Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 1. þm. Reykv. fyrir þá ræðu sem hann flutti áðan þegar hann mælti fyrir þeim brtt. sem hér liggja frammi við það frv. ríkisstjórnarinnar sem hér er til umræðu.
    Þar kom fram að hv. 1. þm. Reykv. hafði sett sig ítarlega inn í starfsskilyrði fiskeldis og er það vel. Það var hins vegar í meira lagi raunalegt að hlusta á ræðu hæstv. fjmrh. vegna þess misskilnings sem kom fram í hans máli á öllum grundvallaratriðum þess frv. sem hér er verið að fjalla um. Vegna þeirra orða sem hér falla sífellt um erfiðleika fiskeldis er alveg nauðsynlegt að ítreka það enn einu sinni hér á Alþingi Íslendinga, að öllum áheyrandi, að íslenska ríkið hefur ekkert fé lagt í fiskeldi. Íslenska ríkið hefur ekkert fé lagt í fiskeldi. Það er alveg nauðsynlegt að menn hafi það alveg skýrt. Íslenska ríkið hefur engar ábyrgðir tekið á sig vegna fiskeldis. Íslenska ríkið þarf ekkert að kvarta vegna fiskeldis á Íslandi, langt í frá. Hins vegar hefur íslenska ríkið búið fiskeldi verri starfsaðstöðu en nokkurri annarri grein á Íslandi. Og verri starfsaðstöðu en þekkist í fiskeldi í nokkru landi í kringum okkur. Vegna þeirra orða sem fjmrh. sérstaklega vitnaði til um þróun í hagkerfum landa í kringum okkur er alveg nauðsynlegt að benda á að einmitt innan Evrópubandalagsins, þar sem þróunin er nú kannski mest og menn tala mest um að aðlaga sig þeirri þróun sem þar fer fram, þar hafa menn stigið þessi skref í miklu ríkari mæli en hér er verið að tala um. Hér er þó í rauninni bara verið að tala um hálfvelgju miðað við það og ég skal koma betur að því á eftir af hverju menn gera það. Það er ekki verið að tala um almennar ríkisábyrgðir til að velta tapi fyrirtækja yfir á skattborgara eða íslenska ríkið. Það er mikill misskilningur. Það er verið að tala um deiluna um veð í lifandi fiski hjá fyrirtækjum sem fara í gegnum gríðarlega harða síu sem mótuð er í lögum sem fjmrh. hefur lagt hér fram. Það er nauðsynlegt að menn átti sig á því.
    Ég vil sérstaklega taka það fram vegna þeirrar aðstöðu sem íslenskt fiskeldi hefur hér á landi að það er alveg rétt að þegar menn þurftu að fjárfesta hér í matfiskeldi þá lagði íslenska ríkið á 6% sérstakan skatt á erlendar lántökur. Hvað þýddi það? Það þýddi það að fiskeldisfyrirtæki á barnsskeiði sínu sem fékk 50 millj. kr. lán til þess að fjárfesta í matfiskeldi varð að byrja að greiða um 5 millj. af því til ríkis og stofnsjóða áður en það fékk féð í hendur. Alþingi Íslendinga samþykkti um áramótin 1988/1989 að þessi skattur skyldi ekki koma á fiskeldi. Með hvaða árangri? Það tók fjmrh. átta mánuði að ganga frá því að þetta skyldi ekki innheimt hjá fiskeldisfyrirtækjunum. Það er í ágúst 1989 sem farið er að endurgreiða þann skatt sem innheimtur er nánast allt árið 1989, þrátt fyrir þessi lög frá Alþingi. Og þá er hann auðvitað endurgreiddur án vaxta og án verðbóta í okkar verðbólguþjóðfélagi.
