Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 13. mars 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson)(frh.) :
    Virðulegi forseti. Þegar ég gerði hlé á ræðu minni fyrr í dag hafði ég vakið athygli á því að mér finnst gæta nokkurrar mótsagnar í þeim málflutningi stuðningsmanna þessara tillagna að annars vegar eigi að leggja allt traust sitt á það að fulltrúar fjmrh. í stjórn þessa sjóðs muni tryggja að hagsmunum almennings verði ekki fórnað en hins vegar sé brýn nauðsyn á að opna þessar gáttir, sem verið er að opna með brtt., því að fulltrúar fjmrh. eigi að hafa það hlutverk að loka þeim aftur.
    Ég held það væri miklu nær að ræða þetta mál á þeim grundvelli sem er hinn harði peningalegi grundvöllur. Hvað eru flm. þessara brtt. reiðubúnir að leggja mikinn kostnað á almenning vegna þessa máls? Eru menn tilbúnir til þess að leggja 100 millj. á ári, 200 millj. á ári, 300 millj. á ári --- hvar eru mörkin? Vegna þess að allt dulmálið um björgunaraðgerðir, eflingu fiskeldis og annað það sem hér var notað merkir í raun og veru krónur sem teknar verða af skattfé almennings í landinu til þess að leggja fram til þessa verks.
    Það er alveg rétt hjá hv. þm. að vissulega var álitamál hvort ætti að fara inn á þessa braut og það var ein af ástæðunum fyrir því að það tók mjög langan tíma að ræða um hinar ýmsu útgáfur af hugsanlegu frv. Vegna þess að menn vildu hvorki skapa fordæmi fyrir aðrar atvinnugreinar né heldur festa í sessi kerfi þar sem almenningur í landinu væri í gegnum Ríkisábyrgðasjóð og ríkissjóð látinn standa undir stórum hluta af áhættunni. Og ástæðan fyrir því að þau tölulegu mörk sem í frv. eru voru valin, 37,5%, sex ár í stað átta, og það ákvæði að iðgjöldin ættu að tryggja að ekki væri um halla að ræða og ekki væri
skilyrðislaust skylt að taka hafbeitina inn, öll þessi ákvæði miðuðu að því að setja í algjört lágmark þá hugsanlegu áhættu sem fælist í málinu fyrir almenning í landinu.
    Mér finnst stuðningsmenn þessara brtt. skulda bæði þingheimi og almenningi nánari skýringar á því hvers vegna þeir vilja ganga lengra, opna þessar gáttir meir. Vegna þess að með því eru þeir að hleypa inn í þetta kerfi fyrirtækjum og verkefnum sem tvímælalaust munu auka áhættuna og hafa í för með sér meiri útgjöld fyrir hinn almenna sjóð landsmanna á næstu árum.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson vék hér, líkt og ég gerði, að Atvinnutryggingarsjóði og Hlutafjársjóði og ég fagna því að hann skyldi gera það vegna þess, að eins og hv. þm. er kunnugt er fiskeldisfyrirtækjunum ætlað að hafa aðgang að Atvinnutryggingarsjóði eins og öðrum fyrirtækjum og þau eru ýmis þar til skoðunar. Fiskeldið situr þess vegna við sama borð og aðrar atvinnugreinar hvað það snertir. Hér er hins vegar verið að leggja til viðbót, viðbótarábyrgðir, viðbótarframlög og viðbótaráhættu fyrir hinn almenna sjóð í landinu umfram það sem felst í

Atvinnutryggingarsjóði og Hlutafjársjóði fyrir fiskeldið eitt og það eru rökin fyrir því að bæta þessu við sem þessu nemur sem skortir algerlega í málflutning hv. þm.
    Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði að hér yrði að efna til björgunaraðgerða en það skorti mikið á að hann ræddi: Hvað má björgunargjaldið vera hátt, hvað má ríkisábyrgðin vera há? Að því atriði vék hann ekki neinu í sinni ræðu.
    Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir sagði að það væri rangt að það væri um óútfyllta víxla að ræða í brtt. meiri hl. nefndarinnar. Ég vek athygli hv. þm. á því að brtt. hvað hafbeitina snertir er óútfylltur víxill nema hv. þm. ætlist til þess að fulltrúar fjmrn. hafi að engu þá skyldu sem með brtt. er lögð á sjóðina að lána til hafbeitarinnar. Það átti skilja orð þingmannsins á þann veg að ef ekki væri hér um óútfylltan víxil að ræða þá ættu stjórnendur sjóðsins ekki að fara eftir þessu lagaákvæði og ekki lána neitt til hafbeitarinnar. Vegna þess að eins og fram hefur komið í þessum umræðum þá hefur enginn maður enn sem komið er, hvorki sérfræðingar, stjórnendur fiskeldisfyrirtækja né flm. þessara brtt., upplýst hvernig eigi í framkvæmd og á tæknilegan hátt að taka hafbeitina inn í þetta kerfi. Hvernig eigi að taka upp þá skipan að fiskur sem syndir um Atlantshafið, og enginn veit hvenær eða hvort skilar sér í tiltekna fiskeldisstöð, verði tekinn sem veð. Og það er satt að segja furðulegt að knýja á um það að slík lagaskylda sé tekin upp þegar menn hafa ekki hugmynd um hvort yfir höfuð er hægt að framkvæma það.
