess í stað þess að styrkjast.
    Annað veigamikið atriði brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. er að hægt er að lána fjögur ár í röð í stað þriggja. Þessi breyting ákvarðast af þeirri staðreynd að vaxtartími er lengri en þrjú ár og því ekki full hjálp í lánum sem stöðvuð eru áður en hægt er að koma afurðunum í verð. Aðrar breytingar eru smávægilegar og hefur hv. 1. þm. Reykv. þegar gert grein fyrir frv. og brtt. og ekki ástæða til að endurtaka það frekar. En vert er þó að taka fram að að öðru leyti er þannig

um hnúta búið að áhætta ríkissjóðs er, að því er virðist, lítil og fjmrh. hefur í hendi sér framkvæmd þessara laga og því er honum og hans mönnum í sjálfsvald sett hvort þeir meti aðstæður fyrirtækja rétt eða hvort teflt er of mikið í tvísýnu í lánveitingum.
    Við kvennalistakonur stöndum ekki með glöðu geði að þessum breytingum eða samþykkt frv. að þeim gerðum. Hefðum, eins og á undan var lýst, kosið aðrar vinnuaðferðir en viljum standa almennilega að björgunaraðgerðum fyrst þeirra er þörf í þeirri von að kostnaður við þær verði, úr því sem komið er, minni en ef látið er skeika að sköptu. Látum svo þetta mál verða okkur víti til varnaðar og flýtum okkur hægar næst; í stóriðjumálum, í virkjanamálum og í því að gína yfir fljótteknum gróða hvar sem hann er að finna. Látum ekki tímabundnar smáþrengingar verða til þess að við missum yfirráðarétt yfir landinu eða auðlindum þess. Íslendingar hafa áður þreyð þorrann og góuna og það við margfalt erfiðari skilyrði en nú eru.