    Atvinnutryggingarsjóður sem var stofnaður til þess

að skuldbreyta hjá útflutningsgreinum er að ljúka sínu skeiði, en hann hefur ekki skuldbreytt hjá einu einasta fiskeldisfyrirtæki enn þó umsóknir hafi legið þar fyrir frá því haustið 1988. Það standa að vísu vonir til að það verði gert. Og hvað með endurgreiðslu á söluskatti í rekstri? Jú, fiskeldið er eina greinin af þeim sem talist geta útflutningsgreinar á Íslandi sem hefur ekki fengið endurgreiddan þennan söluskatt fyrir árið 1988. Og þegar hann kemur þá kemur hann verðbótalaus og vaxtalaus. Þetta eru skilyrðin sem þessari ungu grein eru sköpuð. Og hún býr við afurðalánakerfi sem er hvorki fugl né fiskur vegna þess að lánin eru það lág miðað við allar aðrar greinar og þau eru svo dýr að ég hef fullyrt það án þess að nokkur maður hafi mótmælt því að slík kjör geti engin atvinnugrein borið nema eiturlyfjasala, yfir 30% ofan á dollar. Það er engin ástæða til fyrir íslenska ráðherra að belgja sig hér út yfir þeim vandræðum sem íslenskt fiskeldi hafi valdið. Íslenska ríkið hefur ekkert fé lagt í fiskeldi. Íslenska ríkið hefur ekki tekið á sig ábyrgðir af fiskeldi enn. Þetta er alveg nauðsynlegt að menn hafi í huga.
    Þetta frv. sem hér hefur verið lagt fram á sér nokkuð langa sögu. Í því felast mörg góð tilmæli, gegn því vil ég ekki mæla. Hitt er annað að um framlagningu þessa frv. varð nokkur ágreiningur. Það þekkir fjmrh. jafn vel og ég. Sá ágreiningur stóð að mestu milli landbrh. og fjmrh. Landbrh. lét semja frv. og fjmrh. lét semja annað frv. Landbrh., sem fagráðherra greinarinnar, þekkti þau vandamál sem við er að stríða í greininni af eigin raun. Þess vegna varð hans frv. allt öðruvísi. Hann gerði ráð fyrir því að Íslendingar reyndu að standa að þessu á svipaðan hátt og þær þjóðir sem fjmrh. vitnar nú til og eru sem óðast að endurskoða og bæta sitt hagkerfi. Þ.e. að við færum að þessu á svipaðan hátt og þær þjóðir í kringum okkur sem taldar eru hafa miklu fullkomnari hagkerfi, minni ríkisafskipti og ríkisábyrgðir en við.
    Ég ætla ekki að rekja það hér hvernig þetta frv. var, enda er ekki ástæða til þess. Hins vegar olli þessi deila á milli ráðherranna því að það dróst að leggja frv. fram, alveg úr hófi, og á meðan beið fiskeldið sem atvinnugrein og var nánast á leiðinni að verða úti, og er það nú kannski enn, svipað og þó að
ríkisstjórnin gæti í rauninni grátið yfir því sem fram fór á leiksviðinu, eins og rússneska hefðarmærin forðum á meðan ekillinn fraus í hel fyrir utan dyrnar, þá var greinin að farast.
    Það er rétt að fjmrn., að frumkvæði fjmrh., kallaði til mín, m.a., og ég átti þátt í því að fara yfir frv. sem hér liggur fyrir. Undan þeirri ábyrgð skorast ég ekki. Og ég vil í rauninni þakka fyrir það samstarf sem þar kom fram því að þrátt fyrir allt hefur fjmrh. á ýmsan hátt viljað standa vel að málefnum fiskeldis þó að honum hafi verið mislagðar hendur í sumu.
    Ég gerði þar athugasemdir við sérstaklega tvö atriði. Margt af því sem ég gerði athugasemdir við var tekið til greina. Annars vegar var þessi tími sólarlagsins sem ekki var leiðréttur þrátt fyrir mín andmæli og mínar tillögur. Hins vegar gerði ég það

mjög að umræðuefni við fjmrh. að ég hefði áhyggjur af því að ef bankarnir kipptu að sér hendinni þegar ekki væru skilyrði lengur í frv. um að þeir skyldu lána 37,5% gæti það endað þannig að greinin stæði verr eftir samþykkt frv. en áður. Ég veit að fjmrh. man eftir þessu samtali vegna þess að hann tjáði mér að hann hefði sérstaklega rætt við bankana og komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að óttast þetta en hann hafði sjálfur leitt hugann að þessu atriði við samningu frv.
