Námsgagnastofnun
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Frsm. menntmn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Hér er ekki um stórmál að ræða og mín skoðun er raunar sú að skynsamlegra hefði kannski verið að láta þetta standa eins og það er í brtt. nefndarinnar, þ.e. ,,ef stofnuð verða landssamtök foreldrafélaga skal þeim heimilt að tilnefna einn áheyrnarfulltrúa í námsgagnastjórn með málfrelsi og tillögurétti``. Ég held að þetta hefði getað haft þau áhrif að flýta fyrir stofnun slíkra samtaka. Það er hins vegar ljóst að flm. brtt. hafa dregið nokkuð í land með þær tillögur sem upphaflega voru á kreiki í umræðum í nefndinni. Og eftir atvikum sýnist mér að hægt sé að fallast á þá málamiðlun sem brtt. þeirra gerir ráð fyrir þótt að vísu mætti kannski segja að í ákvæðinu til bráðabirgða ættu að vera skýrari reglur um það hvernig eigi að skiptast á, hvar eigi að byrja t.d., hvaða umdæmi skuli fyrst tilnefna þarna áheyrnarfulltrúa. Eftir atvikum held ég þó að rétt sé að fallast á þetta og því dreg ég til baka f-liðinn á þskj. 701 þannig að hann kemur þá ekki til atkvæða hér.