    Ég vil aftur segja það sem ég sagði hér fyrr í dag áður en ég gerði hlé á ræðu minni. Það verður að segja hv. þm. Stefáni Valgeirssyni til hróss, og kallar hann þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum, að hér nam hann staðar og sagði: Þetta tel ég nú hæpið, þessa brtt. tel ég nú vera þannig úr garði gerða að það sé varla hægt að samþykkja hana. Og það er auðvitað athyglisvert og verður lengi í minnum haft að Sjálfstfl. skyldi leggja það hér til að ganga lengra en Stefán Valgeirsson treysti sér til þess að mæla með. Og falla þá dauð og ómerk öll stóru orðin sem hv. þm. Friðrik Sophusson, hv. þm. Halldór
Blöndal, hv. þm. Þorsteinn Pálsson og ýmsir aðrir þingmenn Sjálfstfl. hafa haft um Stefán Valgeirsson og afstöðu hans til ríkisafskipta og ríkisforsjár á undanförnum mánuðum. Því Sjálfstfl. hefur með þessari tillögu sinni sýnt að hann er reiðubúinn að ganga lengra í þessum efnum en Stefán Valgeirsson.
    Í þingflokki Sjálfstfl. starfar einn af brautryðjendum fiskeldis á Íslandi, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Það er mikill galli að hann skuli ekki sitja hér í þessari hv. deild heldur í Ed. því að það væri mjög fróðlegt að geta spurt hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson að því hvers vegna þarf að gera þessar brtt. Hvaða fyrirtæki þurfa á þessum brtt. að halda? Hvernig væri að fara yfir fiskeldið líkt og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson var að byrja á að gera hér áðan. ( Gripið fram í: Verður þetta ekki hægt þegar málið kemst til Ed.?) Jú, vissulega verður það hægt en ég er að segja

að það er mikill galli að geta ekki gert það hér áður en málið kemur til afgreiðslu, að sá hv. þm. í þingflokki Sjálfstfl. sem tvímælalaust hefur mesta þekkingu á fiskeldi skuli ekki eiga sæti hér í deildinni svo að hægt sé að spyrja hann nákvæmlega út frá rekstrarstöðu og framtíðarhorfum í fiskeldi hvers vegna hann telur að breytingar af þessu tagi þurfi að gera, hvaða fyrirtæki það eru sem beinlínis þurfa á þessu að halda og hvers vegna.
    Hér hefur verið sagt að ef þessar tillögur verði ekki samþykktar þá séu menn að dæma fiskeldið til dauða. Það verði ekki til sem atvinnugrein. Þetta finnst mér vera afar merkileg yfirlýsing af hálfu þeirra sem styðja þessa brtt. Hvaða fiskeldisfyrirtæki eru það sem ekki lifa ef þetta verður ekki samþykkt? Eru það öll fyrirtækin í fiskeldinu sem eiga framtíð sína undir því að þessar brtt. verði samþykktar? Ég dreg það stórlega í efa vegna þess að sem betur fer eru ýmis fiskeldisfyrirtæki hér í landinu sem þurfa alls ekkert á þessu að halda. Sem betur fer eru ýmis fyrirtæki í fiskeldi hér á Íslandi sem hafa verið byggð upp hægt og rólega, eiga töluvert eigið fé og hafa stigið þessi skref með þeim hætti að þau geta sinnt sinni starfsemi með eðlilegum bankaviðskiptum og án þess að grípa til ríkisábyrgðar. Þess vegna er það alrangt, sem ræðumenn hafa sagt hér, að þessar brtt. snúist um að fiskeldinu sem atvinnugrein sé bjargað eða ekki bjargað. Þessar brtt. snúast um það að flytja ákveðinn fjölda fiskeldisfyrirtækja sem eru í vafasamri rekstrarstöðu yfir á ábyrgðarherðar almennings í landinu í gegnum ríkisábyrgðir og Ríkisábyrgðasjóð. Það er um þetta sem málið snýst. Vegna þess að viðskiptabankarnir hafa ekki treyst sér til þess að veita þessar ábyrgðir.