    Ég varð nokkuð rólegri við þetta en ég hygg þó að það hafi verið forsrh. sem fyrstur ræddi það í mín eyru að af þessu gæti stafað veruleg hætta. Síðan skeði það að Landssamband fiskeldis- og hafbeitarstöðva kallaði landbrh. á opinn fund þar sem hann var kvaddur til að ræða þetta frv. Þar gerði landbrh. mjög að umræðuefni ótta sinn, að það gæti farið mjög illa í þessu tilefni ef bankarnir brygðust við á þennan hátt.
    Í umræðunni í fjh.- og viðskn., þegar við ræddum þetta, töldu talsmenn ríkisstjórnarinnar í nefndinni að þá yrði málið að koma aftur til Alþingis ef
svo illa færi. Við töldum hins vegar, hin, sem að meiri hlutanum stöndum, að eðlilegt væri að byrgja brunninn áður en barnið dytti ofan í og þess vegna væri nauðsynlegt að auka þessa heimild. Og ég vil sérstaklega vegna þessarar miklu ræðu hæstv. fjmrh. um hagfræði og efnahagsmál hér áðan benda á að spurningin hér er ekki um ríkisábyrgð, hún er um upphæð ríkisábyrgðar. Fjmrh. hefur lagt til að ábyrgðin sé 37,5%, þ.e. að ríkisábyrgð komi til. Hins vegar er hér um að ræða að fara í rauninni milliveg milli frv. landbrh. og fjmrh., sem á sínum tíma lágu fyrir, í 50% vegna þess að menn óttast að bankarnir brygðust við á þennan hátt og ég óttast það að atvinnugreinin lifði það ekki af að þurfa að fara enn eina ferðina fyrir Alþingi í einhverja mánuði. Þess vegna hafa menn viljað skjóta þarna þessum öryggisventli að. Og í þessu sambandi er alveg nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að hér er ekki verið að tala um það að koma á ríkisábyrgðum fyrir illa rekin fyrirtæki til þess að þau geti velt ábyrgðinni yfir á almenning í landinu. Hér stendur deilan fyrst og fremst um veð í lifandi fiski. Hér er um það að ræða að fara eitthvað í áttina að því sem öll samkeppnislönd fiskeldis í kringum okkur, hvort sem menn taka Noreg, Skotland, Írland eða hvert menn vilja fara, eitthvað í áttina að því sem þau hafa öll gert og Evrópubandalagið talar um innan sinna vébanda. Hvers vegna? Vegna þess að menn telja að fiskeldi sé framtíðargrein og ekki hafa Íslendingar efni á því að dragast sérstaklega aftur úr í þessari grein. Hér er þess vegna gengið skemmra en þau lönd hafa gert sem fjmrh. vitnaði til í sinni ræðu. Hér er gengið skemmra en þau lönd gera sem mest er vitnað til um heilbrigðara hagkerfi en Íslendingar búa við. Það er mjög mikilvægt að menn hafi þetta í huga en jafnframt það að í sjálfu frv. er sérstaklega tekið fram að hér er ekki verið að veita öllum fiskeldisfyrirtækjum ríkisábyrgð. Það er tekið fram að

það er sérstök stjórn yfir þessari deild og með leyfi forseta segir í því frv. sem væntanlega verður samþykkt:
    ,,Stjórnarnefndin fjallar um allar umsóknir um sjálfskuldarábyrgðir samkvæmt lögum þessum og afgreiðir þær á grundvelli ítarlegs mats á stöðu og rekstraröryggi viðkomandi fyrirtækis. Fyrirtæki koma því aðeins til álita um veitingu sjálfskuldarábyrgða að grundvöllur teljist vera fyrir rekstri þeirra til lengri tíma litið.``
    Þetta eru skilyrðin. Það er ekki verið að tala um að taka inn einhver vonlaus tapfyrirtæki. Þess vegna er það fráleit fullyrðing hjá fjmrh. að inn í þetta sé verið að setja skilyrðislaus ákvæði um ábyrgðir til hafbeitarfyrirtækja. Það er ekki rétt. Þau skilyrði sem hér koma fram um allar ábyrgðir eru mjög þröng. Það er alls ekki verið að tala um skilyrðislausa ábyrgðarveitingu til neinna fyrirtækja, hvorki hafbeitarfyrirtækja né annarra. Það er mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því.
