Námsgagnastofnun
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég þakka hv. nefnd fyrir að hafa afgreitt frv. Þær brtt. sem hún hefur gert eru margar til bóta. Það er mjög athyglisvert að nefndin kaus að bæta þarna inn á verkefni Námsgagnastofnunar tónlistarskólum sem er góðra gjalda vert, en eins og kunnugt er þá eru þeir hins vegar samkvæmt nýjum lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga kostaðir öðruvísi en aðrir skólar, öðruvísi en grunnskólar, þannig að það er mál sem verður kannski pínulítið flókið að koma fyrir. Ég tel engu að síður skynsamlegt að taka á þessu eins og nefndin gerir tillögu um.
    Við meðferð málsins í 1. umr. skýrði ég frá því hvernig ég hefði hugsað mér að vinna að því að kalla til fulltrúa foreldrafélaga. Það var með þeim hætti að ég hefði óskað eftir því hjá fræðsluráðum eða fræðslustjórum að benda á virk foreldrafélög í viðkomandi umdæmum til að tilnefna fulltrúa í námsgagnastjórn. Ég benti á í því sambandi að þegar aðalnámsskrá grunnskóla var unnin á sl. ári fór ég fram á það við fræðslustjórann í Reykjavík annars vegar og fræðslustjórann á Vesturlandi hins vegar að þeir bentu á skóla þar sem væru mjög virk foreldrafélög. Það var gert og ég hafði hugsað mér að hafa svipaða aðferð við að kalla foreldrafulltrúana til í námsgagnastjórn.
    Nefndin hefur hins vegar kosið að fara hér aðra leið og hv. 3. þm. Vesturl. hefur greint frá því að hann geti fyrir sitt leyti og nefndin að öðru leyti fallist á brtt. hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur og Salome Þorkelsdóttur um þetta mál og það get ég út af fyrir sig líka gert.
    Varðandi það hvernig á þessu máli yrði haldið vil ég láta það koma fram að ég tel eðlilegt að á fyrsta tímabili verði það þau einu foreldrasamtök sem til eru í umdæmi sem tilnefni mann í þetta. Það eru samtökin Samfok í Reykjavík. Og í framhaldi af því væri náttúrlega eðlilegt að kalla til foreldrasamtök í því umdæmi sem þá hefðu verið mynduð, hvar svo sem það er. Ef þau hafa hins vegar ekki verið mynduð þegar fyrsta tímabilinu er lokið geri ég ráð fyrir að ég styngi upp á að leggja af stað sólarsinnis í kringum landið og byrja á að óska eftir því að fræðsluráð Vesturl. tilnefndi fulltrúa í námsgagnastjórn og svo koll af kolli.