    Menn geta sagt eins og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sagði: Viðskiptabönkunum er ekki treystandi. En eru ekki þessir sömu menn að flytja frv. á Alþingi um að breyta þessum sömu bönkum í hlutafjárbanka til þess að matið hjá þeim verði enn harðara, til þess að arðsemin verði látin ráða enn frekar hvað gert er í bankanum vegna þess að eigendur hlutafjárins vilji fá arð af bankarekstrinum í sinn hlut? ( Gripið fram í: Vill ríkið það ekki?), Jú, en ríkið hefur ekki rekið ríkisbankakerfið hér á Íslandi fyrst og fremst til þess að fá arð í sinn hlut. En hlutafjárbankar eru eðlilega reknir til þess að þeir sem leggja hlutafé í bankann fái sambærilegan arð af því hlutafé eins og þeir geta fengið annars staðar á markaðnum. ( FrS: Bera ekki ríkisbankarnir sömu ábyrgð?) Jú, þeir bera ábyrgð en ég vek athygli á þessari mótsögn sem felst í því að segja: Viðskiptabönkunum er ekki treystandi til þess að meta fiskeldisfyrirtækin með eðlilegum hætti, því að það er það sem verið er að segja með þessari brtt. Viðskiptabönkunum er ekki treystandi til þess að meta þetta með eðlilegum hætti, enda sagði hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson það alveg skýrt. ( GGÞ: Nei, nei, ég sagði það ekki.) Jú, hann sagði það alveg skýrt og hv. þm. þarf ekkert að vera að hlaupa frá því enda hefur hann hér mánuðum saman ásamt mörgum

öðrum kvartað yfir því hvernig viðskiptabankarnir hafi komið fram í þessu máli. ( GGÞ: Það er Útvegsbankamálið sem hefur áhrif.) Útvegsbankamálið sem hefur áhrif. Þetta var merkileg setning. Þetta er kannski merkilegasta setningin í þessum umræðum. Útvegsbankamálið hefur áhrif, segir hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson. Hvers vegna? Hvað á hann við með því? Hann á við með því að bankastjórar Útvegsbankans voru látnir víkja og Útvegsbankinn varð að fá um 3 milljarða úr ríkissjóði vegna þess að bankinn hafði tekið of mikla áhættu. Og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson er að segja: Áhættan í þessu máli er svo mikil að hún er álíka og áhættan í Útvegsbankamálinu varð til þess að bankastjórar voru látnir víkja og ríkissjóður þurfti að leggja 3 miljarða inn í bankann. (Gripið fram í.) Jú, það er akkúrat þetta sem hann á við þegar hann grípur hér fram í og áttar sig núna greinilega á því að hann hefur talað af sér. ( GGÞ: Ég skal skýra þetta á eftir.) Já, það er gott að þingmaðurinn skýri það. Vegna þess að það að vísa til Útvegsbankamálsins þegar verið er að tala um hvað bankarnir treysti sér til að gera og hvað ekki í lánveitingum, er að draga upp þá mynd að bankastjórarnir séu að taka of mikla áhættu og bankinn of mikla hættu ef hann láni á þann hátt. Og það vita auðvitað allir sem hafa rætt við bankastjóra viðskiptabankanna um lánveitingar til fiskeldisfyrirtækjanna að þeir og sérfræðingar þeirra hafa talið að áhættan væri orðin allt of mikil hjá mörgum þessara fyrirtækja. Hér er þess vegna verið að leggja það til að af því að viðskiptabankarnir treysti sér ekki til þess að lána það sem á vantar, 37,5%, þá skuli ríkið koma þarna inn í enn meir. Ef þeir sem eru ábyrgðarmenn ríkissjóðs í þessu og flm. brtt. leggja allt sitt traust á, eins og þeir hafa mælt hér, beita sams konar mati og
viðskiptabankarnir út frá röksemdafærslu flm. þessara brtt., þá auðvitað ábyrgjast þeir ekki meira en 37,5%. En það er verið að leggja þá kvöð á og gefa til kynna að það eigi að fara fram yfir það sem bankarnir telja eðlilegt og taka meiri áhættu inn á ríkissjóð í þessum efnum en viðskiptabankarnir telja eðlilega. Það er það sem ég á við þegar ég lagði á það áherslu hér áðan að með þessari tillögu er verið að halda inn á þá braut að ætla ríkissjóði að gegna hlutverki viðskiptabanka og það er auðvitað ekki nýtt. Ég hef hvað eftir annað heyrt þau sjónarmið síðan ég varð fjmrh. hjá ýmsum sem vilja láta ríkissjóð, sem er bara annað nafn fyrir skattpeninga almennings í landinu, gegna hlutverki banka og taka á sig tapið og hafa beitt alls konar pólitískum þrýstingi til þess að ofan á verði sjónarmið sem samrýmast ekki eðlilegum viðskiptalegum og efnahagslegum sjónarmiðum. ( FrS: Er ráðherrann að tala um Þormóð ramma?) Nei, ráðherrann er ekki að tala um Þormóð ramma í þeim efnum, þó að ég sé alveg reiðubúinn að tala um Þormóð ramma út frá því sjónarmiði sem hv. þm. vék hér að vegna þess að það vill nú svo til að á bak við eignarhlut ríkisins í Þormóði ramma stendur allmyndarlegur veiðiréttur sem í núgildandi

fiskveiðiskipan veitir auðvitað því fyrirtæki verðmæti sem eru langt umfram það sem ríkissjóður hefur í það lagt. Þannig að út frá söluverðmæti þess sem Þormóður rammi stendur fyrir er alveg hægt að réttlæta með eðlilegum hætti fjármuni ríkissjóðs í það fyrirtæki og ætla ég þó ekki að vitna til byggðaröksemdanna í þeim efnum. Hér er hins vegar ekki verið að tala um byggðaröksemdir gagnvart þessum fiskeldisfyrirtækjum. Hér er ekki verið að tala um atvinnuhagsmuni gagnvart þessum fiskeldisfyrirtækjum. ( Gripið fram í: O, jú.) Nei, það er ekki verið að tala um það vegna þess að það er hvergi að finna í þeim brtt. sem meiri hl. hefur flutt hér að vísað sé til þeirra sjónarmiða. Það er eingöngu verið að leggja málið fyrir á fjárhagslegum grundvelli og verið að leggja til að fjárhagsleg ábyrgð ríkissjóðs og almennra skattborgara sé aukin.