    Ég þarf ekki að fara nánar í þetta með sólarlagsákvæðin sem hæstv. fjmrh. fór reyndar yfir og talaði mjög réttilega um og ég er sammála því sem hann sagði um þau. En þegar menn ræða um þennan heildarábyrgðartíma verða menn að gera sér grein fyrir að hér er verið að tala um grein sem er 3--4 ár að ala upp þann stofn sem hún ætlar að selja. Það er málið. Þess vegna er þessi tími svona langur. Og sólarlagsákvæðin koma hér sérstaklega fram.
    Um orðin ,,tryggingar`` eða ,,vátryggingar`` þarf ekki að fara mörgum orðum, en ég vil sérstaklega koma aftur inn á það sem fjmrh. gerði að umræðuefni, að falla skuli niður málsliður í 6. gr.: ,,Iðgjöld skulu við það miðuð að deildin sé rekin hallalaus.`` Eðlilega gerði fjmrh. þessa grein að umræðuefni hér. Hann taldi þetta benda til þess að flm. ætluðust til þess að þessi deild yrði rekin með halla, að ábyrgðinni og áhættunni yrði varpað yfir á ríkissjóð og almenning. Það er ekki rétt og það er ekki tilgangur flutningsmanna. Fjmrh. og sjóðsstjórn ákveða iðgjöld. Hins vegar er það svo að þeim mönnum sem fá svona klásúlu á sig þegar þeir eiga að fara að starfa hættir til að beita líkindareikningum á þann hátt að við öllum stærstu og hugsanlegum tjónum sem til gæti komið verði að búast. Þetta verður til þess að sjóðsstjórnin telur sig verða að byggja upp sérstakan sjóð. Tryggingasjóður fiskeldislána sem er ekki gamalt fyrirtæki hefur þegar lagt til 30 millj. í slíkan sjóð til að mæta tjóni og hann hefur ekki ábyrgst nema 300--400 millj. hjá fyrirtækjum sem hafa sérstaklega verið valin úr.
    Við lesum um það að ábyrgðargjaldið sem er tekið í Noregi er 1%. Hjá Tryggingasjóði fiskeldislána er það 14--15%. Vegna hvers? Vegna þess að menn eru að reyna og ætla sér að byggja upp sjóð til að mæta hugsanlegum tjónum.
    Það sem við erum að segja er það að þessi grein á barnsskónum getur ekki staðið að slíkri sjóðsuppbyggingu. Þess vegna er nauðsynlegt að þessar ákvarðanir séu ekki teknar út frá þessum

grundvelli og það er enginn smámunur á því að ætla sér að taka 14--15% ábyrgðargjald ofan á dollara fyrir þessar ábyrgðir. Ég veit ekki hvaða grein getur staðið undir því.
    Hæstv. fjmrh. gerði það mjög að umræðuefni að í fyrra frv. var ákvæði sem hann lagði mjög ríka áherslu á, þessi kollektíva ábyrgð, þ.e. að ef eitt fyrirtæki færi á hausinn þá borguðu hin. Það er inni í ákvæðunum um Tryggingasjóð fiskeldislána. Menn hafa velt því mjög mikið fyrir sér hvað það þýddi ef svo illa færi að eitt stórt fyrirtæki færi á hausinn. Jú, það þýðir auðvitað það að hinir afhenda þá bara sín fyrirtæki upp í tapið. Þetta fannst mér að fjmrh. teldi eðlilegt en það hafa margir sagt við mig: Hvernig gengi það í öðrum atvinnugreinum? Hvernig ætli það gengi í sjávarútvegi ef einn togari færi á hausinn og hinir borguðu? Ætli atvinnugreinarnar lifðu lengi með slíkum ákvæðum? Þar af leiðandi hafa allir orðið sammála um og ég hygg fjmrh. líka að fella þetta ákvæði niður.
