Öryggi á vinnustöðum
Miðvikudaginn 14. mars 1990


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Ég ætla að leggja aðeins orð í belg varðandi það frv. sem hér hefur verið lagt fram. Ég vil þakka flm. framlagningu þess því að allt sem lýtur að því að vernda börn og unglinga við sína vinnu fyrir slysum er af hinu góða. Ég ætla þó ekki að fjalla mikið efnislega um þær breytingar sem þarna eru lagðar til. Ég ætla hins vegar aðeins að koma hér inn á gildi þess sem ég tel að það hafi í okkar þjóðfélagi að hér hefur svo verið í aldanna rás, og er enn, að unglingar og reyndar börn hafa þegar þau hafa fengið þroska til tekið þátt í atvinnu þeirra fullorðnu, tekið þátt í verðmætasköpun hvert í sínu byggðarlagi.
    Því miður hafa þjóðfélagsaðstæður breyst svo að í hinu stærra þéttbýli er þetta mikið til að hverfa. Það er bjargföst skoðun mín og trúa að þetta hafi haft mikið uppeldislegt gildi.
    Annað er það sem hv. 1. flm. kom hér inn á áðan sem ég hef tekið eftir. Það er vinna skólabarna með námi og þar finnst mér að hlutir hafi þróast mjög á verri veg. Ég man það þegar ég var í skóla, bæði gagnfræðaskóla, sem nú mundi heita grunnskóli, og menntaskóla, að við vorum ósköp sátt við það, skólafólk á þeim tíma, að vera fátækir námsmenn og láta okkur nægja það sem við unnum okkur inn yfir sumarmánuðina og það sem foreldrar okkar gátu þess utan skaffað okkur. Og ég get ekki meint að við höfum verið neitt óhamingjusamari sem skólafólk á þeim tíma en nú er nema síður sé. Og ég sakna þessa líka að því leyti að það er bæði hollt og skemmtilegt að vera námsmaður sem hefur ekki úr allt of miklu að spila og á þann hátt geta staðið eilítið til hliðar við okkar neysluþjóðfélag og veitt því visst aðhald.
    Ef við komum síðan að vinnu barna. Það sem snýr að mér er kannski fyrst og fremst þátttaka barna í vinnu í sveitum. Þar hafa orðið verulegar breytingar á með aukinni tækni þannig að kannski er minni vettvangur fyrir börnin til
vinnu. Það er líka orðin sú breyting á og til mikilla bóta að það er nánast að hverfa að ung börn séu látin vinna vélavinnu, í það minnsta þar sem ég þekki til. Þegar við bætist líka að dráttarvélar í dag eru orðnar miklu öruggari tæki fyrir þá sem stýra þeim og stjórna en var áður, þá hefur hættan á slysum þess vegna minnkað stórlega og heyrir því betur nánast undantekningum til. Raunar miklu meiri hætta fyrir þá sem eru í kringum vélarnar og þá alveg burtséð frá því hvort það eru fullorðnir eða unglingar sem stýra þeim.
    Annar þáttur þessa máls er þátttaka barna og unglinga í verðmætasköpun við sjávarsíðuna. Þann þátt þekki ég miklu síður en hyggst þó vita að þar hafi unglingar oft hlaupið inn í þegar mikið hefur legið við og jafnvel lagt nótt við dag með hinum fullorðnu þegar þannig hefur staðið á. Við því held ég að sé ekkert að segja ef þeir fá sinn eðlilega hvíldartíma á milli þess sem tekið er á verkum á hverjum tíma.
    Að lokum held ég að við megum ekki undir

nokkrum kringumstæðum falla í þá gryfju að fara að rugla atvinnuþátttöku barna og unglinga í okkar atvinnulífi hér á landi, eins og hefur verið í gegnum tíðina og ég sagði áðan að ég teldi það hafa mikið uppeldislegt gildi, saman við þá sem við þekkjum úr mannkynssögunni annars staðar frá og vitum að viðgengst enn þá í sumum hlutum heimsins að börn séu sett í vinnu gagngert til auðgunar fyrir þá sem ráða þau eða skikka þau til vinnu, oft og tíðum bæði erfiða og óþrifalega.
    Þetta er það innlegg sem ég hefði viljað koma inn í þessa umræðu. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að það að stuðla að því að börnum og unglingum stafi ekki hætta af þátttöku í atvinnulífinu tel ég vera af því góða.