    Það vill nú svo til að stór hluti fiskeldisfyrirtækjanna er á því svæði á landinu þar sem mikill hluti annarra atvinnutækifæra er fyrir hendi. (Gripið fram í.) Nei, ég sagði mikill fjöldi. Og ef hv. þm. er fyrst og fremst að hugsa um það hefði verið nær að setja þann efnisþátt inn í brtt. en það er ekki gert. Hins vegar eru lögin um Atvinnutryggingarsjóð og Hlutafjársjóð þess eðlis að þar er verið að taka fyrst og fremst tillit til byggðahagsmuna og atvinnuhagsmuna.
    Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson vék nokkuð að undirbúningi þessa máls. Ég kaus að gera það ekki að umræðuefni hér. Ég verð þó að segja um þann þátt málsins að samvinna í ríkisstjórnum byggist ekki bara á stefnulegri afstöðu. Hún byggist líka á ákveðnum drengskap og ákveðnum samskiptaháttum. Hún byggist á því að fulltrúar ólíkra flokka komi sér saman um hvernig stjfrv. eru lögð fyrir Alþingi. Frumvörpin eru svo kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna og eftir að þingflokkarnir hafa samþykkt að leggja frumvörpin fram liggur fyrir stuðningur viðkomandi þingflokka og allra þingmanna við þau. Það er eitt af óskráðum lögmálum stjórnarsamstarfs í samsteypustjórnum að einstakir þingmenn fara ekki að mynda meiri hluta með öðrum um grundvallaratriði í stjfrv. án þess a.m.k. að ítarlegar viðræður fari fram milli stjórnarflokkanna um það efni og sé því hafnað af samstarfsflokkunum þá er slíku ekki fylgt eftir.
    Það sem gerðist í þessu máli var að eftir mjög langan fæðingartíma, eftir að málin höfðu ítarlega verið rædd milli flokkanna og margvíslegar útgáfur skoðaðar, og eftir að þetta frv. hafði verið til ítarlegrar meðferðar í öllum þingflokkum stjórnarflokkanna var það samþykkt af þingflokkum allra stjórnarflokkanna. Og enginn stjórnarflokkanna tilkynnti að einstakir þingmenn áskildu sér rétt til þess að breyta frv. eða stuðningur þingflokksins væri háður þeim fyrirvara að einstakir þingmenn vildu breyta frv. Þetta frv. var samþykkt án allra slíkra skilyrða af öllum þingflokkum þessarar ríkisstjórnar. Og það eru auðvitað fullkomlega óeðlileg vinnubrögð og brot á öllum samskiptaháttum milli stjórnarflokka í ríkisstjórnum og því bræðralagi þingmanna

stjórnarflokka sem myndar þingmeirihluta á Alþingi að einstakir þingmenn, eftir að flokkur þeirra hefur samþykkt að leggja frv. fram og án þess að flokkurinn hafi haft nokkurn fyrirvara á efnisatriðum málsins, taki síðan höndum saman við stjórnarandstöðuna til að breyta frv. Því það er auðvitað alveg ljóst að ef þau vinnubrögð væru höfð uppi af öllum þingmönnum og öllum flokkum væri enginn stjórnarmeirihluti á Alþingi. Þá mundu stjórnarstörfin á Alþingi leysast upp í ein allsherjar átök allra þingmanna og allra flokka. Ég tel þess vegna að þau vinnubrögð sem hafa verið höfð í þessum efnum séu algert brot á þeim samskiptalögmálum sem hafa tíðkast um áratugi milli þingflokka og þingmanna sem standa stjórnarmeirihluta.
    Það var fyrst og fremst eitt atriði sem mér var tjáð að menn hefðu athugasemdir við að gera í þingflokki Framsfl. Það var það atriði að í þeirri matsnefnd sem fjmrh. mundi skipa sætu eingöngu menn valdir af fjmrh. en ekki einhver sem valinn væri samkvæmt tilnefningu eða ábendingu þess ráðherra sem fer með málefni fiskeldisins, þ.e. landbrh. En ég vek athygli á því að það er
ekki verið að leggja til brtt. á þessu atriði sem var eina atriði sem sagt var að menn innan þingflokks Framsfl. vildu breyta þegar skýrt var frá því hvaða afstöðu flokkurinn hefði tekið. Það er ekki verið að gera tilraun til að breyta því. Það er engin tillaga um það atriði sem þó vissulega mætti skoða og eru full efnisrök fyrir að fjalla um. En það er tekið á fjölmörgum öðrum atriðum sem aldrei var minnst á einu orði af hálfu fulltrúa þingflokks Framsfl. þegar þeir greindu frá því að Framsfl. samþykkti eins og aðrir stjórnarflokkar að leggja frv. fram.