    Ég held að ég hafi farið yfir flest atriðin. Reyndar gerði held ég enginn að umræðuefni síðustu brtt. sem snýr að ábyrgðum Framkvæmdasjóðs Íslands og er nú meira leiðréttingaratriði, en mér fannst á máli fjmrh. að hann væri á móti þeirri tillögu líka. Ég bið hann að lesa hana betur og hugleiða hvað þar er um að ræða án þess að ég fari sérstaklega út í það hér.
    Málið sem hér er til umræðu er einfaldlega það að hér er ung atvinnugrein að berjast í bökkum. Þetta er vafalaust framtíðargrein vegna þess að hún fjallar ekki bara um laxeldi heldur fiskeldi almennt. Þjóðirnar í kringum okkur hafa viðurkennt það með því að setja sérstaka löggjöf um styrki til fjárfestinga sem nema gríðarlegum upphæðum, um niðurgreiðslu á vöxtum eða vaxtalaus lán og fyrirgreiðslu í slíkum tilvikum, ríkisábyrgðir og annað slíkt. Þetta er í öllum löndunum í kringum okkur og hjá þeim þjóðum sem þróuðust hagkerfi hafa. Íslenska fiskeldið hefur ekki farið fram á að fá neina styrki. Íslenska fiskeldið hefur ekki farið fram á að fá niðurgreidd lán. Við höfum hins vegar farið fram á að fá svipuð afurðalán og aðrar útflutningsgreinar hér. Það hefur ekki gengið eftir. Því miður hefur svo illa tekist til með þau afurðalán sem greinin hefur að þau eru svo dýr að ég veit að fjmrh. gerir sér fyllilega grein fyrir því að undir því getur engin grein staðið. Það greiðir engin grein yfir 30% gjald ofan á hvern dollara til lengdar. Það er ekki hægt. Menn segja: Fiskeldið er í vanda. Það er rétt. Ég spyr: Hefði nokkur útflutningsgrein Íslendinga staðið af sér 50% lækkun á afurðum án þess að lenda í verulegum erfiðleikum? Ég held ekki. Eigi að síður skrimtir enn talsvert af fiskeldinu og er vonandi á uppleið vegna hækkandi markaðsverðs. Það er mjög athyglisvert. Og þegar menn tala um gullgrafaraævintýri Íslendinga og veiðimannahugsjón og þau fyrirtæki sem hér hafa farið á hausinn, þá er nauðsynlegt að menn hafi það líka í huga að stóru fyrirtækin sem hér hafa farið á hausinn í fiskeldi eru ekki að frumstofni byggð af Íslendingum. Þau eru að frumstofni byggð af Norðmönnum sem hafa áratuga

reynslu og komu hingað til þess að reisa þessi fyrirtæki sjálfir með trú á greininni og þeirri þróun sem orðið hafði, haldandi að þeir fengju svipuð starfsskilyrði hér og eru í löndunum í kringum okkur. Þessi fyrirtæki rúlluðu síðan sum áður en þau voru farin að selja nokkurn lax, þannig að það er ekki markaðsverðið á laxi sem hefur valdið þeirra erfiðleikum heldur starfsskilyrði og svo kannski ýmislegt í fari þeirra sjálfra sem ég ætla ekki að gera að umræðuefni hér.
    Niðurstaðan er sú að öll starfsskilyrði hér eru erfiðari en þekkist í kringum okkur. Niðurstaðan er sú að þrátt fyrir að Alþingi bæri gæfu til að samþykkja þær brtt. sem hér liggja fyrir er gengið mörgum skrefum styttra í að búa þessari nýju framtíðargrein starfsskilyrði en gert er í löndunum í kringum
okkur, því miður. Ef svo illa færi að Alþingi felldi þessar brtt. gæti því miður farið svo að þessi grein stæði verr eftir samþykkt frv. en áður.