    Ég kaus ekki að gera þennan þátt málsins að umræðuefni hér og hafði ekki ætlað mér að gera það en fyrst hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson fór að ræða um aðdraganda frv. og vinnubrögðin í þeim efnum og fór að blanda inn í þetta mál og gefa til kynna hér hugsanlegan ágreining milli mín og landbrh. í málinu og vék að því mörgum orðum og fór að gera það að einhverjum skýringarþætti í þessu máli, þá var alveg óhjákvæmilegt að ég tæki þennan þátt hér fyrir. Það var enginn efniságreiningur milli mín og landbrh. um þau atriði sem verið er að leggja til að hér verði breytt. Það sem fyrst og fremst sneri að umræðu milli mín og landbrh. og fjmrn. sem stofnunar og landbrn. sem stofnunar var hvort ætti að skapa það fordæmi að við mat á ríkisábyrgðum kæmu einnig inn fulltrúar einstakra atvinnuráðuneyta en það væru ekki eingöngu fulltrúar fjmrn. Það var spurning um almenna reglu en ekki sérstök töluleg ákvæði í ábyrgðarhlutfallinu eða öðrum þáttum málsins.
    Ég ætla hins vegar ekki að gera það að stóru máli hér að eftir að búið var að tilkynna mér formlega að Framsfl. stæði að frv. og eftir að búið var að tilkynna mér að það væri bara eitt atriði, þetta sem ég hef hér vikið að, hvort landbrn. ætti fulltrúa í þessari þriggja manna nefnd, sem menn vildu láta skoða nánar innan Framsfl., þá gerist það hér á Alþingi að þingmaður

Framsfl. gerir bandalag við stjórnarandstöðuna um að breyta stjfrv. og sækir það mál af mikilli hörku og reynir af miklum krafti að mynda meiri hluta í deildum þingsins til að breyta frv. í grundvallaratriðum gegn vilja viðkomandi ráðherra. Og það er auðvitað ábyrgðarhluti að það skuli vera forustuflokkur ríkisstjórnarinnar sem gerir það. Það er auðvitað fordæmi sem getur haft áhrif í öðrum málum ef aðrir þingmenn fara að breyta eins og þingmaður Framsfl. í þessum efnum. ( FrS: Í hvaða málum?) Það ætla ég ekkert um að segja en hv. þm. Friðrik Sophusson veit fullvel að samsteypa margra flokka á Íslandi getur ekki orðið siðaðra manna samfélag, getur ekki orðið heiðarleg samvinna nema menn viti nákvæmlega hvar þeir hafa hver annan og menn skýri satt og rétt frá hvernig í málunum liggur.
    Ég hefði ekki gert neina athugasemd við það ef fram hefði komið að einstakir þingmenn Framsfl. hefðu lýst því yfir fyrir fram að þeir væru á móti þessum tilteknu ákvæðum í frv. og ætluðu sér að reyna að mynda meiri hluta með stjórnarandstöðunni til að fá því breytt. En það var ekki sagt frá því fyrir fram. Þvert á móti var sagt að þingflokkurinn stæði allur að þessum ákvæðum. Og í áratugi hefur samstarf siðaðra manna á Alþingi byggst á því að menn geti treyst orðum hvers annars. Menn segi hug sinn allan og fari ekki á bak við félaga sína. Í þessu máli er myndaður meiri hluti á móti grundvallarþáttum í þessu stjfrv. án þess að fulltrúar viðkomandi flokks eða viðkomandi þingmenn hafi fyrir fram lýst því yfir að þeir ætluðu sér að gera slíkt. Því að það er auðvitað alveg ljóst að ef ég hefði vitað að einstakir þingmenn í þessum ágæta flokki sæktust svo stíft eftir svo mikilli ríkisábyrgð í þessu máli sem raun ber vitni í þessum brtt., þá hefði ég ekki treyst mér til þess að flytja þetta frv. Og það hvarflar svona að manni hvort með ráðnum huga hafi verið beitt þeim aðferðum að til þess að fá frv. fram hafi menn lýst því yfir að menn væru reiðubúnir að styðja það með þessum hætti en fara svo að vinna að því af fullum krafti með stjórnarandstöðunni að mynda
meiri hluta um breytingar. Og það gengur auðvitað ekki í samstarfi margra flokka um ríkisstjórn að þannig sé unnið. Mér þykir leitt að þurfa að segja þetta hér. Ég hafði ekki ætlað mér að gera það og minntist ekki einu orði á þessi vinnubrögð í fyrri ræðu minni hér í dag en fyrst hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson kaus að ræða aðdraganda málsins þá hlýt ég að segja minn hug í þeim efnum.
    Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sagði líka: Íslenska ríkið ber enga ábyrgð gagnvart fiskeldinu. Íslenska ríkið hefur ekki gengið í neina ábyrgð gagnvart fiskeldinu. Þetta er rangt. Ég er satt að segja alveg hissa á því að hv. þm. skuli flytja þetta úr ræðustóli Alþingis. Er hv. þm. ekki kunnugt um þær stórfelldu lánveitingar sem Framkvæmdasjóður og Byggðasjóður hafa veitt fiskeldisfyrirtækjum? Og er hv. þm. ekki kunnugt um að þetta eru hvort tveggja ríkissjóðir, hvort tveggja sjóðir sem ríkið ber ábyrgð á og þar sem tapið, sem verður af þeim fyrirtækjum

sem er lánað fé, lendir á ríkinu með einum eða öðrum hætti. Það er þess vegna alveg ljóst að vegna þess að það var talið nauðsynlegt að efla fiskeldið þá hafa þessir tveir opinberu sjóðir, Framkvæmdasjóður og Byggðasjóður, veitt fé í stórum stíl til fiskeldisfyrirtækja. (Gripið fram í.) Já, lánað í stórum stíl til
fiskeldisfyrirtækja, jafnvel í svo stórum stíl að það er á ystu nöf hvort það hafi verið eðlilegt að lána svo mikið til fiskeldisfyrirtækjanna úr þessum opinberu sjóðum. Og vegna þeirra ríkisábyrgða sem á þessum sjóðum hvíla er auðvitað alveg ljóst að íslenska ríkið hefur gegnum lánveitingar þessara sjóða gengist í ábyrgð fyrir fiskeldinu með ýmsum hætti. Þannig að ég skil nú satt að segja ekki hvernig hægt er að koma hér upp og gefa það til kynna eins og hv. þm. sagði orðrétt: Íslenska ríkið hefur ekki tekið á sig neinar ábyrgðir á fiskeldinu.
    Ég vil svo minna hann á það einnig að í frv. og lögunum um Tryggingasjóð fiskeldis fólst kollektív ábyrgð ríkissjóðs á fiskeldinu í heild sinni ef öll fiskeldisfyrirtæki mundu hrynja sem inni í þeim sjóði væru, þannig að það væri alveg ljóst að ef það dæmi gengi ekki upp gagnvart fiskeldinu sem atvinnugrein mundi ríkissjóður þurfa að standa undir því. Það var stóra framlagið sem ríkissjóður lagði inn í þann þátt málsins að taka að sér að bera ábyrgð gagnvart fiskeldinu í heild sem atvinnugrein þó að hann gerði það ekki gagnvart einstökum fyrirtækjum. Og ég skil satt að segja ekki hvaða tilgangi það þjónar að vera að draga upp hér á Alþingi og gagnvart almenningi í landinu þá mynd að ríkið hafi með engum hætti komið að þessari þróun fiskeldisins.
    Hv. þm. sagði einnig að atvinnugreinin mundi ekki lifa það af ef þessar brtt. yrðu ekki samþykktar. Það sagði hv. þm. hér, ég tók það orðrétt niður eftir honum. En ég skil vel að hann hristi höfuðið yfir því nú þegar ég endurtek það hér úr ræðustólnum vegna þess að það er auðvitað alrangt að svo sé. Eins og ég sagði áðan, sem betur fer, er nokkur fjöldi fiskeldisfyrirtækja í landinu sem alls ekki mun sækja um til þessa sjóðs og mörg önnur sem fyllilega geta látið sér nægja þau ákvæði sem í frv. eru.
    Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson skýrði ástæðurnar fyrir því að setningin um iðgjöldin er felld niður í brtt. á þá leið að ef sú setning væri inni mundu þeir menn sem fjmrh. veldi til þess að stýra sjóðnum leggja á svo há iðgjöld. Með öðrum orðum, þeir sömu menn sem hvað eftir annað er sagt hér að eigi að treysta, séu varnaglar í málinu sem gerir það að verkum að það sé allt í lagi að samþykkja brtt. vegna þess að þeir hafi lagalega skyldu samkvæmt frv. að sinna því verki, þeir eru nú allt í einu, varðandi þetta atriði, orðnir meginrökin fyrir því að ekki megi vera nein ákvæði um iðgjöldin í sjálfu frv. vegna þess að þá muni þeir hafa þau svo há. Ég vona að það þurfi ekki að fara fleiri orðum um þær mótsagnir sem í þessu felast. Þess vegna á að taka út úr frv. þá lagalegu skyldu að taka tillit til afkomu sjóðsins við ákvörðun á iðgjöldunum.

    Hv. þm. rökstuddi þetta svo með því að taka dæmi af sjávarútvegi og segja að núverandi skipan væri með þeim hætti að ef eitt stórt fiskeldisfyrirtæki færi á hausinn mundi það lenda á öllum hinum og það yrði að koma í veg fyrir það. En það er ekki svona kerfi í sjávarútvegi eins og hér er verið að leggja til. Það eru ekki svona afurðalán í sjávarútvegi. Það eru ekki svona ríkisábyrgðir í sjávarútvegi og þess vegna er ekki hægt að taka þessa samlíkingu vegna þess að sem betur fer er sjávarútvegurinn á Íslandi arðbær og hefur mikinn þrótt, án þess að búa við það kerfi ríkisábyrgða og afurðalána sem hér er verið að leggja til. ( Forseti: Forseti vill nú geta þess að í samkomulagi um fundahald í þessari viku var ráð fyrir því gert að þessum fundi lyki kl. 6.30. Ef því verður ekki mótmælt af hv. þingdeildarmönnum mun forseti halda áfram þessari umræðu til kl. 7. Ef hv. þingdeildarmenn treysta sér hins vegar ekki til að ljúka umræðunni kl. 7 verður henni haldið áfram á morgun kl. 2 og þar með mun atkvæðagreiðslan dragast á langinn sem þegar hefur verið boðuð á þeim tíma.) Ég fer nú að ljúka máli mínu og á ekki mikið eftir. Hins vegar hef ég talið nauðsynlegt að svara frammíköllum einstakra þingmanna og höfuðhristingi þeirra hér úti í sal þegar þeir eru að mæla við ræðumann með því að hrista höfuðið þó ég ætti ekki að nota í því sambandi það ágæta svar sem þáv. þm. á Vestfjörðum notaði eitt sinn þegar Vilmundur heitinn Gylfason stóð hér í dyrum og hristi höfuðið og þáv. Vestfjarðaþingmaður sagði að nú heyrði hún að hv. þm. Vilmundur Gylfason hristi höfuðið.
    Staðreyndin er sú eins og ég sagði áðan að í fiskeldismálum á Íslandi er ekkert allt svart. Ég veit ekki hvort hv. nefnd sem um þetta frv. hefur fjallað hefur reynt að afla sér upplýsinga um hvað það eru mörg fiskeldisfyrirtæki sem eru í góðum og eðlilegum vexti. Ég held að það hefði verið mjög fróðlegt fyrir hv. nefnd að afla sér upplýsinga um það í stað þess að búa til einhverja einfalda blekkingarmynd sem byggist á því að annars vegar sé allt svart í fiskeldinu og hins vegar muni það bjargast sem þarf að bjargast ef þetta frv. verður samþykkt. Ég er nokkurn veginn viss um að þó að ekkert væri gert hér á Alþingi væri nokkuð mikill fjöldi fiskeldisfyrirtækja sem mundi starfa blómlega á þessu ári og næstu árum hér á Íslandi. Sem betur fer hafa skynsamir stjórnendur og eigendur þessara fyrirtækja hagað málum sínum með þeim hætti að þeir þurfa ekki á ríkisaðstoð að halda. Það er ekki fyrir þá sem verið er að samþykkja þetta frv. Hins vegar sannfærðust menn um að það gæti verið réttlætanlegt að taka upp tímabundið mjög takmarkað kerfi
ríkisábyrgða í fiskeldi eftir mjög ströngum kröfum til þess að auka möguleika þeirra sem vænleg væru til þess að standa af sér þá erfiðleika sem orðið hafa á undanförnum árum. Í þeim efnum var gerður mikill fyrirvari á um það að taka hafbeitarstöðvarnar inn í. Í ákveðnum drögum þessa frv. var hafbeitin ekki inni vegna þess að menn gerðu sér grein fyrir því að það var nánast alger mótsögn við eðlileg rekstrarleg

sjónarmið og eðlileg veðsjónarmið að hafa hafbeitina með. En það var þó gert vegna ábendinga ýmissa manna að hafa frv. þannig úr garði að það væri möguleiki, ef menn fyndu raunhæfan grundvöll, til þess að taka hafbeitina með.
    Ég vil í þessu sambandi vekja athygli þingheims á því að tryggingafélögin hafa enn þá ekki treyst sér til þess að tryggja fisk í sjó. Nú er hins vegar lagt til hér á Alþingi að það skuli vera skyldukvöð á þessari ábyrgðadeild að tryggja fisk í sjó og taka í honum veð. Og ég spyr hv. þm. sem ætla að samþykkja þetta: Hvað ætla þeir að segja við forsvarsmenn sjávarútvegsins þegar þeir benda á þetta fordæmi og vilja fá sams konar fyrirgreiðslu fyrir sjávarútveginn? Ég er ekki viss um að flm. þessarar brtt. hafi íhugað nægilega vandlega inn á hvaða braut þeir eru að fara með því að gera það að lagalegri skyldu að taka hafbeitarkerfið hér inn. Ég vil ítreka fsp. mína til flm. hvort þeir hafa fundið einhverja lausn á því með hvaða hætti eigi að skipa þeim málum, veðmálum og tryggingamálum þegar hafbeitin væri komin inn í þetta kerfi.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. felur tvímælalaust í sér, verði það samþykkt í þeirri mynd sem meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til, verulegan útgjaldaauka fyrir ríkissjóð á næstu árum. ( ÓÞÞ: Það þarf ekki að vera.) Það þarf ekki að vera, segir hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. ( ÓÞÞ: Og mun auka þjóðarauðinn að auki.) Og mun auka þjóðarauðinn að auki, það er rétt. Það hafa líka ýmsir sagt á undanförnum árum þegar menn veittu fé úr ríkissjóði að það þyrfti ekki að vera að það fé mundi tapast. Það mundi auka þjóðarauðinn og væri til að bjarga atvinnulífinu og byggðarlögunum og ýmsu öðru. En hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur haldið því fram hér á Alþingi að það væri brot á stjórnarskránni að veita ríkinu heimild til þess að greiða úr ríkissjóði kvaðir án þess að upphæðirnar væru ákveðnar og mörk sett á þær. Í þessum brtt. eru engin mörk sett á það hvað á að greiða mikið úr ríkissjóði. Þetta er þess vegna eina tillagan sem hér hefur komið á Alþingi um nokkur ár þar sem lagt er til að slík ótakmörkuð greiðslukvöð verði sett á ríkissjóð án þess að flm. hafi lagt fram neitt kostnaðarmat, án þess að þeir geri grein fyrir því hvernig á að afla þess fjár. Á kannski að leggja á nýja viðbótarskatta til þess að standa undir því eða á að skera niður önnur ríkisútgjöld? Það rekst algerlega á öll þau grundvallarviðhorf í ríkisfjármálum sem menn töluðu um hér í síðustu viku að væri nauðsynlegt að koma á. Ég vona þess vegna að þeir þingmenn, sem hafa lýst sig vera mikla stuðningsmenn endurbóta í ríkisfjármálum og t.d. þess frv. sem fjvn. hefur flutt hér og við ræddum, íhugi nú vandlega það, sem jafnvel Stefán Valgeirsson sá hér í dag að kynni að vera hæpið að opna á, að hafbeitin væri tekin inn í þetta kerfi með þeim hætti sem hér er lagt til. ( FrS: Af hverju segir ráðherra jafnvel Stefán Valgeirsson?) Ég sagði það vegna þess að það vita það allir hér að Stefán Valgeirsson hefur verið talsmaður þess, og verið stoltur af, að ríkið ætti að leggja fram úr

sjóðum almennings mikið fé til byggðamála, til fyrirtækja og margvíslegrar fyrirgreiðslu. En jafnvel hann sá að í þeirri tillögu sem hér á að bera upp til atkvæða væru ekki þeir varnaglar að það væri með eðlilegum hætti hægt að samþykkja hana.
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Friðrik Sophusson sagði hér undir lok sinnar ræðu og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson vék að því einnig að ég hefði í frægri skíðaferð minni á Vestfjörðum kosið að láta frekar skynsemina ráða þegar við blasti að fara niður fjallið sem var bæði hátt og á því svellbungur miklar í brekkunum. En þeir sem maður ræðir við verða þá líka að vera reiðubúnir til þess að láta skynsemina ráða. Þeir mega þá ekki halda þannig á málum að þeir segi: Við höfum höndlað allan sannleika í þessu máli. Og það sem við höfum hér lagt til er það eina rétta. Þeir verða þá að vera reiðubúnir að hlusta á þær viðvaranir og þau rök sem ég flyt fram eingöngu vegna þess að ég tel það skyldu mína sem ábyrgðarmann þessara mála að vara við, vegna þess að ég vil ekki að alþingismenn næstu ára eða ríkisstjórnir næstu ára láti það koma sér á óvart, verði þessar tillögur samþykktar, hvað þurfi að reiða fram mikið fé úr ríkissjóði á næstu árum til þess að standa undir þessum brtt. Þá væri ég að bregðast skyldu minni. Og ég vil heldur ekki fá frv. samþykkt hér á Alþingi þar sem röksemdir þeirra sem flytja brtt. fyrir því að það sé í lagi að samþykkja þær eru þær að það sé hægt að treysta fjmrh. til þess að velja nógu harðsvíraða nagla í stjórn sjóðsins til þess að þessar brtt. verði nánast marklausar í framkvæmd. Það er ekki rétt skipan að ganga þannig frá lagasetningunni hér á Alþingi að allt sé í raun og veru lagt á vald og í mat einhverra einstaklinga, hve góðir og vandaðir sem þeir ella kunna að vera. Þingið verður auðvitað líka að standa frammi fyrir því að marka reglurnar og það með ramma sem þeim er ætlað að fara eftir. Og það sem verið er að gera með þessum brtt. er að stækka þann ramma svo mjög, taka öryggisfestarnar svo mjög
í burtu og tína varnaglana þannig úr að það er alveg ljóst að þar með er verið að stórauka áhættu ríkissjóðs og almennings í landinu, hversu traustir og góðir sem þeir menn kunna að vera sem fjmrh. velur til þess að stýra þessu verki. Ég vil ekki standa að því að fá í hendur frv. þar sem málin eru opnuð með þessum hætti og meginrökin eru svo þau að tryggja eigi með þessum þremur einstaklingum að almenningur í landinu tapi ekki meira en ella vegna þess að það er sú grundvallarspurning sem menn hafa ekki svarað hér, hvort almenningur muni tapa meira en ella ef brtt. þessar verða samþykktar.
    Ég lýsti því yfir hér í ræðu minni að ég er alveg tilbúinn að skoða ýmsar af þeim brtt. sem hér hafa verið fluttar en ég er ekki reiðubúinn að samþykkja þær allar. Ég er ekki reiðubúinn að opna allar þær gáttir sem verið er að opna með brtt. og þá hvílir sú skylda einnig á flutningsmönnum þessara brtt. og á öðrum þingmönnum hér í hv. deild, hvort þeir hafa einhvern vilja til þess að leita samkomulags um þetta

efni eða hvort þeir ætla að efna til átaka sem verða óneitanlega mjög mikil við þann ráðherra og það ráðuneyti sem á að framkvæma þetta mál. Ég hef ekki kosið að fara út í þau átök. Það var ekki ég sem átti upphafið að þessum leik hér. Ég hef sýnt það að ég er reiðubúinn að ræða við menn um þessi mál, gerði það í aðdraganda frv. og er reiðubúinn að gera það einnig á meðan það er hér á Alþingi, en það eru takmörk fyrir því hvað er hægt að ganga langt að mínum dómi í því að breyta frv.